Sparnaður er svo fjárfestar fái ódýrt lánsfé! - Raunverulegt hlutverk lífeyrissjóða er ekki sparnaður

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 5.10.2011.

Fyrir helgi barst mér póstur frá konu sem sagði farir sínar og mannsins síns ekki sléttar gagnvart lífeyrissjóðnum hans.  Hann var með séreignarsparnað hjá tilteknum sjóði og líka lán.  Á nokkurra ára tímabili hafði lánið hækkað verulega en séreignarsparnaðurinn óverulega. 

Ólafur Margeirsson, doktorsnemi í hagfræði fjallaði um þetta mál á síðunni sinni í færslunni Saga sjóðfélaga.  Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að ekkert vit sé í því að greiða í séreignarsjóð og hvetur fólk til að taka út séreignarsparnaðinn sinn.  Umfjöllun Ólafs um málið er einfaldlega það góð, að ég hef lítið við það að bæta.  Vona ég að sendandinn erfi það ekki við mig, þó ég fjalli ekki beinum orðum um málið hér.

Gunnar Heiðarsson setti athugasemd inn á færslu mína Svör um verðtryggingu, sem ég birti í gærkvöldi, þar sem hann bendir á misvægi milli lántöku og sparnaðar.  Munur á 1 m.kr. til 5 ára er á fjórða hundrað þúsund eftir því hver á peningana.

Hvorugt af þessu þarf að koma á óvart.  Fjármálakerfið virkar svona.  Þá á ég við, að taka peninga ódýrt að láni og lána þá út á hærra verði.  Verum ekki svo einföld að halda, að betra sé að eiga peninga á lágum vöxtum í banka og skulda á hærri vöxtum, en að nota sparnaðinn til að greiða niður lán.  Hér er sáraeinfalt dæmi:  Sé 1 m.kr. á 1% vöxtum á sparisjóðsbók og sami aðili sé með 1 m.kr. lán á 11% vöxtum til 5 ára hjá bankanum sínum, þá er viðkomandi að tapa 250 þús.kr. á lánstímanum.  (Meðallánsfjárhæð er 500 þúsund kr. og vaxtamunurinn 50 þúsund á ári eða alls 250 þúsund.)  Í þessu tilfelli er hagkvæmast fyrir viðkomandi að nota peningana á sparireikningnum til að greiða upp lánið og leggja vaxtamuninn inn á sparireikninginn.

Raunverulegt hlutverk lífeyrissjóðanna

(Mig langar að vera dálítið brútal núna og setja fram ögrandi mynd á raunverulegu hlutverki lífeyrissjóðanna.  Ekki skal líta á það sem á eftir kemur sem alhæfingu og á því sem sagt er, eru að sjálfsögðu undantekningar.)

Lífeyrissjóðakerfið er stærsta hítin.  Hvergi tapar almenningur peningum sínum eins hratt og þar.  Í hverjum mánuði er greitt fyrir þann sem er með 250.000 kr. í mánaðarlaun 30.000 kr. í lífeyrissjóð.  10.000 kr. koma af launum viðkomandi og 20.000 kr. koma frá atvinnurekandanum og eru ekkert annað en laun, þó við köllum það ekki því nafni.  30.000 kr. á mánuði er 360.000 kr. á ári.  Ef í staðinn fyrir að greiða þetta á þennan hátt inn í sjóðina, fengi viðkomandi að nota peninginn til að greiða niður lán sín, þá græðir viðkomandi líklegast 10% af tölunni árlega í lægri vöxtum vegna lánsins síns.  Hvers vegna á ég að greiða 12% af launum mínum til lífeyrissjóðsins míns til að geta tekið lán hjá þessum sama lífeyrissjóði á mun hærri vöxtum en ég fæ af peningunum sem hann fékk frá mér?  Það er eitthvað stórlega rangt við það.

Tekið skal fram, að ég er ekkert á móti lífeyrissjóðum, en köllum hlutina réttu nafni:

