Nú á nota fasteignir heimilanna til að endurreisa lífeyrissjóðina - Sjálfstæði Seðlabankans fer fyrir lítið

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 1.6.2010.

Ég verð að taka undir með greiningu Íslandsbanka að trúverðugleiki Seðlabankans beið hnekki.  Þetta var að vísu heldur illa varðveitt leyndarmál, að lífeyrissjóðirnir ættu að fá þessi skuldabréf.  A.m.k. hef ég vitað af því í nokkurn tíma.  Mánuð til að vera nákvæmari.  Mér var líka sagt að lífeyrissjóðirnir ættu að fá íbúðalánin á gjafvirði, en þeir myndu síðan innheimta þau að fullu!  Ég er alveg hættur að fatta þetta lið sem stjórnar landinu.  Heldur það virkilega, að heimilin geti reddað öllum sem klúðrað hafa sínum málum.

Annars er fróðlegt að lesa réttlætingu Seðlabankans fyrir því að farin var sú leið, sem ákveðin var af fjármálaráðherra fyrir langa löngu.  Höfum í huga að fyrir nokkrum dögum átti að fara í opið útboð, en það var ekki hægt "vegna flókinna skilyrða og fyrirvara sem fylgja sölunni, svo sem varðandi óvissa afhendingu".  Ég geri meiri kröfu til Seðlabankans en að menn hafi ekki vitað fyrir fáeinum dögum að skilyrði væru flókin og sölunni fylgdu fyrirvarar.  Nei, þetta mál er sýndarmennska, sem eykur hvorki trúverðugleika Seðlabankans né ríkisstjórnarinnar.  Af hverju geta menn ekki bara komið hreint fram og sagt sannleikann?  Af hverju þarf að pakka þessu djóki inn í umbúðir "lokaðs útboðs"?  Merkilegt að 26 lífeyrissjóðir hafi náð að sammælast um þetta tilboð á innan við 10 dögum, þegar þeir hafa ekki getað sammælst um atvinnuskapandi verkefni síðustu 18 mánuði eða svo.  Enda tók það ekki nokkra daga.  Þetta er búið að vera marga mánuði í undirbúningi. Það má bara ekki líta þannig út.  Halda menn virkilega að Seðlabankinn hafi farið í samninga við seðlabanka Lúxemborgar án þess að vita hvað yrði af bréfunum, þegar þau kæmust í hendur SÍ.

Er það nema von, að Besti flokkurinn og önnur óflokksbundin framboð hafi unnið marga stóra sigra í sveitastjórnakosningunum.  Það er vegna þess að þeir sem kenna sig við "alvöru stjórnmál" eru ekki trúverðugir í því sem þeir taka sér fyrir hendur komist þeir til valda.  Trúðsháttur er það sem kemur mér í huga og nú er búið að draga Seðlabankann og lífeyrissjóðina inn í þennan sirkus.

Ég vona innilega, að það skilyrði hafi verið sett inn í samninginn við lífeyrissjóðina, að þeir veiti Íbúðalánasjóði góðan afslátt af íbúðabréfunum.  Fyrst ÍLS fékk ekki að kaupa til baka bréfin sín með góðum afslætti, þá er lágmark að lífeyrissjóðirnir veiti ÍLS hluta af þeim afslætti sem þeir fengu fyrir algjöra tilviljun hjá Seðlabankanum.  Þá vona ég að sams konar skilyrði séu inni gagnvart heimilunum í landinu.

Það sem er samt alvarlegast í þessu, er að sjálfstæði Seðlabankans er orðin tóm.  Bankinn tekur við fyrirmælum frá fjármálaráðuneytinu, forsætisráðuneyti og efnhags- og viðskiptaráðuneyti.  Halda menn virkilega að fólk sjái ekki í gegn um þetta sjónarspil?  Annað hvort er Seðlabankinn sjálfstæður og hann tekur sínar ákvarðanir út frá fjárhagslegum og efnahagslegum hagsmunum eða hann er ekki sjálfstæður og dansar eftir einhverri pólitískri línu.  (Ah, það er náttúrulega það sem Seðlabankinn hefur alltaf gert, en átti það ekki að breytast?)

Í þjóðfélaginu hafa verið upp sterkar kröfur um siðbót, gegnsæi og breytta stjórnsýslu.  Steingrímur J. hefur haft uppi stór orð um að einstaklingar innan VG séu trúir sannfæringu sinni.  Hann talaði fjálglega um það í Silfrinu á sunnudag, að Sóley Tómasdóttir og Svandís Svavarsdóttir láti ekki ágjöf hrekja sig af leið.  Sjálfur virðist hann gjörsamlega búinn að tapa öllum hugsjónum sínum um betra samfélag.  Gagnrýni hans á fyrri valdhafa er hjákátleg í dag og sýnir að völd fá menn til að gera furðulegustu hluti.

Það getur vel verið að þessi samningur sé mjög góður fyrir alla og besti leikurinn í stöðunni.  Það er ekki málið. Verið er að stilla upp einhverju leikriti, þar sem Seðlabankinn er látinn taka u-beygju og í leiðinni tapa trúverðugleika sínum.  Fyrst að þessi niðurstaða var fyrir löngu ljós, af hverju mátti ekki bara segja það um daginn?  Ég efast um að nokkrum hefði þótt það óeðlilegt.  Nei, í staðinn er grafið undan Seðlabankanum.  Hefur Seðlabankinn virkilega efni á því að trúverðugleiki hans bíði frekari hnekki?