Misskilningur, villur og talnamengun Fréttablaðsins um meintar afskriftir á lánum heimilanna

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.10.2011.

Í Markaði Fréttablaðsins er stór og mikil grein um skuldavanda heimilanna.  Þar er fjallað á ágætan hátt um margt varðandi greiningu á vandanum, umfjöllun um hann og úrræði.  Því miður læðast inn í greinina villur sem nauðsynlegt er að leiðrétta, önnur atriði þar sem tekin er upp röng túlkun opinberra aðila á gögnum og enn aðrar misræmi í opinberum gögnum sem tekið er gagnrýnilaust upp.

1.   Greiðsluvandi heimila - mat Seðlabanka Íslands.  Seðlabanka Íslands framkvæmdi ítarlega greiningu á stöðu íslenskra heimila á árunum 2009 og 2010.  Niðurstaða Seðlabankans var að 20 til 26% heimila væri í alvarlegum greiðsluvanda.  Því miður heldur þessi greining Seðlabankans ekki vatni og voru viðmið bankans kolröng.  Þannig notaðist hann við naumhyggjuframfærsluviðmið við útreikninga sína.  Viðmið sem enginn annar notaði í þeirri mynd sem hann gerði.  Ekki einu sinni Ráðgjafastofa um fjármál heimilanna notaði þau viðmið sem Seðlabankinn gerði.  Önnur mistök SÍ voru að gera ráð fyrir að allar tegundir heimila gætu ráðið við að setja 40% ráðstöfunartekna í greiðslu lána.  Í vinnu hins svo kallaða sérfræðingahóps var t.d. vikið frá þessari greiningu SÍ og notuð neysluviðmið sem voru umtalsvert hærri en Seðlabankans.

2.  100% leið sérfræðingahópsins er það sem kölluð er 110% leið í dag.  Greinilegt er að annað hvort er skýrsla sérfræðingahópsins ekki nógu skýr eða að blaðamaður hefur ekki kynnt sé málin nógu vel, en það er misskilningur að útreikningar sem getið er um í skýrslunni  sem 110% leið, sé það sem í dag er vísað til sem 110% leiðar.  Sérfræðingahópurinn vann með gögn úr skattframtölum vegna ársins 2009 og með fasteignamat sem þá gilti.  Hvorugt á við í dag.  Hópurinn gerði tilraun til að spá fram í tímann og það var auðvelt að einu leiti, þ.e. fasteignamat fyrir 2011 hafði verið kynnt í júní 2010.  Samkvæmt því átti fasteignamat að lækka að jafnaði um 10%.  Af þeim sökum reiknaði hópurinn út kostnað bæði af 100% leið og 110% leið, þ.e. skuldastaða, greiðslubyrði og kostnaður fjármálafyrirtækja var metið út frá 110% leið miðað við stöðu fasteignamats sem gilti fyrir 2010 og einnig fyrir væntanlegt fasteignamat fyrir 2011.  Í samkomulagi fjármálafyrirtækja og stjórnvalda var miðað við fasteignamat fyrir 2011.  Þetta er atriði sem mér tókst að sannfæra forsætisráðherra og fjármálaráðherra um á fundi í Þjóðmenningarhúsinu í nóvember 2010, þar sem annars yrði 110% leiðin í reynd 120% leið sjö vikum síðar.  Ekki að þetta atriði hafi mætt andstöðu, þar sem fjármálafyrirtækin voru þegar byrjuð að nota nýtt fasteignamat í úrvinnslu sinni.  Kostnaðurinn við 110% leiðin (eins og hún ætti að virka í dag) var því áætlaður 125 ma.kr., en ekki 89 ma.kr. eins og sagt er í grein Fréttablaðsins.  Þar munar litlum 36 ma.kr. eða ríflega 40%.  Áhugavert er hvernig fjármálafyrirtækin hafa síðan þrengt þetta úrræði, þannig að niðurstaðan er líklegast endar leiðrétting vegna 110% leiðarinnar í vel innan við 40% af þessum 89 ma.kr. og 30% af þeirri tölu sem sérfræðingahópurinn gerði ráð fyrir að leiðin kostaði.

