Áhugavert viðtal við Steingrím og Í hvaða heimi lifir Steingrímur?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundarn 24.5.2011.

Hér blanda ég saman tveimur færslum sem fjalla um orð Steingríms J. Sigfússonar.

Áhugavert viðtal við Steingrím

Ég var loksins að hlusta á viðtalið við Steingrím J. Sigfússon sem tekið var við hann í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun.  Fyrst var rætt við Sigurjón M. Egilsson stjórnanda Sprengisands, en hann ræddi þetta í þættinum sínum sl. sunnudag.  Taldi Sigurjón upp alls konar atriði sem bera vott um eignabruna venjulegs fólks og var af nógu að taka.  Síðan var það Steingrímur.

Steingrímur var spurður út í þessi orð sín og gerði hann tilraun til að þykjast ekki hafa sagt þau (!), en hafi hann sagt þau þá hafi þau nú líklegast ekki verið svona meint!  Ég hristi nú hausinn yfir þessari eftiráskýringu formanns VG.  Ég held að staðreyndin hafi verið, að þau hafi verið vel valinn til að falla inn í þann hóp sem var að hlusta.  Þetta voru sams konar orð og þegar Geir H. Haarde bað sjálfstæðismenn afsökunar á hruninu en ekki þjóðina.  Þar var að slá pólitískar keilur í sínum flokki til að sýna stöðu sína í flokknum.  Hann viðurkenndi í viðtalinu að allir hefðu tapað miklu, en hvernig gat hann þá sagt að venjulegt fólk hefði síst orðið fyrir eignabruna.  Var það vegna þess að "venjulega fólkið" hafði bara tapað 30% af eignum sínum, en aðrir allt að 150% (þ.e. stendur eignalaust í mikilli skuld).

Hann var næst spurður frekari aðgerðir til handa illa stöddum heimilum.  Benti Steingrímur á að heilir 18 ma.kr. fari á þessu ári og næsta í vaxtabætur.  Sleppti hann alveg að minnast á að vaxtabætur voru lækkaðar fyrir tveimur árum úr 10 ma.kr. í 8 ma.kr. og síðan hækkaðar í 12 ma.kr., þannig að 18 ma.kr. er bara 6 ma.kr. hækkun eða 12 ma.kr. á tveimur árum.  Bara vegna hækkunar vísitölu neysluverðs á tímabilinu frá janúar til apríl á þessu ári hækka verðtryggð lán um 3% eða um 40 ma.kr.  Árlegir vextir af 40 ma.kr. eru í kringum 2 ma.kr. og þá er öll önnur vísitöluhækkun ársins eftir. Þegar gengið var á hann, þá dró hann heldur í land með mikilvægi þessara 12 ma.kr. og fann sér svo undankomuleið í því að fagna leiðréttingu gengislánanna, eins og það komi fólkinu með verðtryggðu lánin til góða!  Nú ef fólk þyrfti meira til, þá ætti það að leita í úrræði sem að mínu mati er ekkert annað en hrein og bein eignaupptaka.  Ég geri mér grein fyrir að hugmyndafræði Steingríms er fengin úr Austurvegi, en varla vill hann koma hér upp stétt öreiga í anda stefnu sovéskra kommúnista á árum Stalíns.

Á jákvæðum nótum, þá vonaðist fjármálaráðherra til þess að ekki þyrfti að hækka skatta.  Því fylgdi spyrjandi eftir með spurningu um lækkun bensínskatta.  Þá fór nú gamanið að kárna hjá ráðherranum og greinilegt að hann var ekki vel vaknaður þegar viðtalið var tekið.  Hann byrjaði strax að fara undan í flæmingi og flúði úr einni hugsanavillunni eða blekkingunni í aðra.  Hann sagði vinnuhóp vera að skoða málið og ekki væri nú mikið sem við gætum gert í að lækka heimsmarkaðsverð.  Spurður aftur út í bensínskatta, þá eyddi hann því tali með því að segja að hlutfallslega álögur hefðu lækkað og hunsaði alveg ábendingar um að í krónum talið hefðu þær hækkað.  Ítrekað var að núna færi meira í ríkiskassann, en lítrinn kostaði fyrir nokkrum árum, en allt kom fyrir ekki.  Það var eins og meira máli skipti fyrir almenning að álögunar væru ekki eins stór hluti af bensínverðinu, en ég held alveg örugglega að flestum finnist betra að krónurnar séu færri.  Svona málflutningur ráðherra er honum ekki sæmandi og raunar til minnkunar.  Áfram hélt hann að afsaka að ekki væri hægt að lækka álögur með því að nefna þegar Bretar lækkuðu skatta um 1 pens, sem hækkandi heimsmarkaðsverð hefði étið upp á tveimur vikum.  Hvers konar arfavitleysa er það, að ekki sé hægt að lækka álögur vegna þess að heimsmarkaðsverð gæti hækkað?  Hann var að enda við að segja, að heimsmarkaðsverð réðist ekki af því sem við gerum hér á landi.  Auk þess held ég að Bretar hefðu verið betur settir með 1 penný lægri skatta, þegar heimsmarkaðsverðið hækkaði, þar sem það þýddi að verðið eftir hækkun heimsmarkaðsverðs var áfram pennýinu lægra en ef álögurnar hefðu ekki lækkað.

