Hvernig er hægt að afskrifa það sem ekki var fært til eignar?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.5.2001.

Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur svarað fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um tap [fjármála]fyrirtækja vegna gjaldþrota eða afskrifta hjá fyrirtækjum á árunum 2006 - 2010, sundurliðaða á ár og atvinnugreinar. Upplýsingarnar eru sem hér segir fyrir annars vegar 2008 og hins vegar 2009-2010 (hin árin skipta ekki máli fyrir þessa færslu):

Segir í svari ráðherra að upplýsingar vegna 2009 og 2010 séu fengnar frá þremur stærstu viðskiptabönkunum og gef ég mér að um sé að ræða Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankann.  Fyrir 2008 eru þetta 4,9 ma.kr. en 481 ma.kr. vegna 2009-2010 alls 486 ma.kr. og þar af 348 ma.kr. hjá öðrum fyrirtækjum.  Við þessar tölur hef ég eitt og annað að athuga.

Samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna, þá eru lán viðskiptavina í stofnefnahagsreikningi nýju bankanna að andvirði 1.463 ma.kr., þar af 324,7 ma.kr. hjá Arion banka, 482,6 ma.kr. hjá Íslandsbanka og 655,7 ma.kr. hjá Landsbankanum.  Hafi þessi bankar afskrifað 481 ma.kr. á árunum 2009-2010, þá ættu þessi 481 ma.kr. að lækka verðmæti lána viðskiptavina sem þessu nemur og hefði átt að koma fram sem rekstrartap bankanna, en hver er reyndin?  Til að fá vitneskju um það, þá fletti ég í ársreikningum bankanna þriggja og fann ég ekkert í þeim sem benti til þess að svo háar fjárhæðir hafi verið afskrifaðar.

Íslandsbanki

Í ársreikningi Íslandsbanka fyrir 2008 segir í grein 2.1 á blaðsíðu 13 að bókfært verð (carrying amounts) lána viðskiptavina áður en þau voru færð yfir hafi verið 905,0 ma.kr. en þau hafi verið færð niður um 428 ma.kr.  Í athugasemdum 28 og 29 á bls. 48 kemur síðan fram að óendurskoðuð staða lána hafi veirð 482,6 ma.kr. sem hækkað hafi í 530,5 ma.kr. en af þeirri upphæð hafi 45,6 ma.kr. verið færðir á afskriftareikning, þannig að áramótastaðan hafi verið 484,9 ma.kr.  Skýrir þetta að mestu afskriftirnar í töflunni fyrir neðan.  Athyglisvert að þetta er tíföld sú tala sem kemur fram í svari ráðherra um afskriftir vegna 2008.  Bankinn bókfærði á móti tekjur upp á 37,6 ma.kr. sem var að mestu gengishagnaður.  Þessi gengishagnaður hefur síðan verið dæmdur ólöglegur í Hæstarétti.

Í ársreikningi Íslandsbanka fyrir 2009 eru afskriftir (færsla á varúðarreiking) 26,3 ma.kr. en gengishagnaður á lánum til viðskiptavina 16,3 ma.kr.  Útlánin sjálf hækka lítið, þ.e. úr 482,6 ma.kr. í 489,6 ma.kr.

ársreikningur fyrir 2010 sýnir hvorki miklar afskriftir né mikla breytingu á útlánum til viðskiptavina.  Afskriftir eru 20,0 ma.kr. og útlán viðskiptavina séu 515,2 ma.kr.  Hvergi kemur fram að háar upphæðir hafi í raun og veru verið afskrifaðar.

Arion banki

Ég fann ekki ársreikning Nýja Kaupþings vegna ársins 2008, svo upplýsingar um það ár og næsta eru fengnar úr ársreikningi Arion banka vegna ársins 2009, einnig nota ég upplýsingar úr Creditors Report frá því í febrúar 2009 en hún var uppfærð reglulega allat árið 2009 og alla tíð síðan (sjá hér).  Samkvæmt CR voru lán viðskiptavina að verðmæti 1.410 ma.kr. færð yfir í nýja bankann með 954 ma.kr. afskrift/leiðréttingu.  Miðað við það var verðmæti lánasafnanna 456 ma.kr.   Samkvæmt ársskýrslu Arion banka 2009 var staða þessara lána 337,0 ma.kr. í árslok 2008 og samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra var staða þeirra 324,7 ma.kr. í stofnefnahagsreikningi.  Afskriftir vegna tímabilsins frá 22.10 - 31.12. 2008 voru alls 19,7 ma.kr. en þar af voru 16,9 ma.kr. vegna gengishagnaðar á gengistryggðum lánum, en þar sem þau hafa síðan verið dæmd ólögleg, þá telst þetta ekki lengur afskriftir heldur leiðréttingar.

