Er krónan vandamálið eða er hún birtingarmynd vandans?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.11.2011.

Undanfarin á ár hafa ákveðnir hópar í þjóðfélaginu kappkostað við að lýsa krónunni sem mesta skaðvaldi þessarar þjóðar.  Hafa menn horft dreymandi augum til evrunnar og inngöngu í ESB sem lausn á öllum okkar vanda.  Nú síðast birtir Vilhjálmur Þorsteinsson, einn af æðstuprestum Samfylkingarinnar, opið bréf á ensku til "observer of Iceland".  Þar vill hann skýra fyrir þessum aðilum það sem hann telur þá ekki vita.

Ég geri alvarlega athugasemd við eftirfarandi hluta af málflutningi Vilhjálms:

Our currency, the króna, has a dismal history of inflation and devaluation. Since the Icelandic króna was separated from its twin sister, the Danish krone, in 1920, it has depreciated by 99,95% against its counterpart. Yes, you read right: you now need 2200 (original) Icelandic króna to buy one Danish krone, coming from parity in 1920. (And it is not like the Danish krone has been a bastion of real value conservation in the meantime, either.) This trend is largely due to the tendency of politicians and economic policy makers to use the devaluation of the króna as a tool to subsidize exports by lowering domestic real wages and other costs. Again, this is caused by the closeness of the export – especially seafood – lobby to the political parties that have dominated our country’s government.

Mér finnst Vilhjálmur, eins og margir aðrir, lýsa krónunni, eins og hún sé hlutur með sjálfstæða hugsun.  Vissulega talar Vilhjálmur um "stjórnamálamenn og þá sem móta efnahagsstefnu þjóðarinnar" og hann á að halda sig við það.  Krónan er ekki vandamálið, frekar en bíllinn er vandamálið þegar ökumaður ekur of hratt.  Vandamálið er að verður alltaf mannlegi þátturinn, þ.e. hagstjórnin.

Hvers vegna hefur krónan verið felld eins og Vilhjálmur lýsir? Jú, vegna þess að við höfum verið svo háð innflutningi og eina leiðin til að ná jöfnuði milli innflutnings og útflutnings hefur verið í gegn um vesalings krónuna. Vandamálið er því ekki krónan heldur viðskiptajöfnuður.  Já, rétt er að nauðsynlegt hefur verið að fella krónuna til að gera útflutning samkeppnishæfan, en aftur er um einkenni að ræða, ekki sjúkdóminn.

Allt snýst þetta um getu hagkerfisins til að standa undir neyslu. Það gerist á tvo vegu: a) hægt er að nota innlendar auðlindir til að framleiða það sem þarf og koma því á markað; b) flutt er út innlend framleiðsla og þjónusta og hún látin greiða fyrir innflutta vöru og þjónustu (til þjónustu telst fjármagnskostnaður). Ef hvorki innlend framleiðsla né útflutingur duga til að standa undir neyslu í hagkerfinu, þá verður meiri eftirspurn eftir gjaldeyri en framboð. Hefðbundið eftirspurnarlíkan segir okkur þá, að verð gjaldeyris hækkar, þ.e. virði krónunnar lækkar.

Vandamálið er sem sagt ekki krónan, heldur samspil innanlandsneyslu og innanlandsframleiðslu, þá fyrst og fremst ójafnvægi í vöruskiptum. Við eigum því að spyrja okkur, hvernig förum við að því að laga þetta ójafnvægi.  Við gerum það eingöngu með því að auka verulega innanlandsframleiðslu um leið og við höldum aftur af innanlandsneyslu.  Ég gæti svo sem reynt að lýsa helstu aðferðum við það, en læt það ógert. 

Á árunum 1989 til 2008 voru vöruskipti neikvæð um 437 ma.kr.  Það er margfaldur gjaldeyrisforði þjóðarinnar í lok september 2008.  Síðustu tvo ár (þetta ekki tekið með) varð viðsnúningur upp á 210 ma.kr., þ.e. vöruskipti síðustu 22 ára voru neikvæð um 227 ma.kr.  Það sem af er ári eru vöruskipti jákvæð um 81 ma.kr.  Þjónustujöfnuður hefur líka verið jákvæður síðustu tæp þrjú ár sem nemur rúmlega 90 ma.kr. (tölur fyrir 3. ársfjórðung 2011 liggja ekki fyrir).  Þá eru eftir afborganir lána og greiðsla vaxta, en þar hallar allverulega á.

Ef ójafnvægi verður áfram, eftir að nýr gjaldmiðill tekur við af krónunni, þá er eins gott að við verðum með góða peningaprentvél. Annars fækkar einfaldlega peningum í umferð ár frá ári, þar til að ekkert verður eftir. Ekki verður nóg að gefa út skuldabréf, því þau þarf að greiða.

Ég hef enga trú á því að krónan verði gjaldmiðill þjóðarinnar til langframa.  Henni verður skipt út fyrir stærri gjaldmiðil innan 10 ára.  Þangað til verðum við að gera það besta úr stöðunni, en fyrst og fremst verðum við að ná jafnvægi í utanríkisviðskiptum.  Annars fer fyrir okkur sem þjóð, eins og svo mörg heimili eru að upplifa.  Skuldabyrðin verður meiri en tekjur standa undir.  Leiðirnar út úr því er gríska leiðin eða leiðin sem Nýfundnaland fór.

Viðbót 26.3.2024: Krónan er enn lögeyrir og ekki á útleið :-(