Staðreyndin varðandi álögur á eldsneyti er að ríkið á að setja sér ákveðið mark um innheimtu og breyta álögum innan ársins eftir því.  Segjum að gert sé ráð fyrir að 10 milljón lítra seljist, þá á innkoman ekki að aukast um milljóna tugi eða hundruð vegna þess að heimsmarkaðsverð hækkar.  Nei, álögurnar eiga að lækka miðað við tekjuáætlunina.  Það er eins og Steingrímur gleymi því að fjárlög eru lög og eftir þeim á að fara.  Geri fjárlög ráð fyrir 1 ma.kr. í tekjur af bensíni, þá er verið að brjóta lög með því að innheimta 1,2 ma.kr.

Loks var hann spurður út í opinberunarskýrslu sína um endurreisn bankanna.  Ég hef ekki einu sinni geð í mér að hafa eftir honum það sem hann sagði.  Afsakanir hans snerust um að menn eigi að þakka fyrir að fá skýrsluna og ættu því að sætta sig við innihaldið.  Þáttastjórnendur slepptu honum fullauðveldlega frá þessu atriði, þó svo að Kolla hafi skotið föstum skotum, þar sem megin atriðið er hvað bankarnir eru að gera við þessa rúmlega 2.000 ma.kr. sem ekki renna til gömlu bankanna og þar með kröfuhafanna.  Einnig var hann ekki spurður út í hvers vegna kröfuhafarnir voru fyrst og fremst kröfuhafar Landsbanka Íslands og því Icesave-kröfuhafar.

Í hvaða heimi lifir Steingrímur?

Satt best að segja, þá hef ég aldrei heyrt aðra eins fásinnu, eins og þessa fullyrðingu Steingríms J. Sigfússonar, að ekki hafi orðið mikill eignabruni hjá venjulegu fólki.  Fróðlegt væri að fá að vita á hverju maðurinn byggir þessa staðhæfingu.  Stór hluti fasteigna landsmanna hafa ýmist lækkað mikið í verði eða lán hækkað upp úr öllu valdi, nema hvorutveggja sé.  Verðtryggð lán hafa hækkað um 30% á um þremur árum, ekki er ljóst ennþá hve mikil hækkun áður gengistryggðra lána verður, en standi vextir Seðlabankans, þá er sú hækkun nokkuð nærri að vera minnst 40% á sama tíma.  Lækkun fasteignaverðs hefur síðan verið á bilinu 20 - 40%.  20 m.kr. eign með 60% skuldsetningu í verðtryggðu láni í ársbyrjun 2008 er því kannski um 16 m.kr. virði í dag með 97,5% skuldsetningu.  Eignabruninn er 7,8 m.kr.  Algengt er að allt eigið fé sé horfið hjá fólki sem fjárfesti í fasteign á árunum 2000 - 2007 og gott betur en það.

Hún er einkennileg tilhneiging stjórnmálamanna sem hafa slæman málstað að verja, að velja tölur sem henta.  Dæmi um það má nefna vefrit fjármálaráðuneytisins sem birt var í gær (20.5.).  Þar eru taldar til tölur sem henta stjórnvöldum út úr skýrslu OECD.  Höfundur greinarinnar í vefritinu viðurkennir meira að segja að hagstæðari tölurnar hafi verið valdar.  Ég skil ekki svona vinnubrögð.  Sama á við um ummæli Steingríms.  Hvaða "venjulega fólk" er það sem ekki hefur orðið fyrir eignabruna?  Nær eina sem ég get hugsað mér eru þeir sem áttu enga fasteign en helling af peningum í innstæðum í bönkum.  Allir aðrir hópar í þjóðfélaginu hafa orðið fyrir verulegum eignabruna.  Verði húsnæðiseigendur að selja eignir sínar í dag, þá yrði tjón flestra verulegt.  Þar sem aðeins hluti þjóðarinnar er í þessari stöðu, þá gefst öðrum tækifæri til að bíða af sér verðlækkunina, en hækkun verðtryggðu lánanna mun sitja föst á höfuðstóli þeirra um aldur og ævi.

