Ótrúlegt að enn sé verið að tala um að bjarga bönkum - Þeir eiga að bjarga sér sjálfir eða fara á hausinn

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.8.2011.

Tvenns konar rekstur virðist búa við  bakstuðning stjórnvalda og skattgreiðenda, með öðrum orðum ríkisábyrgð.  Annar er opinber rekstur, hinn er fjármálastarfsemi.  Munurinn er samt sá, að annar líður fyrir það að verið sé að bjarga hinum.

Út um allan heim er verið að draga saman í opinberum rekstri.  Hér á landi hefur verið skorið niður í öllum opinberum rekstri og þá sérstaklega í velferðarkerfinu.  Á sama tíma hefur ekkert fækkað að ráði í fjármálageiranum og það sem meira er, að meðan opinberir starfsmenn hafa búið við launaskerðingu og mikla rýrnun kaupmáttar, þá hafa laun í fjármálageiranum hækkað.

Ég hef ítrekað fjallað um margt af því sem ég tel að hafi farið úrskeiðis í fjármálakerfinu.  Ég setti þá kenningu fyrst fram í október 2008 og get ekki séð annað en að ég hafi þá strax hitt naglann á höfuðið.  Þessi atriði sem ég nefndi þá (9. október 2008) voru:

  1. Regluverk fjármálakerfisins á Íslandi

  2. Framkvæmd peningamálastefnu Seðlabanka Íslands

  3. Afmörkun og framkvæmd eftirlits FME með fjármálafyrirtækjum

  4. Framkvæmd áhættustjórnunar hjá íslenskum bönkum

  5. Framkvæmd áhættustjórnunar hjá erlendum bönkum

  6. Ótrúleg afglöp matsfyrirtækjanna við mat á fjármálavafningum með undirmálslánum - sem síðar kom lausafjárkreppunni af stað

  7. Of skammur aðlögunartími fyrir Basel II regluverk Bank of International Settlements (Alþjóðagreiðslubankinn, BIS) eða að bankar og matsfyrirtæki hófu undirbúning of seint

  8. Í senn bíræfni, bjartsýni og áræðni íslensku útrásarinnar.  Útrásarmenn tróðu líklegast of mörgum um tær á vegferð sinni og sköpuðu sér þannig óvinsældir og láðist að ávinna sér traust nema í þröngum hópi.

Þegar þessi atriði voru sett fram, þá vissi ég ekki margt af því sem ég veit í dag, eins og með alla spillinguna, óheiðarleikann og vanhæfið sem tröllreið hjá stjórnendum og stjórnarmönnum hinna íslensku fjármálafyrirtækja.  Annað sem ég vissi ekki þá, var að þetta var nákvæmlega eins úti í hinum stóra heimi.  Listinn lítur því svona út í dag:

  1. Regluverk fjármálakerfisins 

  2. Framkvæmd peningamálastefnu seðlabanka um allan heim

  3. Afmörkun og framkvæmd eftirlits með fjármálafyrirtækjum

  4. Framkvæmd áhættustjórnunar hjá fjármálafyrirtækjum, jafnt stýringu áhættu útlána sem rekstrarlegrar áhættu.

  5. Ótrúleg afglöp matsfyrirtækjanna við mat á gæðum fjármálagerninga og rekstrarhæfi fjármálafyrirtækja

  6. Of skammur aðlögunartími fyrir Basel II regluverk Bank of International Settlements (Alþjóðagreiðslubankinn, BIS) eða að bankar og matsfyrirtæki hófu undirbúning of seint

  7. Í senn bíræfni, bjartsýni og áræðni bankstera um allan heim, spilling, vanhæfi, óheiðarleiki, spilafíkn, siðblinda og græðgi.