Vegna ársins 2009, þá kemur í ljós að afskriftir/varúðarfærsla var upp á 11,5 ma.kr., en að þessu sinni var gengistilfærsla lítil.  Lán til viðskiptavina höfðu hækkað í 357,7 ma.kr. og þar af tengdust lán að fjárhæð 176,5 ma.kr. varúðarfærlunum, þ.e. 28,7 ma.kr. af þessum 176,5 höfðu verið færðir á varúðarreikning/í afskriftir.

Úr ársreikningum fyrir 2010 má lesa að varúðarfærslur ársins/afskriftir vegna lána viðskiptavina voru 13,3 ma.kr. og lán til viðskiptavina höfðu hækkað í 451,2 ma.kr.  Hin mikla hækkun á upphæð lána skýrist af því að 8. janúar 2010 voru lánasöfn sem veðsett höfðu verið Seðlabankanum færð yfir til Arion banka.  Bókfært virði þeirra hjá Kaupþingi var 107,9 ma.kr. en gangvirði 84,0 ma.kr.   Inni í 451,2 ma.kr. er tekið tillit til 41,8 ma.kr. uppsafnaðrar varúðarfærslu/afskrifta (provision on loans and receivables), þar af eru 2,8 ma.kr. það sem kallað er "collective" sem þýðir að um áætlaðar afskriftir er að ræða án þess að búið sé að festa nákvæmlega vegna hvaða lána.  Ekkert kemur fram um að afskriftir hafi í raun átt sér stað.  Heildarlánin að verðmæti 237,5 ma.kr. standa baki þeim 39,1 ma.kr. eftir standa af varúðarfærlunni/afskriftunum.  Afskriftarhlutfall er því 16,5%.

Landsbanki

Líkt og varðandi Arion banka, þá fann ég ekki ársreikning Landsbankans vegna október - desember 2008 og notast því við tölur úr ársreikningi vegna 2009 og tölur úr skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna.  Útlán til viðskiptavina voru samkvæmt stofnefnahagsreikningi 655,7 ma.kr.  Í ársreikningnum er í skýringu 4 á bls. 31 tafla sem sýnir að útlán og kröfur á viðskiptavini að bókfærðu virði 1.241,3 ma.kr. eins og þetta stóð í bókum Landsbanka Íslands hf. fyrir yfirfærslu.  Þessi lán voru því færð niður um 47,2%.  Við þetta má bæta að bókfært virði lána einstaklinga var 237,4 ma.kr., en gangvirði 158,4 ma.kr. eða 66,7%. Staða útlána og krafna á viðskiptavini var 705,1 ma.kr. í árslok, sem jafnframt er talið gangvirði.  Tap var á rekstrinum og nam það 6,9 ma.kr.  Má rekja tapið að mestu til þáttarins "hreinn hagnaður (tap) af fjáreignum tilgreindum á gangvirði" sem var neikvæður upp á 39,7 ma.kr. og má segja að hafi verið gjöf bankans til eigenda peningamarkaðssjóða upp á 42,8 ma.kr.  Bankinn færði aftur á móti 59,1 ma.kr. sem gjaldeyrishagnað vegna útlána og krafna á viðskiptavini, hagnað sem í dag er líklegast orðinn að engu vegna dóma Hæstaréttar. Hrein virðisrýrnun útlána og krafna var metin 1.256 milljónir kr., já, milljónir.