Það er gott og blessað að hækka vaxtabætur.  36 milljarðar á tveimur árum er þó dropi í hafi hækkunar lánanna.  Á tímabilinu frá 1. apríl til 30. júní munu t.d. verðtryggð húsnæðislán landsmanna hækka um sem nemur 3% eða um 40 milljörðum króna vegna hækkunar vísitölu neysluverðs.  Eldarnir loga um allt og Steingrímur stærir sig af því að hafa kastað vatnsfötu á eldana.  Betur má ef duga skal.

Nú 36 milljarðarnir sem Steingrímur ætlar að setja í vaxtabætur á þessu ári og næsta eru 16,7% af gjöfinni sem hann gaf erlendum kröfuhöfum samkvæmt skýrslunni sem hann laumaði inn á þing 31. mars sl.  Vá, almenningur sem hefur þurft að taka á sig tug milljarða skattahækkanir er að fá 1/6 af því sem erlendir kröfuhafar eiga að fá aukalega og er hvatinn fyrir óhóflegri hörku bankanna þriggja í innheimtu stökkbreyttra skulda heimilanna.

Er einhver til í að segja Steingrími sannleikann?  Ekki gera já systkin hans hjá VG það.  Ég fæ nánast á hverjum degi tölvupósta eða símtöl frá venjulegu fólki sem veit ekki hvað það á að gera.  Foreldrar sem eru að sjá á eftir börnum sínum úr landi, þar sem hrunið gerðu þau eignalaus.  Ellilífeyrisþega sem er ætlað að ráðast á ókleifan hamarinn.  Barnafólk sem er við að missa húsnæðið sitt.  Fólk sem neitar að viðurkenna innheimtukröfur eða endurútreikninga bankanna, þar sem það getur alveg eins lýst sig gjaldþrota eins og samþykkja þetta.  Er einhver til í að vekja athygli Steingríms á þessu áður en það verður um seinan. 

Auðvitað má deila um hvaða fólk er venjulegt.  Meðaltöl eru alltaf hættuleg og ekki er ég viss um að ef venjulegur maður er metinn út frá meðaltalinu, þá væri viðkomandi svo venjulegur.  Tölur Seðlabanka og fjármálaráðuneytisins, sem ég hafði aðgang að í vinnu hins svo kallaða sérfræðingahóps, sýndu að staða meðalfjölskyldunnar var frekar slæm.  Raunar var staðan sú, að eingöngu mjög fáar fjölskyldur voru í góðum málum.  Talsverður hluti hélt sjó, en mátti ekki við mikilli ágjöf án þess að þurfa að ganga á sparnað og eignir til að eiga fyrir útgjöldum.  Restin hafði gengið á sparnað, selt eignir, tekið út séreignarsparnað, hætt að borga af lánum, skorið niður neyslu o.s.frv. til að eiga fyrir nauðþurftum.  Allir hópar í samfélaginu hafa dregið úr neyslu, en þeir sem betur eru staddir gera það til að eiga borð fyrir báru.

Nei, Steingrímur, staðreyndin er sú að eignabruninn hefur einmitt orðið verulegur hjá "venjulegu fólki".  Almenningur í landinu hefur orðið fyrir miklum búsifjum vegna hrunsins og því miður hefur ríkisstjórn ykkar Jóhönnu lítið gert til að draga úr því áfalli.  Ef eitthvað er, þá hefur þessi endalausa eftirlátsemi ykkar við fjármálafyrirtækin gert illt verra.  Ríkisstjórn ykkar Jóhönnu hefur ekki svo ég muni tekið hagsmuni almennings umfram hagsmuni fjármálafyrirtækjanna í eitt einasta skipti.  Og er það þrátt fyrir að þú hefur vitað það frá vordögum 2009, að nýju bankarnir fengu allt að 65% afslátt af lánasöfnum fólks og fyrirtækja við flutning þeirra frá gömlu hryggðarmyndum sínum.