Verið að meðhöndla einkennin ekki sjúkdóminn

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 18.3.2010.

Ríkisstjórnin kynnti í dag það, sem kallar er "umfangsmiklar aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna".  Ég hef á síðustu dögum fengið tvær kynningar á þessum aðgerðum, fyrst af hálfu félagsmálaráðherra á fund þverpólitísks starfshóps Alþingis um skuldavanda heimilanna og fyrirtækja og hins vegar á fundi með aðstoðarkonu félagsmálaráðherra.  Margt sem kemur fram í þessum pakka ríkisstjórnarinnar kemur ekki á óvart, þar sem er í dúr og moll við atriði sem hinn þverpólitíski stafshópur hefur lagt til.  Fyrir réttum mánuði sættist hópurinn á 24 atriði sem lögð voru fyrir félagsmálaráðherra.  Mér sýnist, sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar taki á hátt í 17 af þessum atriðum.  Get ég ekki verið annað en sáttur við þau viðbrögð, en vil velja á athygli á því að stærstu álitamálin bíða úrlausna.

Förum fyrst yfir þau atriði sem bera hæst í aðgerðum ríkisstjórnarinnar:

1. Umboðsmaður skuldara:  Sett verður á fót ný stofnun sem á að gæta hagsmuna lántaka.  Hún á að halda utan um greiðsluaðlögunarferlið, auk þess að fylgjast með og koma með ábendingar um það sem betur má fara.

2.  Ný greiðsluaðlögunarlög þar sem fyrri lög eru sameinuð í ein og þar með verður eitt ferli fyrir bæði samningskröfur og veðkröfur.  Allar kröfur verða undir í einum samningi.  Greiðsluaðlögun getur átt sér stað í frjálsum samningi, en gangi það ekki, þá er það hlutverk umboðsmanns skuldara að fara með greiðsluaðlögunarsamning fyrir dómara.  

3.  Gert er ráð fyrir að einstaklingar sem flust hafa úr landi geta sótt um greiðsluaðlögun svo fremi sem meiri hluti skulda þeirra sé hér á landi.  Er þetta mikil réttarbót fyrir þá sem farið hafa í nám eða til starfa utan landsteinanna.

4.  Rýmkaðar eru heimildir starfandi einyrkja til að sækja um greiðsluaðlögun, en áður þurfti fólk að hafa hætt rekstri fyrir minnst þremur árum.

5.  Bjóða á upp á úrræði fyrir fólk með tvær eignir.

6.  Gert er ráð fyrir úrræðum vegna bílalána, en það hefur ekki verið útfært.

7.  Fólki verður gert kleift að búa áfram í húsnæði sem það hefur misst á nauðungarsölu.

8.  Takmarka á innheimtukostnað sem hægt er að rukka skuldara um.  Dómsmálaráðherra fær heimild til að ákveða hvað má heimta úr hendi skuldara, en lögmenn geta áfram rukkað kröfuhafann um það sem þeim finnst nauðsynlegt.

9.  Bætt er inn úrræði fyrir fólk sem lent hefur í tekjumissi.

10.  Afskrift í lok greiðslujöfnunar verður skattfrjáls.  Það á einnig við um "hóflega" afskrift.

11.  Íbúðalánasjóður fær heimild til að veita óverðtryggð lán.

12.  Móta á nýja húsnæðisstefnu og taka upp húsnæðisbætur í stað vaxtabóta og húsaleigubóta.

Ýmislegt má segja um þennan pakka.  Hér er fyrst og fremst verið að gera lagfæringar á ýmsum atriðum vegna ábendinga um að fyrra fyrirkomulag hafi ekki verið nægilega gott.  Flest atriðin eiga það sammerkt að lækna á einkenni skuldavanda heimilanna, en orsökin er látin eiga sig.  Við skulum hafa í huga, að væri höfuðstóll lána heimilanna leiðréttur í samræmi við tillögur, t.d. Hagsmunasamtaka heimilanna, þá væri lítil þörf fyrir að meðhöndla einkennin. 

Hér varð gríðarlegur forsendubrestur vegna lána heimilanna og fyrirtækja.  Afleiðing af því er að flestir lántakar þurfa að standa undir stökkbreyttri skulda- og greiðslubyrði sem leitt hefur til verulega skertrar eignastöðu eða neikvæðrar eiginfjárstöðu.  Lausn ríkisstjórnarinnar fjármálafyrirtækjanna er að svipta fólk og fyrirtæki eigum sínum.  Fyrirtækin sem voru völd að því að allt fór á hliðina (og afsprengi þeirra), sjá þá einu lausn að yfirtaka eigur lántaka.  Þau hafa ekki þá hugmyndauðgi að leiðrétta af sanngirni og réttlæti höfuðstól lánanna.  Nei, þau telja sig ekki bera neina skyldu (siðferðislega eða lagalega) til að bæta fyrir þann skaða sem þau ollu.

Af atriðunum að ofan, þá er ég nokkuð sáttur við atriði 1, 2, 3, 4, 8, 9, 10, 11 og 12.  Lítið er hægt að segja um atriði 5 og 6, en þetta með að fólk fái að búa í eign sem það er búið að missa á nauðungarsölu er í mínum huga heldur aumt.  Ekki hefði ég áhuga á að búa í húsnæði, sem búið væri að selja ofan af mér.  Nær hefði verið að leita leiða til að koma í veg fyrir nauðungarsöluna.

Ég hef í rúmlega 18 mánuði talað fyrir því að lán heimilanna væru leiðrétt.  Í tillögum mínum frá 7. október 2008 stakk ég upp á því að hverju láni fyrir sig væri skipt í gott lán og slæmt lán.  Góða lánið endurspeglaði t.d. stöðu lánsins 1. janúar 2008, en slæma lánið það sem umfram væri.  Lántaki greiddi af góða láninu, en slæma lánið væri sett á frost eða afskrifað á nokkrum árum.  Ég held ennþá að þetta sé besta lausnin.  Raunar sú eina rétta. Ef við ætlum ekki að leggja þetta samfélag alveg í rúst, þá verða að koma fljótlega tillögur sem koma í veg fyrir þá miklu eignaupptöku sem nú er í gangi.  Það er ekki nógu gott að 70 - 80 þúsund einstaklinga hafi þurft að nýta sér sértæk úrræði.  Með ekki er tekið föstum tökum á skulda- og greiðsluvanda heimilanna, þá mun þeim fjölga sem þvingað er í sértæk úrræði.