Bræðalag fjármálaheimsins

Fjármálakerfið er eins og bræðralag.  Menn standa saman sama hvað gerist.  Enginn vogar sér að kjafta frá og gerir þú það, ertu gerður útlægur, sviptur æru þinni og eigum, ef ekki lífinu líka.  Fjármálafyrirtækin hafa komið sér fyrir innan hagkerfisins og tryggt með því áhrif sín við landstjórnina í nær öllum löndum heims.  Lög og reglur hafa verið sérsniðnar svo fjármálafyrirtækin lifi af, skítt með almenning og annan rekstur.  Mitt í þessu öllu eru alþjóðastofnanir sem hafa velferð fjármálafyrirtækja að leiðarljósi og þær láta eins og þær séu alvaldar.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) og Alþjóðagreiðslubankinn (BIS) eru tvær slíkar stofnanir.  Þegar AGS kom hér til aðstoðar, þá voru fyrstu fyrirmælin, að ekkert mátti gera til að skerða mögulegar endurheimtur erlendra kröfuhafa.  Fyrirgefið, en hagkerfið fór á hliðina og við áttum að hugsa fyrst um erlenda kröfuhafa, sem notabene voru mest megnis í bræðralagi fjármálafyrirtækjanna.

Fjármálafyrirtæki njóta verndar

Reglulega gerist það að flugfélög lendi í fjárhagsvanda.  Þá hafa ríkisstjórnir gjarnan gripið inn í og veit styrki, en krafan hefur verið að kröfuhafar gefi eftir hluta af kröfum sínum.  Hvers vegna gildir ekki það sama um fjármálafyrirtæki?  Af hverju er það fyrsta krafa AGS að endurgreiðslur til erlendra lánadrottna séu ekki skertar með stjórnvaldsaðgerðum?  Af hverju á almenningur á Íslandi, Írlandi, í Grikklandi eða Portúgal að taka á sig auknar byrðar svo hægt sé að borga fjármálafyrirtækjum til baka það sem þær eru annað hvort sannanlega búnar að tapa eða mjög miklar líkur eru á að sé tapað fé?

Ég velti því stundum fyrir mér hvort fjármálafyrirtæki séu verndaðir vinnustaðir og á það ekki bara við á Íslandi.  Írskir bankar hafa sogað til sín stórar upphæðir úr ríkiskassanum, grískir bankar eru á spena stjórnvalda sem hafa á móti enga burði til að bjarga þeim, dönsk stjórnvöld ábyrgðust alla banka í landinu og svona mætti lengi telja.  Hvers vegna eru fjármálafyrirtæki ekki gerð ábyrg á eigin rekstri?  Hvernig væri að fjármálafyrirtæki keyptu sér tryggingar gegn áföllum.  Þá á ég við aðrar en felast í því að hafa snúið á stjórnmálamenn og fengið þá til að veita fyrirtækjunum nánast ríkisábyrgð. 

Innstæðutryggingakerfið er einn fáránlegasti angi þessa máls.  Bresk stjórnvöld hafa greitt út tugi milljarða punda vegna fallinna banka.  Vissulega greiddu þeir iðgjald til tryggingasjóðsins, en samkvæmt því sem ég hef séð, þá hefur sjóðurinn samt alltaf fengið framlög frá ríkisstjórninni þegar kemur að útgreiðslu.  Iðgjöldin eru nefnilega svo lág að þau duga ekki fyrir lágmarkstryggingunni, hvað þá einhverju meira.  Í Bandaríkjunum hefur alríkisstjórnin eða seðlabankar einstakra fylkja hlaupið undir bagga.  Af hverju eru fjármálafyrirtækin ekki gerð ábyrg fyrir þessu sjálf?

Áhættustjórnun í skötulíki

Fjármálafyrirtæki eru skilduð til að viðhafa áhættustjórnun, þegar kemur að útlánum, en hvað annað varðar, þá virðast þau ekki þurfa hennar með.  Falli þau, þá eru það stjórnvöld sem borga brúsann.
 Stjórnun rekstrarsamfellu er eitthvað sem fæstir stjórnendur fjármálafyrirtækja virðast þekkja, viðbragðsáætlanir eru sjaldnast til staðar og endurreisnaráætlanir enn síður.

Ég efast um að hér á landi hafi mikið fleiri en tvo fjármálafyrirtæki haft haustið 2008 virka áhættustjórnun, stjórnun rekstrarsamfellu, tilbúnar viðbragðsáætlanir og endurreisnaráætlanir sem miðuðu að því að viðhalda eðlilegum rekstri ef áfall skylli á.  Þess vegna fór sem fór.  Menn léku sér að eldinum og höfðu ekki gert ráð fyrir að slökkva þyrfti eldinn.

