Draga fjármálafyrirtæki samninga á langinn svo þau geti innheimt hærri vexti og kostnað?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.7.2011.

Ég hef nokkur dæmi fyrir framan mig um óeðlilegan drátt fjármálafyrirtækja við að ganga til eða ganga frá samningum við viðskiptavini sína.  Lengst hafa liðið meira en tvö ár frá því að fyrirtæki óskaði eftir samningum, þar til fjármálafyrirtækinu þóknaðist að ljúka þeim.  Að sjálfsögðu krafist fjármálafyrirtæki fullra vaxta og kostnaðar fyrir það tímabil sem fjármálafyrirtækið tók sér aukalega.

Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort tilgangur fjármálafyrirtækjanna sé að blóðmjólka viðskiptavininn eins og kostur er.  Hvers vegna ætti banki sem fékk greidda tugi milljóna inn á vörslureikning (þ.e. reikning sem viðskiptavinurinn hefur enga stjórn á) að draga það í 12 - 15 mánuði, ef ekki lengur, að gera upp lán með vörslufénu?  Síðan fer uppgjörið fram með fullum vöxtum, dráttarvöxtum, innheimtukostnaði, vanskilakostnaði og guð má vita hvað.  Eru þetta eðlilegir viðskiptahættir? 

Fáránleikinn í þessu er að dómstólar hafa bakkað fjármálafyrirtækin upp í þessari vitleysu og dæmt fólk og fyrirtæki til að greiða allan kostnað sem fjármálafyrirtækin hafa krafist, þó verulegur hluti viðbótarkostnaðar sé til kominn vegna þess að fjármálafyrirtækin eru að draga fólk og fyrirtæki á asnaeyrunum og bíða eins lengi og hægt er að ganga frá uppgjöri.  Við lestur dómsmála má síðan sjá að samningar hafa jafnvel tekist milli aðila, en fjármálafyrirtækið fallið frá þeim eða bætt við kröfum á síðustu stundu að því virðist í þeim eina tilgangi að hleypa málum upp.  Er alveg með ólíkindum að slík háttsemi varði ekki við lög og ennþá vitlausara að dómstólar skuli ekki setja ofan í við fjármálafyrirtækin vegna slíkrar háttsemi.

Mig langar að nefna hér nokkur dæmi (tekið fram að þetta eru allt raunveruleg dæmi):

1.  Bjóða átti hús upp vegna vanskila.  Eigandanum tókst að selja húsið en bankinn setti það skilyrði að söluandvirðið, sem var vel umfram skuldir, yrði geymt á vörslureikningi.  18 mánuðum síðar var féð ennþá inni á vörslureikningnum og lánið óuppgert.  Eigandinn þurfti allan tímann að búa inni á skyldmennum, þar sem viðkomandi fékk hvergi lánafyrirgreiðslu vegna þess að bankinn breytti ekki vanskilamerkingu hjá CreditInfo.

2.  Fyrirtæki lenti í vanskilum með lán sín.  Það átti eign sem dugði fyrir stærstum hluta þeirra lána sem voru í vanskilum, þ.e. gat greitt upp megnið af lánunum með eigninni, og reksturinn gat síðan staðið undir restinni.  Bankinn tók sér tvö ár að hugsa málið!  Á meðan hrönnuðust upp vanskil og kostnaður, sem bankinn krafðist að fá greiddan við uppgjör.  Uppgjör, sem fólst í því að bankinn tók yfir eignina (sem boðin var strax í upphafi) og skuldajafnaði gegn hluta þeirra lána sem fyrirtækið var með, fór að lokum fram en fyrirtækið þurfti að greiða drjúgan viðbótarkostnað vegna vinnubragða bankans.  Eigandi fyrirtækisins hafði nánast einu sinni í mánuði rekið á eftir því að samningarnir væru kláraðir, en það kom nær alltaf það svar að þetta væri í athugun.

3.  Eldri hjón lentu í vandræðum með lánin sín.  Þau buðu bankanum að taka upp í sumarbústað sem þau áttu austur í sveit.  Þau máttu bíða í 12 mánuði eftir niðurstöðu og í millitíðinni seldu þau hjólhýsi, minnkuðu við sig í bíl og tóku út séreignarsparnað.  Þau misstu samt sumarhúsið sitt.

4.  Ég er með fjölmörg dæmi um fólk með tvær eignir sem hafa reynt að ná frjálsum samningum við fjármálafyrirtæki.  Viðskiptavinirnir hafa lagt fram tilboð sem fjármálafyrirtækin hafa hafnað með hreinu neii, en þegar þau hafa verið beðin um tillögu að lausn þá er fólki svarað með þögninni.  Grófasta dæmið er tæplega tveggja ára bið eftir tilboði um uppgjör og ennþá hefur tilboð ekki borist, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið gengið eftir því.