1.  Lífeyrissjóðirnir eru til að greiða niður útgjöld ríkisins.  Lífeyrisgreiðslur voru fyrir 30 - 40 árum hugsaðar til að bæta kjör aldraðra í ellinni og hag örykja.  Í dag eru þær fyrst og fremst niðurgreiðsla á framlagi ríkisins til velferðarkerfisins.   Sá sem á mikil réttindi frá lífeyrissjóðnum er lítið bættari en sá sem á nánast engin réttindi eða mjög takmörkuð.  Skiptir þá ekki máli hvort viðkomandi býr einn, með maka sínum eða er á vistheimili.  Kerfið sem við búum við í dag gengur út á jöfnuð, þannig að allt sem við spöruðum í lífeyrissjóði á starfsævinni umfram manninn í næsta hús er ekki að nýtast okkur nema að mjög takmörkuðu leiti vegna þeirrar tekjujöfnunar sem felst í kerfinu. Nýlega steig fram kona sem var með á fimmta hundrað þúsund í greiðslur úr lífeyrissjóði á mánuði.  Hún bjó á sambýli eldri borgara og þangað runnu nær allar tekjur hennar.  Hún hafði ekki einu sinni efni á að kaupa jólagjafir handa barnabörnunum.  Draumurinn um ferðalög í ellinni var brostinn vegna þess að sambýlið hirti nær allt af henni.  Á næsta gangi var kannski einstaklingur sem hafði um 100 þúsund frá lífeyrissjóðnum og hann hafði sömu ráðstöfunartekjur og blessuð konan.  Til hvers var konan þá að ávinna sér þessi réttindi og geyma þau í lífeyrissjóði, ef það bætti hag hennar ekkert?  Nei, því miður hafa stjórnvöld eyðilagt þann hluta lífeyrissjóðakerfisins sem gekk út á "áhyggjulaust ævikvöld".  Núverandi almannatryggingakerfi gengur nefnilega út á að gera hlut allra jafn nöturlegan.

2.  Hlutverk lífeyrissjóðanna í dag er að útvega fé til fjárfestinga.  Staðreynd málsins er að lífeyrissjóðirnir eru stærstu fjárfestar landsins.  Þeir safna lánsfé frá iðgjaldsgreiðendum og þó svo í orði kveðnu þeir eigi að skila góðri ávöxtun, þá standa þær dyr galopnar.  Ávöxtunarkrafan er nefnilega tengd afkomu sjóðanna, þannig að endurgreiðsla lánsfjárins fer allt eftir því hvernig fjárfestingastjórar sjóðanna standa sig og síðan efnahagsumhverfinu.  Gangi allt á afturfótunum eins og síðustu 4 ár, þá segir framkvæmdastjórinn af sér!  Nei, nei, nei.  Þá tapar sjóðfélaginn peningunum sínum.  Framkvæmdastjóranum líður kannski illa yfir þessu, en hann heldur laununum sínum og bílnum og hinum og þessum fríðindum.  Sjóðfélaginn, hann aftur á móti þarf að sætta sig við 20% skerðingu og þaðan af meiri.  Nú gangi vel, þá nýtur sjóðfélaginn þess vissulega, en framkvæmdastjórinn er líklegast verðlaunaður.  Ánægðastir eru þó fjárfestar, þar sem þeir fá meiri pening til að leika sér með.

Íslensku lífeyrissjóðirnir eru orðnir allt of stórir fyrir Ísland.  Fjárfestingageta þeirra stefnir í 2.000 ma.kr. og það þrátt fyrir að hafa tapað fleiri hundruð milljörðum árið 2008.  2.000 ma.kr. er um 30% umfram árlega þjóðarframleiðslu!  Bara það eitt er hættumerki.

3.  Sjóðfélagar hagnast meira á því að greiða niður lán en eiga peninga í lífeyrissjóðum.  Ólafur Margeirsson komst að þessari niðurstöðu í sinni grein og ég er að sumu leiti sammála honum.  Eins og staðan er í dag í þjóðfélaginu, þá er skuldlaus maður frjáls maður.  Ég á einhverja milljóna tugi inni í mínum lífeyrissjóðum miðað við það sem ég hef greitt inn í þá. Ég hef fengið lán hjá einum þeirra og telst mér til að ég greiði um 5% hærri vexti af láninu, en það sem ég fæ út úr peningum mínum hjá sjóðnum.  Ef öll lífeyrisiðgjöld vegna mín hefðu verið greidd inn á reikning, sem ég hefði getað notað í stað lántöku (notkunin háð ströngum skilyrðum), þá væru skuldir mínar brot af því sem þær eru í dag og þar með væri eignarhlutur minn í húsinu mínu mun hærri.  Hugsanlega ætti ég það skuldlaust.  Við aðrar efnahagsaðstæður gæti staðan snúist við, þ.e. hagkvæmara væri að taka lán og eiga pening í lífeyrissjóði.  Þannig var það t.d. á árunum 2004 - 2006 fyrir þá sem tóku gengistryggð lán.  Í dag er verið að flá þetta fólk lifandi með okurvöxtum Seðlabanka Íslands.