Fjármálafyrirtæki á að gera ábyrg

Stjórnvöld í hverju landi eiga að skikka fjármálafyrirtæki, sem eru með almenning í viðskiptum til að koma sér upp öllum þeim öryggisnetum sem þörf er á, svo almenningur beri ekki skarðan hlut frá borði eða þurfi að borga reikninginn lendi fjármálafyrirtækið í vanda.  Hingað til hefur verið treyst á leiðsögn frá BIS um slíkar kröfur og reglur, en BIS er hluti af bræðrarlaginu.  Rekstraröryggiskröfur gerðar til fjármálafyrirtækja eiga ekki að vera á neinn hátt veikari en til annarra fyrirtækja.  Afleiðingin af því að standast ekki þær kröfur eiga aftur á móti að vera mjög harðar, mun harðari en fjármálaeftirlit um allan heim hafa beitt hingað til.  Síðan á það að vera alveg kristaltært að standist fjármálafyrirtækin ekki kröfurnar, þá missa þau starfsleyfi sitt.  Til að verja viðskiptavini og almenning tjóni, eiga fjármálafyrirtækin að greiða tryggingafé inn á bundna reikninga líkt og ferðaskrifstofur (eða kaupa sér tryggingar hjá traustum tryggingafélögum) og þetta fé skal eingöngu nota til að bæta viðskiptavinum, stjórnvöldum og almenningi tjón sem fjármálafyrirtækið gæti valdið.  Það sem mestu máli skiptir:  Fjármálafyrirtæki eiga að lúta sömu lögmálum og önnur fyrirtæki, þegar kemur að gjaldþroti.

Sokkinn kostnað á að afskrifa

Út um allan heim eru fjármálafyrirtæki sem eru ýmist gjaldþrota, tæknilega gjaldþrota eða á leiðinni í þessa stöðu.  Hér á landi eru þrjú stór fjármálafyrirtæki sem byggja eignasafn sitt á vafasömum kröfum sem urðu til vegna lögbrota, svika, spillingar, vanhæfi, óheiðarleika og hvað það nú var fleira.  Einhvern tímann mun reyna á það fyrir dómi hvort gríðarleg hækkun höfuðstóls lána standist og falli það fjármálafyrirtækjunum í óhag, þá sé ég ekki að þau haldi áfram rekstri í óbreyttri mynd.  En verði kröfurnar ekki lengur jafn verðmiklar, þá mun það bitna á kröfuhöfum fjármálafyrirtækjanna, sem eru víst erlendir og með beittar tennur.  Fyrir utan að hafa tapað eitthvað á misheppnaðri áhættustjórnun sem þegar er komin í ljós, þá gæti verið að áhættustjórnunin hafi verið ennþá misheppnaðri. 

Ísland er ekki eina landið í heiminum sem þessir ógurlegu kröfuhafar hafa misstigið sig gagnvart áhættustjórnun.  Grikkland, Ítalía, Írland, Portúgal, Bandaríkin og svona mætti lengi telja eru allt lönd þar sem mikill fjöldi fjármálafyrirtækja er ýmist fallinn eða á fallandi fæti.  Önnur berast í bökkum, en geta ekki endurgreitt lánadrottnum sínum.  Lánadrottnarnir hafa tvo kosti:  Annar er að afskrifa strax og hinn er að afskrifa síðar.  Það er ekkert þarna á milli.  Jú, menn eru að reyna að mergsjúga allt það fé sem stjórnvöld í einhverju brjálæði eru að dæla inn í fjármálafyrirtækin svo ekki falli kusk á hvítflibba bankamanna.  Því verður að hætta.  Kröfuhafar verða að skilja, að þeir bera ábyrgð á sinni áhættustýringu og hafi hún brugðist, þá bera þeir tjónið og engir aðrir.  Enginn munur er á töpuðum kröfum vegna lána til illa staddra fjármálafyrirtækja og illa staddra framleiðslufyrirtækja.  Því fyrr sem menn viðurkenna sokkinn kostnað, því fyrr hefst endurreisnin.