Stjórn VR getur ekki stutt Hagsmunasamtök heimilanna né afnám verðtryggingar

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 30.1.2010.

Mér finnst með ólíkindum í svari meirihluta stjórnar VR sú yfirlýsing að stjórnin geti ekki stutt við baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna vegna samstarfs HH við Nýtt Ísland um baráttufundi á Austurvelli!  Orðrétt segir í svari meirihluta stjórnar VR:

En stjórn VR getur ekki stutt Hagsmunasamtök heimilanna meðan þau eru í samstarfi við samtökin Nýtt Ísland sem varla er hægt að lýsa öðruvísi en sem öfgasamtökum.

Mér finnst það sorglegt að meirihluti stjórnar VR skuli ekki geta greint á milli hagsmunabaráttu Hagsmunasamtaka heimilanna og þess að samtökin haldi útifundi með "stjórnarandstöðunni".  Ég held að það sé kominn tími til að meirihluti stjórnar VR ræði við félagsmenn sína um ástandið í þjóðfélaginu.  Það þarf óvenjulegar aðferðir til að ná athygli, alveg eins og forsvarsmenn verklýðshreyfingarinnar gerðu á árum áður.  Þessu virðist verkalýðshreyfing hafa gleymt.  Með heiðarlegri undantekningu í "stjórnarandstöðu" VR og Vilhjálmi Birgissyni, þá hefur ENGINN forystumaður í launþegahreyfingu þorað að víkja af línunni sem mörkuð var af ASÍ.

Látum vera að stjórn VR lýsi ekki yfir stuðningi við HH, en að bera fyrir sig greiðslum til lífeyrisþega sem ástæðu fyrir því að ekki megi afnema verðtryggingu er ótrúlegt.  Það er ekkert, já ekkert, sem bendir til þess að verðtrygging útlána eða eigna lífeyrissjóðanna ráði um það hvort þeir geta staðið undir verðtryggingu lífeyris.  Lífeyrissjóður verzlunarmanna, svo dæmi sé tekið, fékk inngreidd iðgjöld upp á um 14 milljarðar á síðasta ári meðan útgreiddur lífeyrir nam innan við 7 milljörðum.  Hvað bendir til þess að verðtryggja þurfi um og yfir 50% af eignum sjóðsins?  (Samkvæmt árshlutauppgjöri vegna 3. ársfjórðungs 2009 eru tæp 53% eigna sjóðsins verðtryggðar með vísitöluneysluverðs.) Það er nákvæmlega ekkert, auk þess er það krafa HH að verðtrygging sé tekin úr sambandi vegna fasteignaveðlána.  HH hefur aldrei skipt sér að því hvort önnur lán séu verðtryggð, en það er skoðun samtakanna að verðtrygging sé barn síns tíma.

En skoðum svar meirihluta stjórnar VR við áskorun um að hann styðji kröfuna um afnám verðtryggingar:

Skilja má kröfu þremenninganna þannig að þeir krefjist neikvæðra raunvaxta enda ekki ljóst hvar þeir vilja að vaxtaþakið liggi. Hvernig neikvæð ávöxtun getur samrýmst hagsmunum efnahagslífsins og t.d. sjóðfélaga í lífeyrissjóðum er vandséð. Er það virkilega ásetningur þremenningana (sic) að rýra eignir lífeyrissjóðsfélaga enn frekar sem myndi hafa í för með sér lækkun  á greiðslum til elli- og örorkulífeyrisþega núna  og í framtíðinni? Vilja þeir jafnvel  ganga enn lengra og afnema verðtryggð afkomuréttindi þeirra líka? Lítil er samúð þeirra og samkennd með öldruðum og öryrkjum.

Mér finnst þetta svar benda skýrt til þess, að meirihluti stjórnar VR hefur enga trú á stöðugleika í íslensku hagkerfinu og sá stöðugleiki eigi ekki verða til vegna þess að fjármagnseigendur taki þátt í að skapa hann.  Raunvextir verða þá og því aðeins neikvæðir að óstöðugleikinn haldi áfram.  Hvergi í heiminum er húsnæðiseigendum boði upp á lán sem alltaf bera jákvæða raunvexti.  Hvergi í heiminum eru húsnæðislán alltaf með lágmarksraunvexti.  Alls staðar annars staðar taka lánveitendur áhættu í lánveitingum sínum.  Húsnæðislán eru ekki hugsuð sem gróðrarlind fyrir fjármálafyrirtæki heldur sem traust og örugg lágmarksávöxtun til langs tíma. Þess vegna vilja Hagsmunasamtök heimilanna að verðtrygging fasteignaveðlána verði aflögð.