5.  Hjón fengu að skila lóð og fengu hana endurgreidda frá Reykjavíkurborg.  Upphæðin var hærri en skuld við komandi við fjármálafyrirtæki.  Greiðslan frá borginni var lögð inn á vörslureikning.  Það var á síðasta ári.  Fjármálafyrirtækið vill gera lánið upp þannig að vextir á láninu frá því greiðslan frá borginni barst eru umtalsvert hærri en vextirnir af vörslureikningnum!  (Ég er með fleiri en eitt dæmi um nákvæmlega þetta.)

6.  En þessi aðferð að draga samninga eins lengi og hægt er nær til fleiri þátta en húsnæðislána.  Það er sama hvernig lánaviðskipti einstaklingur eða fyrirtæki eru með, óskir um samninga og uppgjör eru hummaðar fram af sér eins lengi og kostur er.  Snúist óskin um að skuldbreyta úr hærri vöxtum í lægri, skuldajafna eða bara gera upp há sem lága skuld sem bera háa vexti, þá draga þau allt á langinn en passa sig vandlega að krefjast allra þeirra vaxta sem mögulegt er að krefjast.

Ég gæti talið til mun fleiri dæmi og hvet fólk til að bæta sínum dæmum við í athugasemdum.

Fjármálafyrirtækin bera fyrir sig að málin séu svo flókin.  Ég skil ekki hversu flókið það getur verið að nota greiðslu upp á segjum 40 m.kr. til að borga upp lán sem stendur í 32 m.kr.  Nei, í staðinn er beðið með að reikna út uppgjörið, þar til upphæðin er komin í 45 m.kr. með vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði, svo viðskiptavinurinn skuldar fjármálafyrirtækinu en ekki öfugt.  Ég skil heldur ekki hvað er svo flókið að miða uppgjör við þann dag, þegar peningarnir komust sannanlega í vörslu fjármálafyrirtækisins eða voru fjármálafyrirtækinu tiltækir.  Ég skil heldur ekki hversu flókið það er fyrir fjármálafyrirtæki að ganga til samninga við fólk og fyrirtæki um skuldajöfnun á grunni yfirtöku eigna. Ég skil ekki af hverju fjármálafyrirtæki fara með nær öll mál fyrir dómstóla, þegar viðskiptavinurinn hefur bein í nefinu að standa á rétti sínum.  Ætli það sé vegna þess að neytendalöggjöf á Íslandi er fótum troðin af dómstólum?

Fjármálafyrirtækin skortir ekki afsakanirnar, þegar þau fresta málum.  Klassískt er að bera fyrir sig að hinn eða þessi, sem þurfi að fjalla um málið, sé í fríi.  (Eins og þau hafi aldrei heyrt talað um staðgengla.)  Þá eru það blessaðar lánanefndirnar, sem koma greinilega allt of sjaldan saman eða eru stórlega undirmannaðar.  Í nokkrum tilfellum hafa fjármálafyrirtæki borið fyrir sig óvissuna um uppgjör gengistryggðra lána, þrátt fyrir að viðskiptavinir hafi nýtt sér tilboð þeirra haustið 2009 um skuldbreytingu í íslenskar krónur.  Menn hafa flaggað lögunum hans Árna Páls um afturvirka vexti.  Dómar Hæstaréttar hafa menn notað sem afsakanir.  Þetta minnir mig helst á alkólista sem er með fullt af afsökunum fyrir að drekka.  En það er sama hver afsökunin er, alltaf passa fjármálafyrirtækin sig á því að vaxtareikna lánin og bæta við vanskilakostnaði.

Ég er þess handviss að þessi aðferðafræði fjármálafyrirtækjanna er úthugsuð taktík hjá þeim, sem sýnir náttúrulega ótrúlega breglað viðskiptasiðferði.  Þau vita alveg upp á hár hvernig þau geta mjólkað sem mest út úr viðskiptavininum.  Er nema von að fólk treystir ekki fjármálafyrirtækjunum!  Ég auglýsti einhvern tímann eftir heiðarlegu bankafólki.  Ég held ég þurfi að fara að endurbirta þá auglýsingu fyrr en síðar.  Síðan auglýsi ég eftir einhverjum innan stjórnkerfisins, að ég tali nú ekki innan Alþingis, sem hefur bein í nefinu til að stoppa fjármálafyrirtækin af í þessari vitleysu sinni.

Staða viðskiptavina fjármálafyrirtækjanna er vonlaus.  Þeir geta ekki þvingað fyrirtækin til samninga.  Þeir geta ekki greitt fjárhæðir inn á lánin, ef fjármálafyrirtækið neitar að færa inngreiðsluna inn.  Þeir geta ekki afhent fjármálafyrirtækinu afsal af eign nema fjármálafyrirtækið hafi samþykkt samning þar að lútandi.  Nei, fjármálafyrirtæki hafa öll trompin á hendi sér og vita það.  Ég veit að mörgum líður eins og þeim sé haldið í gíslingu fjármálafyrirtækjanna og verði ekki sleppt nema gegn ofurháu lausnargjaldi.  Tveggja ára seðlabankavextir af 20 m.kr. láni geta hlaupið á hærri tölu en árslaun viðkomandi skuldara.