Ástandið versnar þvert á staðhæfingar stjórnvalda og AGS

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.10.2011.

Á ráðstefnunni í Hörpu í gær, þá voru nokkrir sem töluðu máli stjórnvalda og héldu því fram að allt væri á réttri leið.  Julie Kozack, yfirmaður AGS gagnvart Íslandi var ein af þeim.  Hún sagði að með AGS prógramminu hafi tekist að varðveita norræna velferðarkerfið og það sem hún kallar "the social fabric" (samfélagsgerðin).  Kannski er þetta rétt út frá einhverjum tölfræðilegum samanburði þar sem fundnir eru réttar viðmiðunartölur, en mér sýnist aftur sem tölur Hagstofunnar a.m.k. varpi skugga á þessa staðhæfingu hennar.

Eftir að Julie flutti sitt erindi, þá spurði ég hana einfaldrar spurningar:

Getur þú skýrt fyrir almenningi á Íslandi sem hefur þurft að þola miklar skattahækkanir, hrun í kaupmætti, atvinnuleysi á áður ókunnum slóðum, mesta fólksflótta í yfir eina öld, gríðarlegan fjölda nauðungarsalna, gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja sem aldrei áður, að lokað sé fyrir nauðsynlega þjónustu á landsbyggðinni og áratuga sparnaður tapast?  Hvernig getur nokkur haldið því fram að það hafi tekist að verja norræna velferðarkerfið eða að samfélagsgerðin hafi ekki raskast?

Er óhætt að segja að hún hafi orðið vandræðaleg og viðurkenndi að vissulega hefði almenningur þurft að þola margt.

Ég nefni þetta, vegna þess að upplýsingarnar í Hagtíðindum falla svo gjörsamlega að tilfinningu okkar sem höfum staðið í hagsmuna baráttu fyrir almenning í landinu.  Brestirnir í velferðarkerfinu og samfélagsgerðinni eru bæði áberandi og mjög víða.  Það er ekki hluti af norrænu velferðarkerfi eða samfélagsgerð okkar að stórir hópar fólks séu að missa húsnæðið sitt og lenda á götunni.   Norrænt velferðarkerfi myndi ALDREI leyfa að gengið væri á fjölskyldur vegna afglapa bankamanna á árum áður.  Norrænt velferðarkerfi myndi sjá til þess að tjónið sem afglaparnir ollu væri leiðrétt, þannig að foreldrar gætu búið börnum sínum áhyggjulítið líf.  Norrænt velferðarkerfi myndi veita sanngjörn úrræði svo fólk gæti náð réttláttri niðurstöðu í samningum við lánadrottna sína.  Íslensk samfélagsgerð hefur gengið út á að tryggja afkomu fólksins í landinu.  Réttláta skiptingu auð, að jafna byrðinni á fólk og fyrirtæki.  Núna hefur dæmið snúist þannig að þrír bankar hagnast um 163 ma.kr. meðan yfir 50% heimila á í erfiðleikum með að ná endum saman og stór hluti atvinnulífsins er í gjörgæslu bankakerfisins.  Það er ekki bara að samfélagsgerðinni hefur verið kollvarpað, heldur hefur samfélagssáttmálin verið rofinn.

Upplýsingarnar í Hagtíðindum sýna að þó einhverjum hagfræðilegum botni hafi verið náð og þjóðhagslegar stærðir benda til þess að nú liggi leiðin upp á við, þá eru heimili í sárum og verði ekki gripið strax til róttækra aðgerða til að rétta hlut þeirra, þá mun stórum hluta þeirra blæða út.  Fyrir gríðarlegan hluta íslenskra heimila, þá er gjaldþrot betri kostur en að halda þessu ströggli áfram.  Mér finnst liggja beinast við, að bankarnir þrír verða að láta hagnað síðustu þriggja ára renna til endurreisnar velferðarsamfélagsins.  Það er þeirra siðferðilega skylda, það er hluti uppgjörsins við hrunið og leið til að koma á sáttum.  Einnig eiga þeir undabragðalaust að skila öllum afslætti á lánasöfnum til viðskiptavina sinna.