Með fullri virðingu, þá vissi ég ekki að það væri hlutverk stjórnar VR að gæta hagsmuna lífeyrissjóðanna.  Það væri hlutverk stjórna lífeyrissjóðanna.  Ég hélt að þetta væru tveir óháðir aðilar.  En burt séð frá því, þá vil ég benda stjórn VR á nokkrar staðreyndir, þar sem ég veit talsvert um starfsemi lífeyrissjóðanna:

  • Fjölmargir lífeyrissjóðir hafa skert útgreiðslu til lífeyrisþega á undanförnum árum þrátt fyrir umfangsmiklar verðtryggðar eignir sjóðanna.

  • Verðtryggðar eignir fjögurra stærstu lífeyrissjóða landsins voru í upphafi árs 2009 á bilinu 45-55% af eignasöfnum sjóðanna, þrátt fyrir að verðtryggðar skuldbindingar þeirra væru umtalsvert minni, eða innan við 10% hjá þeim öllum (raunar 4 - 8%).  Það þarf ekki verðtryggðar eignir upp á 45-55% til að standa undir innan við 10% verðtryggðum útgreiðslum.

  • Ávöxtun þessara fjögurra stærstu sjóða hefur undanfarin ár (að 2009 undanskildu) stjórnast alfarið af óverðtryggða hluta eigna þeirra og þrátt fyrir góða ávöxtun, þá hefur þurft að skerða lífeyrisgreiðslur, þar sem menn vanmátu skuldbindingar sjóðanna.

  • Greiðslur inn í lífeyrissjóðina voru of litlar fyrstu ár sjóðakerfisins, sjóðirnir voru margir illa reknir og sýndu lélega ávöxtun.  Þeir, sem greiddu inn í sjóðina á þeim tíma, greiddu einfaldlega of lítið inn og eru að fá meiri greiðslur út en nemur réttindaávinningi þeirra.  Þess vegna var ákveðið að hækka iðgjöldin upp í 12%.

  • Krafan um 3,5% raunávöxtun er bara tala.  Henni má breyta.

  • Ákvæðið um verðtryggingu afkomu lífeyrisþega hefur ekki komið í veg fyrir ítrekaðar skerðingar á lífeyrisgreiðslum.

Annars sýnist mér svar meirihluta stjórnar VR benda til þess, að í lagi sé að vera með mismunandi hægfara eignaupptöku í formi verðtryggðra húsnæðislána.  Gerir stjórn VR sér grein fyrir, að sé tekið 20 m. kr. verðtryggt lán til 40 ára með 5,0% vöxtum og meðalverðbólga síðustu tveggja áratuga upp á um 6% notuð, þá greiðast tæpar 60 m.kr. í verðbætur á lánstímanum!  Það er þreföld lánsupphæðin!  Vaxta- og verðbótaþáttur lánsins nemur samtals 112 m.kr. af 131 m.kr. heildargreiðslu.  Sé verðbótaþátturinn tekinn út, þá lækkar heildargreiðslan í 40 m.kr., þannig að verðbótaþátturinn er alls 91 m.kr.  Hvað ætli mætti hækka greiðslur í lífeyrissjóði mikið, ef greiðandi hefði þessa peninga til eigin ráðstöfunar?

Sjónarmið meirihluta stjórnar VR til verðtryggingarinnar fasteignaveðlána er kolrangt.  Verðtryggingin er böl, ekki kostur.  Hún ýtir undir óstöðugleika og dregur úr þörf fyrir áhættustýringu.  Verðtrygging hefur ekki komið í veg fyrir að lífeyrir hafi verið skertur og hún hefur ekki verið ástæðan, þegar lífeyrir hefur hækkað.  Skjaldborg verðtryggingarinnar um lífeyrinn hefur ekki haldið, ef lífeyrissjóðir hafa klúðrað einhverju eða að forsendur hafa breyst.

Ég tek það skýrt fram, að ég er á engan hátt að gagnrýna félagsmenn eða starfsmenn VR. Sjálfur er ég ekki félagsmaður, en var það fyrir um 20 árum.  Ég er að gagnrýna það, að þrír stjórnarmenn koma með áskorun til meirihlutans um mál sem maður hefði haldið að auðvelt væri að sameinast um.  Í staðinn fyrir að ræða áskorunina er farið í skotgrafirnar og reynt að gera lítið úr málflutningi þremenninganna. Hagsmunasamtök heimilanna eru dreginn inn í skotgrafahernaðinn vegna þess að þau vinna með Nýju Íslandi, en þau samtök eru meirihluta stjórnar VR ekki þóknanleg.  Ég vil skora á stjórn VR að endurmeta afstöðu sína og búa til sína eigin yfirlýsingu til stuðnings heimilum landsins.  Ég skora á meirihluta stjórnar VR að sanna fyrir hvern félagið vinnur með því að taka afstöðu með hinum almenna félagsmanni í baráttunni fyrir bættum kjörum og þá fyrst og fremst lánakjörum.  Þið þurfið ekkert að vinna með Hagsmunasamtökum heimilanna, bara að þið komið út og verið með í baráttu almennings.


VR snúi sér að atvinnulausum