Árið 2009 var virðisrýrnun útlána og krafna 6,6 ma.kr. af 667,1 ma.kr. lánum til viðskiptavina.  Gangvirði lánanna er aftur talið 684,1 ma.kr.  Hagnaður bankans reyndist 14,3 ma.kr.  Virðisrýrnunin skiptist milli almennrar sem uppsöfnuð frá október 2008 var 6,3 ma.kr. og sérstakrar upp á 1,4 ma.kr. Afskrifuð útlán bankans eru 0 kr. samkvæmt skýringu 62 á bls. 67. Þ.e. engar afskriftir höfðu átt sér stað hjá bankanum.

Samkvæmt nýjasta ársreikngur bankans stóðu lán og kröfur á viðskiptavini í 593,0 ma.kr.  Bankinn taldi fram að virðisrýrnun lána og krafna væri 14,6 ma.kr. og tap á gengistryggingu 18,2 ma.kr.  Hagnaður ársins varð 27,2 ma.kr.  Í skýringu 6 á bls. 26 (30 í pdf-skjalinu) eru lán og kröfur viðskiptavina sagt vera 620,4 ma.kr. að gangvirði, sem er mismunur upp á rúmlega 27 ma.kr. frá bókfærðu virði. Engar afskriftir eru skráðar!  Ein skýring á því að lán til viðskiptavina hafa lækkað verulega milli ára er líklegast yfirtaka bankans á fyrirtækjum.  Samkvæmt árshlutauppgjöri vegna 1. ársfjórðungs 2011, þá skilaði sala á tveimur fyrirtækjum 4,1 ma.kr. hagnaði og virði fjárfestingafélagsins Horns hafði hækkað um 9,1 ma.kr.  Ekkert bendir því til þess að bankinn hafi tapað á yfirtöku þeirra fyrirtækja/eigna sem falla undir starfsemi þessara fyrirtækja.

Í töflunni hér fyrir neðan eru helstu töldur teknar saman.

Áhugavert er að bera þessar upplýsingar úr ársreikningum bankanna við svar efnahags- og viðskiptaráðherra.  Annað hvort eru ársreikningarnir rangir eða svar ráðherra er rangt.  Himinn og haf ber á milli uppgefinna upplýsinga. Að fullyrða að lánasöfn sem í stofnefnahagsreikningi voru metin á 1.463 ma.kr. hafi verið afskrifuð um 481 ma.kr., þegar bókfært virði útlána og krafna viðskiptavina í árslok 2010 var 1.559 ma.kr. er í besta falli góð lygasaga.  Þessara afskrifta sjást engin merki í ársreikningunum.  Stofnefnahagsreikningur bankanna á að lýsa raunverulegri stöðu eigna og skulda bankanna, þannig að hafi 481 ma.kr. afskrift átt sér stað á síðustu tveimur árum, þá voru stofnreikningarnir einfaldlega rangir.

Ég veit svo sem alveg hvað er í gangi.  Árni Páll/bankarnir eru að telja til afskrifta hjá viðskiptabönkunum þremur afskriftir sem í raun áttu sér stað hjá hrunbönkunum.  Verið er að telja nýju bönkunum til tekna eitthvað sem þeir eiga ekki.  Afskriftirnar áttu sér stað í október 2008, þó svo að nýju bankarnir hafi ætlað sér að hagnast eins og kostur var á þessu með því að láta afskriftirnar ekki ganga til viðskiptavinanna.  Þetta er því talnaleikur til að slá ryk í augu fólks.   Mér finnst þetta ljótur leikur.  Einnig finnst mér að Gunnar Bragi Sveinsson eigi að mótmæla því við forseta Alþingis, að ráðherra skuli leggja svona villandi og rangar upplýsingar fyrir þingið.  Það er álíka vitlaust að kalla þetta afskrift og segja að kaupmaður hafi afskrifað hluta af verði vöru, þar sem hann gat boðið hana á góðu verði vegna hagstæðra innkaupa.  Staðreyndin er að nýju bankarnir keyptu útlán og kröfu viðskiptavina á hagstæðu verði frá hrunbönkunum, en í staðinn fyrir að láta viðskiptavinina njóta hins hagstæða kaupverðs, þá átti að blóðmjólka þá.  Þegar það tókst ekki, þá berja þeir sér á brjósti og segja:

Sjáið hvað við erum rausnarlegir að gefa ykkur eftir það sem við fengum ókeypis!

Satt best að segja, þá finnst mér þetta bera vott um ömurlegt viðskiptasiðferði, ósvífni og græðgi.