3.  Tvítalning leiðréttinga.  Samkvæmt tölum í Þjóðhagsáætlun 2012, þá hafa leiðréttingar, aðrar en vegna gengistryggðra lána, numið 33 ma.kr.  Af þeirri tölu hafa 27,2 ma.kr. komið vegna 110% leiðarinnar og 6 ma.kr. vegna sértækrar skuldaaðlögunar.  Fréttablaðið lætur líta út sem 27,2 ma.kr. hafi verið fært af lánum/leiðrétt vegna 110% leiðarinnar á þessu ári og 9,9 ma.kr. samkvæmt eldri útgáfu úrræðanna.  Það gerir 37,1 ma.kr. sem er heilum 4 ma.kr. hærri upphæð en hefur verið leiðrétt vegna annarra lána en gengistryggðra.  Hið rétta er að leiðrétting vegna nýju útgáfu 110% leiðarinnar er bara 17,3 ma.kr., þ.e. 27,2 mínus 9,9.  Nema náttúrulega að ekki sé að marka opinberar tölur.

4.  Tölur um gengistryggðarleiðréttingar sem ekki passa við aðrar tölur.   Fréttablaðið vitnar í fyrrgreinda Þjóðhagsáætlun 2012 sem Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, lagði fram í upphafi þings.  Í skjalinu segir að í lok ágúst hafi verið búið að "færa niður" lán heimila um alls 164 ma.kr., þar af séu 131 ma.kr. vegna endurútreiknings á gengistryggðum lánum.  Síðan er tölunni skipt enn frekar niður í 92 ma.kr. vegna íbúðalána og 38 ma.kr. vegna bílalána.  Ég fjalla um tölur ráðherra í færslunni Reiknaði Guðlaugur til enda? - Nýjar tölur frá Árna Páli afhjúpa misræmi.  þar bendi ég á að tölur vegna gengistryggðra íbúðalána stemmi ekki við tölur Seðlabanka Íslands um gengistryggð húsnæðislán sem birtast undir hagtölur á vef bankans.  Hugsanlega ganga þær upp, ef önnur gengistryggð lán eru tekin með, en í Þjóðhagsáætlun 2012 segir kýrt og skilmerkilega að gengistryggð íbúðalán hafi verið færð niður um 92 ma.kr.

5.  Afskriftarsvigrúmið og tölur Árna Páls Árnasonar.  Eins og Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, orðaði það svo snilldarlega, þá er talnamengunin mikil þegar kemur að upplýsingum um hvað fjármálafyrirtækin hafa gert og hvað ekki.  Fréttablaðið vitnar í svar Árna Páls á síðasta þingi.  Ég er búinn að gera lúsarleit í umræðum á þingi og finn ekki tilvitnuð orð, en aftur á móti fann ég 11 mánaða gamla frétt í Fréttablaðinu, sem virðist vera rót þessarar fullyrðingar.  Þar segir að húsnæðislán hafi verið færð niður um 90 ma.kr. Samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands var staða verðtryggðra húsnæðislána hjá bönkunum 449 ma.kr. í lok september 2008.  Talan lækkaði í 252 ma.kr. í lok október, þ.e. mismunur upp á 197 ma.kr.  Gengisbundin húsnæðislán fóru á sama tíma úr 107,6 ma.kr. í 58,6 ma.kr. eða lækkun um 49 ma.kr.  Og séu öll húsnæðislán heimilanna tekin, þá stóðu þau í 606,9 ma.kr. í lok september, en 310,8 ma.kr. í lok október.  Mismunur upp á 296,1 ma.kr.  Tekið skal fram að milli desember 2009 og janúar 2010 bættust við húsnæðislán upp á 35 ma.kr., þegar Arion banki tók yfir húsnæðislán sem höfðu verið í eigu Eignasafns Seðlabanka Íslands.  Drögu þessa tölu frá 296 og fáum 261 ma.kr.  Meðan ekki eru settar fram fullnægjandi skýringar á þessari tölu, þá verður þetta að teljast hámark þess afsláttar sem nýju bankarnir fengu á húsnæðislánum heimilanna.  Þá er eftir að telja til afslátt af öðrum lánum.

--

Ég fer ekki fram á meira af fjölmiðlum, en að þeir fari rétt með staðreyndir.  Ég skil vel að í allri talnaflórunni sé erfitt að átta sig á tölum, en þá vil ég benda á að Seðlabanki Íslands hefur það hlutverk að safna upplýsingum frá bönkunum.  Vitnið í þessar tölur, þar sem þær eru líklegast áreiðanlegustu upplýsingarnar um skuldir heimilanna við bankakerfið.