Svindl og svínarí í skuldsettri yfirtöku

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.2.2010.

Það er með ólíkindum þetta plott nokkurra ósvífinna einstaklinga/eignarhaldsfyrirtækja að kaupa fyrirtæki af sjálfum sér með skuldsettri yfirtöku til þess eins að mjólka nokkra tugi milljarða út úr bankanum sínum. Eins og kemur fram í frétt Markaðarins 11. apríl 2007 og ég hef raunar vakið nokkrum sinnum athygli á, þá tókst þessum mönnum að greiða sér út sex falda þá upphæð í arð sem fór í að kaupa fyrirtækið Iceland.  Nú birtir Morgunblaðið þá frétt að plottið var ennþá dýpra eða eigum við að segja ósvífnara.  Jón Ásgeir og félagar stofnuðu fyrirtækið Iceland Food Stores Limited til að kaupa hlutabréf Iceland verslunarkeðjunnar af fyrirtækinu Icebox Holding, sem var í eigu sömu aðila, fyrir litlar 560 milljónir punda.  Þá jafngilti það þetta um 73 milljörðum kr. miðað við núverandi gengi er talan  rúmlega 110 milljarðar.

Plottið í þessum viðskiptum var að ná í 280 milljónir punda og greiða til eigendanna.  Upphæðin var fengin frá Landsbanka Íslands.  Hinn helmingur kaupverðsins var fenginn með því að skuldsetja Iceland verslanirnar (samkvæmt frétt Morgunblaðsins) um 280 milljónir punda.  Ég skil vel að fólk hafi verið glaðbeitt á myndinni úr boðsferð Landsbankans sem farið hefur um netið undanfarna daga.  Síðan er það náttúrulega alveg ótrúleg tilviljun eða hitt þó heldur, að maðurinn sem veitti lánið og tók þátt í gleðskapnum með þeim sem fengu lánið, skyldi hafa verið ráðinn bankastjóri bankans sem lántakendur áttu.  Í siðmenntuðu þjóðfélagi væri þetta talið augljóst merki um mútur.  En við erum ekki siðmenntað þjóðfélag.  Þessir menn gerðu Ísland að bananalýðveldi af verstu sort.

Ég verð að viðurkenna, að ég er orðinn ákaflega þreyttur á þessum svikamyllusögum.  Ég er orðinn ennþá þreyttari á öllum þeim sem hafa komið fram og réttlætt ruglið.  Það er út í hött að fá lán til að greiða út arð.  Það er út í hött að kaupa skuldlaust fyrirtæki af sjálfum sér og skuldsetja það fyrir raunvirði þess.  Það er út í hött að tvöfalda verð á fyrirtæki á nokkrum mánuðum til þess eins að ná í viðbótar aur.  Alveg sama hvar er komið niður, alls staðar blasir bullið við.  Og síðan á að leyfa þessum sömu aðilum að eignast gömlu svikamyllufyrirtækin sín eftir skuldahreinsun.  Það þarf mikla viðskiptaheimsku til að búa yfir svona hroka og græðgi.  Átta menn sig ekki á því að þeir glötuðu mannorði sínu og það verður ekki svo auðveldlega unnið aftur.

Eftir því sem fleiri svona mál koma upp á yfirborðið missir maður trúna á þetta samfélag.  Stundum held ég að ekki sé upp á það púkkandi.  Hvers vegna er maður að búa í samfélagi, þar sem fáeinir einstaklingar telja það sjálfsagt að láta fyrirtæki taka himin há lán, bara svo þeir geti fengið greiddan út fáránlegan arð?  Eða lögmenn og endurskoðendur virða að vettugi starfseiða sína um að virða lögin vegna þess að þeir fá með því aðeins meiri tekjur?  Staðreyndin er sú, að Jón Ásgeir og co hefðu aldrei getað gert það sem þeir gerðu, ef ekki hefði verið fyrir lögmenn og endurskoðendur sem voru tilbúnir að finna leiðir framhjá lögunum, brjóta þau, litu á ólöglegt athæfi með blinda auganu eða sýndu vítavert gáleysi og vanhæfi í starfi.  Það hafa alveg nógu margir haft samband við mig með upplýsingar um ýmis "bolabrögð" þessara stétta til þess að ég viti alveg hvað ég er að segja.  Sem betur fer tók tiltölulega fámennur hópur þátt í mesta sukkinu, en einn er einum of mikið.  Skora ég á þessa aðila að sýna sóma sinn í því að stíga fram og greina satt og rétt frá því sem þeir tóku þátt í.  Við samborgarar ykkar eigum það inni hjá ykkur.


Iceland-arðurinn 2007 fjármagnaður af Landsbanka