Afslættir sem bankarnir fengu á lánasöfnum heimila og fyrirtækja

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.5.2011.

Enn og aftur er komin upp umræðan um hvaða afslætti nýju bankarnir fengu af lánasöfnum sem flutt voru frá hrunbönkunum.  Í þetta sinn er tilefnið skýrsla fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, um endurreisn bankakerfisins.

Óhætt er að segja að skýrsla ráðherra hafi staðfest þann grun okkar, sem mest höfum haft okkur frammi, um hin gríðarlega afslátt sem nýju bankarnir fengu.  Raunar var það Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem kjaftaði fyrstur frá í októberskýrslu sinni árið 2009 (kom reyndar út í byrjun nóvember).  Fjallaði ég um það í færslunni Tölur í skýrslu AGS tala sínu máli frá því 4.11.2009.  Í færslunni birti ég eftirfarandi ágiskaðar tölur um skuldir og afslætti varðandi skuldir heimilanna:

Vergt virði er bókfært verð skuldanna í gömlu bönkunum, matvirði er það verð sem skuldir fóru á yfir í nýju bankana og mismunurinn er afslátturinn.  Eins og sjá má var afslátturinn verulegur eða á bilinu 44-47% hjá bönkunum þremur og að meðaltali 45,3%. Þetta voru fyrstu tölur sem birtust og hafa bankarnir reynst í lengstu lög að gefa ekki upp nákvæmar tölur án þess þó að neita þessum.

Í annarri færslu birti ég skuldir fyrirtækja og þær tölur voru sem hér segir:

Í næstu töflu skoða ég hvernig einstakir flokkar lána heimilanna breyttust á milli september og október 2008.  Samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands yfir útlán fjármálafyrirtækja, þá lækkuðu skuldir heimilanna úr 1.032 ma.kr í  561 ma.kr. á milli þessara tveggja mánaða eða um 471 ma.kr.  Mismunurinn á þeirri tölu og 364,7 ma.kr. að ofan skýrist líklegast af því að fleiri lán voru færð síðar á milli sem ekki voru tekin með í útreikninga AGS.  Höfum í huga, að í 1.032 ma.kr. og 561 ma.kr. eru líka útlán annarra fjármálafyrirtækja, en bankanna þriggja.  Þegar SPRON og Frjálsi duttu út úr tölu Seðlabankans, þá lækkuðu skuldir heimilanna um 65 ma.kr.  Þau lán höfðu ekki, mér vitanlega, verið færð niður áður en fyrirtækin fóru í þrot.  Hvort þeir 55 ma.kr. sem þá standa eftir (þ.e. 561 - 441 - 65 = 55) eru þá útlán annarra fjármálafyrirtækja til heimilanna er bara ágiskun en gæti svo sem alveg staðist.

Ef aðrar fjármálastofnanir en bankarnir þrír eru teknar út úr þessum tölum og þeim dreift hlutfallslega á alla flokka, þá lítur taflan aftur svona út:

* Hluti húsnæðislána Kaupþings fóru inn í Seðlabankann og runnu ekki inn í Arioin banka fyrr en í janúar 2010.  Hér er giskað á að þau hafi verið bókfærð á 80 ma.kr. sem er líklegast í hærri kantinn.  Gengistryggð lán heimilinna hækkuðu samkvæmt tölum Seðlabankans um 29 ma.kr. milli desember 2009 og janúar 2010 og var það allt í íbúðalánum.  Tekið er tillit til þessara lána í heildartölu en ekki undir gengistryggð lán eða verðtryggð lán, en líklegt er að hinn mikli munur sem er á verðtryggðum lánum fyrir og eftir hrun skýrist af þessum lánum sem fóru til Seðlabankans.

Hvernig sem þessum tölum er snúið, þá kemur í ljós að lán heimilanna voru færð með verulegum afslætti frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.  Í minni nálgun (að teknu tilliti til þeirra lána sem fóru til Seðlabankans), þá nemur lækkunin 388,5 ma.kr. Sú tala er glettilega nærri þeirri tölu sem ég las út úr gröfum í októberskýrslu AGS 2009, en þar giskaði ég á 365 ma.kr.

Í skýrslu fjármálaráðherra, þá kemur fram að alls voru eignir að bókfærðu verði 4.000 ma.kr. færðar frá gömlu bönkunum til þeirra nýju og var endurmetið verðmæti þeirra sagt vera á bilinu 1.880 - 2.204 ma.kr.  Fallist var á að meta eignirnar á 1.760 ma.kr. með möguleika á að greiddir yrðu 215 ma.kr. til viðbótar fyrir þær.  En ekki eru allar eignirnar lán.  Séu upplýsingar úr stofnefnahagsreikningum bankanna skoðaðar (sjá bls. 32 í skýrslu ráðherra), þá var verðmæti útlána til viðskiptavina 1.463 ma.kr.  Í þeirri tölu eru bæði lán heimilanna og fyrirtækja og er hún aðeins 43 ma.kr. lægri en ágiskun mín út frá upplýsingum í skýrslu AGS.  Aðrar eignir sem flokkuðust undir þessa 1.760 ma.kr. námu því 297 ma.kr. 

Þó ekki sé hægt út frá ofangreindum tölu að segja nákvæmlega hve mikinn afslátt nýju bankarnir fengu á lánsöfnum sem flutt voru frá gömlu bönkunum, þá gefa tölurnar góða vísbendingu um stærðirnar.  Skýrsla fjármálaráðherra segir líka talsvert.  Mín niðurstaða er að þessir afslættir hafi verið um 45% af lánasöfnum heimilanna og um 65% af lánasöfnum fyrirtækja með möguleikann á að ná 215 ma.kr. betri innheimtu en viðmiðunartalan segir til um.  Sé þeirri upphæð dreift hlutfallslega jafnt á milli heimila og fyrirtækja, þá þurfa nýju bankarnir að greiða 40% fyrir lán fyrirtækjanna og 60% fyrir lán heimilanna.  Nú er spurningin hve stór hluti af afslættinum verður notaður til að leiðrétta eða afskrifa lán viðskiptavina og hve stór hluti verði tekinn inn sem hagnaður á næstu árum.  Í mínum huga er ljóst, að hafi bankarnir einhvern áhuga á að viðhalda sambandinu við viðskiptavini sína, þá verða þeir að koma mun meira til móts við þá.  Svo einfalt er það.