Virkjanir, náttúruvernd og orkusparnaður

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 29.6.2011.

Vegna umræðu um rammaáætlun um virkjanir langar mig að velta upp tveimur spurningum:
1. Hvaðan á hagvöxturinn að koma í framtíðinni, ef við hlaupum til og nýtum alla hagkvæma og fýsilega virkjunarkosti á næstu segjum 30-40 árum?
2. Þurfum við ekki að virða rétt komandi kynslóða til aðgangs að landinu og nýtingar á gæðum þess?

Nú er ég ekki á móti virkjunum en ég vil að þær uppfylli tilteknar kröfur:
1.  Þær verða að vera hagkvæmar.
2.  Þær verða að skila þjóðinni eðlilegan arð.
3.  Orkuna frá þeim skal nýta til atvinnuuppbyggingar hér á landi.
4.  Þær mega ekki skerða náttúruverndarsvæði.
5.  Þær verður að byggja í sátt við aðra nýtingu á landinu, svo sem til útivistar og ferðaþjónustu

Hér á landi er talið að sé virkjanlegt orka upp á 195.000 Gwst.  Af þeim eru 20-40.000 Gwst. fýsilegir og hagkvæmir virkjanakostir sem uppfylla ofangreind skilyrði.  Ef við nýtum alla þessa kosti á stuttum tíma, 30 - 40 árum, hvaða virkjanir eiga þá komandi kynslóðir að byggja?

Nokkur umræða hefur verið um útflutninga á raforku.  Ég vil benda á að mjög stór hluti vöruútflutnings þjóðarinnar er vegna nýtingar á raforku.  Á þann hátt erum við að flytja út raforku og þetta er sá háttur sem við eigum alla jafna að hafa við útflutninginn. Gerir fólk sér grein fyrir, að ef við förum að flytja út rafmagn sem hrávöru, þá lendum við í sömu sporum og Norðmenn.  Eftir að raforkuframleiðendur fóru að selja rafmagn til ríkja í Vestur-Evrópu, þá hækkaði verðið til almenningsveitna í Noregi mjög mikið.  Kemur þar tvennt til.  Annars vegar selja menn hæstabjóðanda og ef hann er í Frakklandi, þá einfaldlega fer rafmagnið þangað (a.m.k. óbeint).  Hins vegar er samkvæmt reglum ESB óheimilt að mismuna neytendum eftir staðsetningu.  Þannig mætti Landsvirkjun ekki selja á lægra verði til almenningsveitna hér á landi, en til almenningsveitna í öðrum löndum.  Vissulega væri hægt að komast framhjá þessu með einhvers konar uppboðsmarkaði fyrir tiltekinn hluta orkuframleiðslunnar, en reikna mætti með því að slíkur uppboðsmarkaður leiddi hægt og rólega til hærra verðs hér á landi.

Í bili felast bestu "virkjanakostir" okkar í: 1) orkusparnaði, 2) betri nýtingu núverandi virkja með nýjum aflvélum sem meira fæst út úr, 3) framleiðslutækni sem nýtir orkuna betur.  Þetta þarf að eiga sér stað samfara uppbyggingu framleiðslufyrirtækja sem treysta á raforku.  Bara að færa alla lýsingu yfir í sparneytnari perur og nýta raftæki sem ganga fyrir lægri straumi getur jafngilt orkuframleiðslu í Kröflu. Með því að tengja verð á rafmagni við aflnotkun, en ekki bara orkunotkun væri hægt að auka vitund neytenda fyrir þeim kostnaði sem felst í því að vera með afltoppa.  Það sem hefur bjargað þessu hingað til, er að Landsvirkjun hefur getað selt svo kallaða umframorku til stórnotenda utan álagstíma heimilanna og hins almenna atvinnulífs.  Ef hægt er að lækka mestu aflnotkun heimilanna um 10-15% og jafnvel meira, væri hægt að útvega orku til nýrra stórnotenda án þess að reisa nýja virkjun.  Landsvirkjun hefur verið að skipta út gömlum aflvélum og setja upp nýjar sem auka framleiðslugetuna um 20 - 50%.  Ef það væri hægt í öllum eldri virkjunum, þá fæst ígildi Búrfellsvirkjunar og Blönduvirkjunar til viðbótar inn í framleiðslu kerfið.  Gera þarf síðan kröfu til stórnotenda að þeir noti besta framleiðslubúnað sem völ er á.  RioTinto Alcan hefur t.d. verið að auka framleiðslugetu sína á sama afli og áður.  Þetta er einfaldlega gert með betri búnaði.  Með þessu tókst fyrirtækinu að auka framleiðslugetu sína verulega án þess að kaupa meiri orku af Landsvirkjun.

Læt þessar pælingar duga í bili.