Stórhættuleg hugsanaskekkja varðandi erlendar skuldir - Ekki er hægt að treysta á erlendar eignir til að greiða erlendar skuldir

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 2.5.2011.

Ég hef tekið eftir því að eftir að grein Haralds Líndals Haraldssonar birtist í Morgunblaðinu í dag og viðtalið við hann bæði í útvarpi og sjónvarpi, þá hafa menn komið fram sem segja Harald fara með rangt mál, þar sem hann gleymi erlendum eignum.  Skoða eigi verga stöðu, en ekki brúttó stöðu.  Þetta er rangt og vil ég færa hér örfá rök fyrir því.

Í fyrsta lagi gleyma menn því að eigendur erlendra eigna eru aðrir en greiðendur erlendra skulda.  Þannig er stærsti hluti erlendra eigna annarra aðila en fjármálastofnana í slitameðferð í eigu lífeyrissjóðanna.  Þeir munu ekki selja sínar erlendur eignir til að fjármagna greiðslu erlendra skulda annarra.  Í þessu felst sjónhverfining sem menn halda sífellt á lofti.  Ætli menn ekki hreinlega að þjóðnýta erlendar eignir lífeyrissjóðanna, þá skipta þær ekki máli, þegar kemur að því að greiða af skuldum.  Erlendu skuldirnar þarf að greiða án þess að hægt sé að treysta á erlendar eignir.  Það er mergur málsins.  Lífeyrissjóðirnir munu ekki flytja ávöxtun erlendra eigna til landsins, þar sem ávöxtunin verður að mestu leiti ekki að raunveruleika fyrr en við sölu eignanna.

Við Haraldur Líndal fórum yfir þessa talnaleikfimi með fjárlaganefnd í júní 2009.  Þetta tal um að staðan væri ekki svo slæm, þar sem erlendar eignir komi á móti, er hættuleg hugsanavilla. 

Í öðru lagi þarf að greiða af erlendum skuldum með tekjuinnstreymi í gjaldeyri vegna vöruskipta og þjónustujöfnuðar (eða hvað þetta nú heitir).  Ekki vegna ávöxtunar á verðbréfum sem ekki er greidd út.  Gleymið því, að lífeyrissjóðirnir fari að flytja pening til landsins í miklu mæli.  Þeim sveið alveg nóg að kaupa bréf Landsbankans af Seðlabanka Lúxemborgar.  Meðan gjaldeyrishöftin eru við líði, þá hafa sjóðirnir enga möguleika á að færa pening úr landi, sem þeir nauðsynlega þurfa, þar sem hér á landi eru ekki næg fjárfestingatækifæri án þess að hætta sé á brenglun á samkeppnisumhverfi.

Í þriðja lagi gleymist í þessu og er líka hluti af blekkingunni, að hluti þeirra eigna fjármálafyrirtækja í slitameðferð sem nota á til að greiða erlendar skuldir þeirra, eru í íslenskum krónum hér á landi.  Það er því hreinlega rangt að stilla þessu svona upp eins og menn gera að ekki þurfi að taka með erlendar skuldir fjármálafyrirtækja í slitameðferð.  Vissulega mun ekki þurfa að taka tillit til allra skulda þeirra, þar sem þær greiðast með erlendum eignum, en annað greiðist með eignum hér á landi.  Vil ég þar nefna 288 milljarða kr. skuldabréf sem NBI hf. gaf út til Landsbanka Íslands hf. Þá eiga kröfuhafar bæði Arion banka og Íslandsbanka.  Virði þeirra er á þriðja hundrað milljarðar.   Síðan er það hlutdeild erlendra kröfuhafa í betri innheimtum á innlendum kröfum.  Þá er það innheimta fjármálafyrirtækja í slitameðferð á innlendum kröfum, en sá peningur mun að hluta renna til erlendra kröfuhafa.

Í fjórða lagi eru það innlendar eignir erlendra aðila hér á landi.  Fjármunir sem muna fyrr eða síðar leita úr landi.

Í fimmta lagi eru það Icesave skuldbindingarnar, hverjar sem þær verða að lokum.

Í sjötta lagi er það Actavis.  Ekki er ljóst hvert nettó streymið er þar.

Síðan skulum við ekki gleyma því að hér vilja menn fara í framkvæmdir.  Höfum í huga að 70% af kostnaði við flest verk er uppruninn erlendis og þetta þarf að greiða.  Slíkar fjárfestingar munu því líklega auka á skuldabyrðina eða draga úr líkum okkar til að greiða niður þær sem eru fyrir, a.m.k. þar til nýja fjárfestingin fer að skila gjaldeyristekjum.

Ég bara bið menn um að hætta að blekkja þjóðina.  Ástandið er grafalvarlegt og við lögum það ekki með því að sópa því undir teppið, eins og reynt er að gera af þeim sem kjósa að horfa á vandamálið með blinda auganu.

Ég sé ekki nema tvær leiðir út úr þessum vanda.  Önnur er að útflutningur vöru og þjónustu verði það mikill umfram innflutning, að þjóðin nái að vinna smátt og smátt á erlendum skuldum.  Það þýðir nánast að hér verði tekin um innflutningshöft.  Þau eru vissulega í gangi með gjaldeyrishöftunum, en líklegast yrði að herða ólina enn frekar.  Hin er að hér á landi verði í notkun alþjóðlega viðurkenndur gjaldmiðill.  Ég sé ekki fyrir mér að krónan nái þeirri stöðu í bráð, þannig að við verðum að taka upp einhvern annan gjaldmiðil án þess að ég taki afstöðu til þess hvaða gjaldmiðill það ætti að vera.