Skuldir eigenda og stjórnenda bankanna námu fimmfaldri þjóðarframleiðslu. - Brostin siðgæðisvitund eigenda og stjórnenda bankanna

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.4.2010.

Það eru merkilegar tölur sem birtar eru í fréttum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins í dag.  Skuldir eigenda bankanna, fyrirtækja sem þeir áttu, stjórnenda bankanna og tengdra aðila við íslensku fjármálafyrirtæki sem féllu námu yfir 7.100 milljörðum kr.  Þetta er nærri því fimmföld þjóðarframleiðsla Íslands árið 2008 og örugglega meira en fimmföld þjóðarframleiðsla árið 2009.  Þetta á ekki að geta gerst og bendir til ótrúlegrar vanrækslu og vanhæfni stjórnenda og eigenda bankanna.  Fyrir utan að í þessu flest gróf markaðsmisnotkun, þar sem fjármagni er hreinlega beint í tiltekinn farveg á kostnað annarra lántaka.  Með þessu var einnig byggð inn gríðarleg áhætta, þar sem fall einnar einingar í þessari keðju myndi verði til þess að öll keðjan leystist upp, eins og reyndin var.

Bætum svo við þetta eignum lífeyrissjóðanna og almennings sem lagðar voru að veði og þá getum við örugglega hækkað töluna um 500 - 1.000 milljarða kr.  Bætum þá við Icesave innistæðum og tapið hækkar um 1.000 milljarða til viðbótar.

Heimilin í landinu eru að biðja um að lán þeirra verði leiðrétt sem nemur um 300 milljörðum.  Það er innan við 4% af þeirri upphæð sem fjárhættuspil eigenda bankanna og tengdra aðila kostaði þjóðina.  Já, heil 4%.  Ef hægt er að afskrifa 7.100 milljarða hjá þessu innan við 100 fjárhættuspilurum, þá ætti varla vera mikið mál að stroka út 300 milljarða kr. hjá almenningi.  Gerum það og það strax.  Hættum að bíða.  Hættum að finna afsakanir.  Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis sýnir fram á, að þetta var vel skipulagður glæpur.

Ég krefst þess, að komið verði í veg fyrir  að nokkur þessara aðila fái að eignast fyrirtækin sín aftur eða fái að eignast eða reka fyrirtæki hér á landi um aldur og ævi.  Ég krefst þess að ákærur verði gefnar út á hendur öllu þessu fólki fyrir að rústa efnahag heimilanna, fyrirtækjanna sem voru ekki í þeirra eigu, fjármálakerfisins, sveitarfélaganna og hins opinbera.  Ég krefst þess jafnframt að Fjármálaeftirlitið noti þær heimildir sem stofnunin hefur, til að svipta alla þessa einstaklinga rétt til að vinna í fjármálafyrirtækjum.  Ég krefst þess að eignir þessara einstaklinga verði frystar strax.  Ég krefst þess að þetta nái til allra þeirra innan bankanna sem sniðgengu lög, reglur, verkferla, góða viðskiptahætti, almenna varúð, eðlilega áhættustýringu og góða stjórnhætti.  Þeir sem gerðu það, eru alveg jafnsekir og þeir sem fyrirskipuðu bullið.  Það er greinilega eitthvað verulegt að siðgæðisvitund þeirra einstaklinga, sem tóku þátt í þessu rugli.  Það er ekki afsökun að annars hefði fólk misst vinnuna.  Það er ekki afsökun að þetta hafi verið hluti af stefnu bankans eða fyrirtækisins.  Það er ekki afsökun að þetta hafi bara verið viðskipti.  Þetta var græðgi, þetta var drambsemi, þetta var valdafíkn.  Kannski er til of mikils ætlast að þetta fólk missi allt störf sín hjá bönkunum.  Samt er ég ekki viss.  Það er vegna verka þessara einstaklinga, að fjölmörg heimili í landinu eru komin á vonar völ eða eru á leiðinni þangað.  Það er vegna verka þessa fólks sem mörg fyrirtæki eru komin í þrot.  Kaldhæðnin er svo að í einhverjum bönkum, eru þeir sem voru frekastir í því að brjóta reglurnar, settir yfir þær einingar bankanna sem eru að gera upp og taka yfir fyrirtæki og eignir heimilanna.  Þetta er náttúrulega bara skandall.  Skammist ykkar.


Allra stærsti skuldarinn