4.  Lífeyrissjóðir geyma framtíðarskatttekjur ríkissjóðs og sveitafélaga.  Þetta er líklegast einn mikilvægasti tilgangur lífeyrissjóðanna, þ.e. að taka skatttekjur nútímans og geyma þær til framtíðar.   Því miður er ekki víst að þetta reynist ríkissjóði vel.  Hafi lífeyrissjóðirnir tapað 4 - 5 hundruð milljörðum vegna hrunsins, þá tapaði ríkið (og sveitafélög) í leiðinni á bilinu 133 - 166 ma.kr. miðað við að þriðjungur upphæðarinnar fari í skatta.  Ef ríkissjóður hefði þá reglu að innheimta skatt strax af lífeyrisiðgjöldum og safna honum í varasjóð sem hefði ávaxtast á sama hátt og hjá sjóðunum, þá hefði ríkið (og sveitafélög) átt um 600 ma.kr. í þessum varasjóði í lok september 2008.  Sú upphæð hefði örugglega breytt ýmsu varðandi úrræðin sem ríki og sveitafélög hefðu getað gripið til í því skyni að endurreisa efnahagslífið.  Spurningin er bara hvort ríkið hefði ekki verið búið að eyða þessum peningum fyrir löngu í einhverja vitleysu.

Ég er þeirrar skoðunar, líkt og margir fleiri, að nauðsynlegt sé að endurskoða framkvæmd lífeyrissparnaðar og opna þar meira fyrir einstaklingsbundinn sparnað.  Samtryggingakerfið bólgnar út án þess að halda í við kröfurnar sem ætlast er til að það standi undir.  Ólafur Margeirsson hefur sagt kerfið vera Ponzi svikamyllu, þ.e. þeir sem fyrst komast á eftirlaunaaldur fá sitt á kostnað þeirra sem síðar koma og loks þegar kemur að þeim verði ekkert eftir.  Staðreyndin er sú, að lífeyrissöfnun almennings hefur að miklu leiti hrakið af leið hins upprunalega tilgangs.  Það þarf að leiðrétta.

Nokkrar athugasemdir sem settar voru inn:

Frá höfundi:

Ólafur er ekki einn um að lýsa þessu á þennan hátt, þó fólk hafi ekki notað orðið Ponzi-svikamylla. 

Staðreyndin er sú, að núverandi hraði réttindaávinnings er meiri en ávöxtun sjóðanna ræður við.  Menn innan kerfisins, m.a. Vilhjálmur Egilsson, hafa lýst yfir áhyggjum sínum.  Höggið sem kom á sjóðina 2008 og er ennþá ekki að fullu komið fram, var svo mikið að sjóðirnir eru flestir með neiðkvæða stöðu.  Hvað þýðir neikvæð staða?  Jú, það þýðir að skuldbindingar sjóðanna miðað við tryggingafræðilegar forsendur eru meiri en eignir þeirra standa undir.  Afleiðing þess er að þeir sem greitt hafa í sjóðina munu ekki fá það sem þeim var lofað, þegar þeir greiddu inn.  Nýlega var réttindaávinningur lækkaður um nálægt 1.000 kr. á ári fyrir hverjar 10.000 kr. greiddar í sjóðina.  Það var hægt á réttindaávinninginum vegna slæmrar stöðu sjóðanna.  Ef það hefði ekki verið gert, þá hefðu þeir tæmst, þ.e. þeir sem borguðu síðast inn og eiga síðast rétt á greiðslu hefðu ekki fengið neitt. 

Það töpuðu allir á hruninu nema innstæðueigendur.  Það er hinn kaldi veruleiki.  Engir töpuðu meiru en hlutabréfaeigendur og síðan þeir sem áttu skuldabréf bankanna.  En það er þess vegna sem við erum við áhættustýringu og fjárfestingastefnu hjá lífeyrissjóðunum.  Mistökin sem þeir gerðu og mjög margir fjárfestar voru að skilgreina ekki körfuna, sem þeir settu eggin sín í, nógu stóra.  Kannski voru það ekki mistök heldur bara kaldhæðni örlaganna að allt Ísland hrundi.

Ég tek það fram, að ég segi hvergi að betra sé að setja lífeyrissparnaðinn inn á bók.  Ég bendi bara á að um þessar mundir væri sjóðfélögum meiri akkur í því að greiða hratt niður skuldir sínar og byggja svo upp sparnað.  Meðan ávöxtun sparnaðarins er lægri en kostnaðurinn af láninu, þá er engin skynsemi í að taka sparnaðinn fram yfir uppgreiðslu lána.  Það er minn málflutningur.

