Afslættir af lánum heimilanna og afslættir af íbúðalánasöfnum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 18.10.2011.

Ennþá heldur hann áfram orða- og talnaleikur bankanna.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa þráfaldlega spurt:

Hver var afslátturinn sem viðskiptabankarnir þrír fengu af lánasöfnum heimilanna þegar þau voru flutt frá gömlu bönkunum til þeirra nýju?

Upplýsingar um þetta hafa verið margar og misjafnlegar.  Skoðum hvað hefur verið sagt af mismunandi aðilum á mismunandi tíma:

1.  Hagtölur Seðlabanka Íslands:

Samkvæmt upplýsingum sem Seðlabanki Íslands hefur safnað frá fjármálastofnunum í rekstri, þá lækkaði bókfært virði útlána innlánsstofnana um 447 ma.kr. milli talna í september og október 2008.

2.  Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir fyrstu endurskoðun, svo kölluð októberskýrsla:

Í skýrslunni er birt súlurit sem sýnir "gross and fair value of household debt" sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.  Ein súla sýnir "gross value" og önnur súla sýnir "fair value".  Séu þessar súlur bornar saman, þá kemur í ljós að mismunurinn er rétt innan við 130 ma.kr. fyrir Íslandsbanka, rétt innan við 125 ma.kr. fyrir "New Kaupthing" og tæplega 113 ma.kr. fyrir "New Landsbanki".  Alls gerir þetta ríflega 360 ma.kr.

3.  Svari Árna Páls Árnasonar við fyrirspurn Árbjarnar Óttarssonar:

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, svaraði fyrirspurn frá Ásbirni Óttarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, í byrjun október 2010 um yfirfærslu lánasafnanna.  Þar greinir ráðherra frá því að bankarnir hafi fengið 90 ma.kr. afslátt af húsnæðislánum og 1.600 ma.kr. af lánum fyrirtækja.

4. Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna:

Í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna kemur fram á blaðsíðu 30: 

Um það leyti sem endanlega var gengið frá samningum við gömlu bankana heyrðust raddir um að gengistrygging lána kynni að vera ólögmæt. Það atriði var á þeim tíma umdeilt meðal lögfræðinga og algjörlega óraunhæft að meðhöndla öll slík lán sem ólögmæt í samningunum. Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna..

Annars staðar í þeirri sömu skýrslu (bls. 21) segir að allar eignir hafi verið færð á milli bankanna með 45 til 53% afslætti  en ekki er gefin sundurgreining á því hvaða afsláttur var gefinn af lánasöfnum sérstaklega.

5. Svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þór Þórðarsonar um afslætti á lánasöfnunm:

Í svari Steingríms J. Sigfússonar við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar frá því um miðjan september kemur fram að afsláttur sem Landsbankinn fékk var 79 ma.kr. á lánum heimilanna og 506 ma.kr. á lánum fyrirtækja.  Íslandsbanki gefur bara upp heildartölu og er afslátturinn samkvæmt henni 425 ma.kr.  Arion banki gefur ekki upp afsláttinn heldur bara virði lánasafna.

6. Kröfuhafaskýrslur slitastjóra Kaupþings:

Í Creditor Report Kaupþings voru framan af birtar upplýsingar efnahag nýja bankans.  Eitt af því sem birt var voru upplýsingar um bókfært virði lánasafna sem færð voru frá Kaupþingi til nýja bankans og "impairments", þ.e. varúðarfærslu vegna lánanna.  Lán viðskiptavina sem metin voru á 1.410 ma.kr. fengu á sig 954 ma.kr. "impairment" færslu, þannig að virði þeirra í nýja bankanum hefði því átt að vera 456 ma.kr.  Í skýrslu fyrir september 2009 er hætt að birta þessar upplýsingar, en í staðinn greint frá því að lán að verðmæti 190 ma.kr. hafi verið færð til baka og af þeim hafi 90 ma.kr. verð óveðsett.  Ekki er getið hver "impairment" hafi verið á þessum hluta, en gefum okkur að hlutfallið hafi verið hið sama þá gerir það128 ma.kr. og bingó við fáum 327,5 ma.kr. sem virði yfirfærðra lánasafna viðskiptavina, en það er nánast sama tala og gefin er upp í svari Steingríms til Guðlaugs Þórs.

7. Morgunblaðið 18.10.2011:

Í Morgunblaðinu í dag greinir Guðlaugur Þór Þórðarson frá því að afslættir bankanna á íbúðalánum hafi verið mjög mismunandi eftir bönkum, þ.e. 34% hjá Landsbankanum, 30% hjá Íslandsbanka og 23,5% hjá Arion banka.  Þetta eru svo sem ekki nýjar tölur og voru m.a. birtar í fyrra sumar.

8. Fréttatilkynning Landsbankans 14.10.2011:

Landsbankinn segir í fréttatilkynningu sl. föstudag að bankinn hafi fengið 46 ma.kr. afslátt til að mæta útlánaáhættu af lánum heimilanna.

Hér er ég búinn að benda á átta mismunandi opinberar tölur um afslætti sem nýju bankarnir fengu eða virðast hafa fengið af lánasöfnum heimilanna (ýmist öll lán eða hluti þeirra) og fyrirtækjanna.  Vandinn er að þessar tölur eru ekki samanburðarhæfar.  Berum þær svo saman við  "afskriftirnar" sem bankarnir segjast hafa framkvæmt á lánum heimilanna og þá vandast málið ennfremur.

Greinilegt er að fjármálafyrirtækin vilja ekki að starfshópur forsætisráðherra, þar sem ætlunin er að Hagsmunasamtök heimilanna eigi fulltrúa, taki til starfa.  Af þeim sökum eru þau einstaklega viljug til að birta tölur einmitt núna.  Málið er að tölurnar gera ekkert annað en að ýta frekar á að vinna hópsins fari í gang.  Og hún væri farin í gang, ef ekki væri fyrir tregðu ráðuneytisins sjálfs að koma henni af stað.  Ef allt er satt og rétt hjá fjármálafyrirtækjunum, þá er engin ástæða til að draga lappirnar lengur.  Hefjum þessa vinnu strax og ljúkum henni svo fljótt sem auðið er.

Svigrúmið og hagnaður bankanna

Haft er eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka, í Fréttablaðinu í morgun að svigrúmið sé búið.  Ef svigrúmið er búið, hvernig skýrir bankanstjórinn þá út 163 ma.kr. hagnað bankanna?

Ég veit ekki hve margir vita það, en NBI hf. keypti haustið 2008 bréf af peningamarkaðssjóðum sínum fyrir um 50 ma.kr.  Þar af voru 38 ma.kr. afskrifaðir strax.  Ekki er hægt að líta á þennan gjörning á neinn annan hátt en gjafagjörning.  Ef hann hefði ekki komið til þá hefði NBI hf. skilað 32 ma.kr. hagnaði fyrir fyrstu tæplega þrjá mánuði af líftíma bankans.  Það gerir litlar 385 milljónir kr. á dag, hvern einasta dag frá 9. október til áramóta.  Með þessum 38 ma.kr. þá væri hagnaður bankanna 201 ma.kr. frá stofnun til loka 2. ársfjórðungs á þessu ári.

Ég held að bankarnir séu ekki búnir með svigrúmið.  Þeir þurfa bara að ákveða forgangsröðuina.