Mig langar að taka það fram, að hvergi í færslunni er beint gagnrýni á lífeyrissjóðina fyrir utan að þetta sem ég segi um að framkvæmdastjórar hafi ekki tekið á sig launalækkun, þegar allt fór fjandans til.  Allt annað er bara lýsing mín á því hvernig ég sé lífeyrissjóðina vera misnotaða (liður 1 og 2), að hagstæðara sé að greiða upp lán en spara miðað við vexti hvors kosts og að lífeyrissjóðunum var breytt í geymslustað fyrir framtíðarskatttekjur ríkisins og eru því ekki bara með ábyrgð á afkomu sjóðfélaga heldur líka samfélagsins.  Það er staðreynd að verið er að misnota lífeyrissjóðina og það illilega.

Ríkið er alls staðar að fá fólk til að taka á sig nýja byrðar.  Núna eiga allir að greiða til Starfsendurhæfingarsjóðs (VIRK).  Fyrir 20 árum sá ríkið um að greiða fyrir endurhæfingu fólks, núna er það VIRK.  Vissulega dekkar VIRK  mun meira en ríkið dekkaði þá, en hluti af því sem var ókeypis áður (hluti af sköttum) er nú rukkað fyrir framhjá skattkerfinu.  Á sama hátt er greiðsluþátttaka sjúkrasjóða, sjúklinga, ellilífeyrisþega.  Þetta var greitt í sköttunum áður og þrátt fyrir að skattarnir hafi hækkað, þá borgum við meira fyrir það sem greitt í sköttunum áður.

Frá Guðbirni Jónssyni:

Gangnrýni á óábyrga meðferð fjármuna já þeim er ekkert ný af nálinni. Sjóðir þessir eru stofnaðir sem eignasjóðir og í lögum um þá, fyrstu áratugina, var skýrt ákvæði um að þeir hefðu með höndum VÖRSLU fjár sjóðsfélaga og væri skylt að ávaxta það með bestu fáanlegu kjörum. Á þeim tíma var sjóðunum óheimilt að lána út fé án traustra veða eða trygginga.

Fljótlega voru teknar inn til lífeyrissjóðanna greiðslur örorkulífeyris. Vegna stutts tíma í uppsöfnun réttinda, var örorkulífeyrir sjóðana lítill. En þar sem sjóðirnir voru og eru enn söfnunarsjóðir inneigna, báru þeir ekki ábyrgð á örorkugreiðslum umfram uppsöfnuð réttindi. Ríkinu var því ætlað að koma þarna á móti með greiðslur vegna öryrkja, en það urðu aldrei neinar efndir á því.

Á fyrstu árunum máttu lífeyrissjóðirnir ekki lána út án tryggra veða eða trygginga ríkis eða sveitarfélaga.. Fyrir rúmum 30 árum var farið að lauma inn í samþykktir sjóðanna ákvæðum um að þeir mættu eiga lítinn hluta eigna sinna í hlutabréfum og skudlabréfum á svokölluðu "gráu svæði" . Þarna var ekki um eina afmarkað breytingu að ræða, heldur hefur stööðugt verið haldið áfram að breyta samþykktum sjóðanna, þannig að nú eru til sjóðir sem hafa í samþykktum sínum heimildir til að eiga lítt, eða ótryggða lánasamninga, afleiðusamninga eða hlutabréf, fyrir meira en 100% af eignum sínum til greiðslu lífeyris

Þetta hefur verið ótrúleg þróun, sem litla athygli hefur fengið. Þegar starfsemi útlána og ávöxtunar eiginfjár lífeyrissjóðanna, síðustu árin fyrir hrun eru skoðuð með gagnrýnni hugsun, kemur glögglega í ljós hvers vegna tap lífeyrissjóðanna var eins gífurlegt að raunin varð. Þar var án nokkurs skynsamleg vafa, farið langt út fyrir heimildir samþykkta og laga í ráðstöfun á fjármunum sjóðsfélaga.

Ég veit að s. l. 35 ár hafa einstakir lífeyrissjóðir farið í ótrúlegar skógarferðir með fjármuni sjóðsfélaga. Fyrir u. þ. b. tveimur áratugum var ég kominn svo langt með að komast yfir raunveruleikaþætti í þessum málum, að ráðherra yfir sjóðunum var búinn að skipa svo fyrir að mér væru afhentar tilteknar upplýsingar. Þegar ég fór að kalla eftir þeim, var sent heim til mín vöðvatröll, sem taldi heppilegra fyrir heilsu mína og nánustu ættingja að ég léti af svona ófriði,eins og það var orðað. Þegar vörslumenn fjármuna minna grípa til slíkra aðgerða, frekar en upplýsa um stöðu mála, mætti ætla að eitthvað væri ekki í lagi. Og ég hef séð af ársreikningum ýmissa sjóða að ekki er allt í lagi með eignasöfnin.