Almenningur hafður að ginningarfíflum - Bankarnir lifa en almenningur tapar öllu

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.1.2011.

Betur og betur kemur í ljós, að stórir hópar almennra lántaka og lítilla fjárfesta voru hafðir að ginningarfíflum í undanfara gjaldeyris- og bankahrunsins.  Fólk var ginnt til að leggja peninga í peningamarkaðssjóði, logið var að því um öryggi skuldabréfa, otað var skipulega að fólki gengisbundnum lánum, lögð fram gögn byggð á uppskálduðum upplýsingum um stöðu fjármálafyrirtækja til að fá það til að taka þátt í stofnfjáraukningu sparisjóða og svona mætti halda lengi áfram.  Lygar og skáldskapur þótti eðlilegur hluti í daglegum störfum siðblindra stjórnenda og eigenda bankanna.  Ef einhver starfsmaður Fjármálaeftirlitsins var duglegur við að finna veikleika í málflutningi eða gögnum fjármálafyrirtækjanna, var sá hinn sami umsvifalaust ráðinn til einhvers fjármálafyrirtækis.

Bankarnir féllu en úr rústum þeirra risu nýir bankar sem telja sig ekki bera neina ábyrgð.  Nei, þeir fengu kröfurnar sem byggðar voru á blekkingum og markaðsmisnotkun og telja sig geta innheimt þær að fullu.  Er ekki eitthvað rangt við þetta?  Hafi upphaflega krafan verið byggð á blekkingum, þá hlýtur krafan að vera ógild.

Sparisjóður Keflavíkur gaf út nýtt stofnfé og lánaði stofnfjáreigendum gengisbundin lán.  Stofnfjáraukningin var byggð á eignarhlut sjóðsins í Kistu ehf., en félagið hélt utan um eignarhluta sparisjóðanna í Exista sem síðan var stærsti hluthafinn í Kaupþingi.  Komið hefur í ljós að virði hlutabréfa í Kaupþingi var haldið uppi með grófum hætti og þróaðist í þveröfuga átt miðað við t.d. skuldatryggingaálag bankans.  Exista tók mjög grófa stöðu gegn krónunni haustið 2007 og því hefðu stjórnendur fyrirtækisins mátt vita að virði hlutabréf Kaupþings var stórlega ofmetið.  Þar með var virði Exista stórlega ofmetið sem leiddi til sams konar ofmats á virði Kistu.  Eignarhlutur sparisjóðanna í Kistu nam því ekki milljarða tugum heldur í besta falli milljörðum ef nokkuð nema nokkur hundruð milljóna.  Ef verðmat Kaupþings hefði verið rétt, þá hefði eigið fé t.d. Sparisjóðs Keflavíkur ekki hlaupið á milljörðum heldur í besta falli 100-200 milljónir.  Þar með hefði stofnfjáraukning sjóðsins ekki orðið 1,9 milljarðar heldur nær lagi að vera 190 milljónir.

Stofnfjáreigendur sem lögðu fé í stofnfjáraukningu Sparisjóðs Keflavíkur og Sparisjóðs Svarfdæla, svo dæmi séu tekin, voru blekktir þar sem fyrir þá voru lögð gögn byggð á fölsuðum upplýsingum.  Þó svo að einhverjir þeirra sem matreiddu gögnin hafi ekki vitað hversu víðtækur blekkingarvefurinn var, þá höfðu þeir öll tök á því að kanna gildi upplýsinganna.  Raunar vil ég halda því fram að starfsmenn bæði Saga Capital og Sparisjóðs Keflavíkur hafi mátt vita að þær stofnfjáraukningar, sem þessi fyrirtæki fjármögnuðu, voru byggðar á sandi.

En þetta voru ekki einu gildrurnar sem almenningur var ginntur í.  Á undanförnum vikum hafa verið nefnd dæmi um skuldabréfasjóði, sem almenningi var talið trú um að eingöngu keyptu "örugg" bréf, en síðan kemur í ljós að undir þessi "öruggu" bréf heyrðu skuldabréf fyrirtækja í verulegum fjárhagsvanda.  Hlutabréfamarkaðurinn var náttúrulega algjör brandari, þar sem verðmat þeirra byggði á því fjármagni sem þurfti til að greiða upp skuldir fyrri eigenda, en ekki hvers virði hlutabréfin voru.  Eftir því sem skuldir eigenda hlutabréfanna jukust, þá hækkað verð hlutabréfanna.  Oftast var það síðan lánveitandinn sem fékk allt kaupverð bréfanna í hendur enda snerist fléttan um að fyrri eigandi hlutabréfanna gerði upp skuldir við lánveitandann.  Fyrir þetta liðu aðrir kaupendur hlutabréfa.  Einnig myndaðist falskur hagnaður hjá öðrum hlutabréfaeigendum, svo sem lífeyrissjóðunum.  Stærsta og markvissasta ginningin var að bjóða fólki og fyrirtækjum gengisbundin lán, stilla upp aðstæðum fyrir fjármálafyrirtækin að geta hagnast óheyrilega með því að fella gengið.  Samhliða þessu voru nytsamir sakleysingjar notaðir á lakari hlið gjaldeyrisskiptasamninga.  Lýst er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hvernig stærstu eigendur Kaupþings keyptu mjög mikið af gjaldeyri á markaði frá miðju ári 2007 og fram að áramótum.  Tóku þeir sífellt meira af gjaldeyrinum til sín en viðhéldu þó veltunni á markaðnum.  Á fyrstu mánuðum 2008 þá breyttu þeir um taktík og ryksuguðu upp allan lausan gjaldeyri.  Við það hrundi krónan.

Allt þetta var gert til að færa peninga frá almenningi, fyrirtækjum og fjárfestum sem voru utan hrings innvígðra og innmúraðra til þeirra sem voru innan hringsins.  Bankarnir voru notaðir til að soga til sína allt tiltækt fé og finna því svo farveg með sviksamlegum lánveitingum til þeirra sem voru innan hringsins.  Umfjöllun fjölmiðla á undanförnum vikum, mánuðum og árum sýnir þetta.  Lán veitt til félags A, sem keypti bréf af félagi B, huldufélags í eigu Fons eða FL Group eða annarra innan hringsins.  Bréfin urðu verðlaus (enda voru þau það), lánið afskrifað og peningurinn hvarf inn á leynireikninga einhvers staðar í heiminum, hugsanlega hér á landi.  Með þessum hætti voru fleiri þúsund milljarðar fluttir til með svikum og blekkingum og sannaði þá tilgátu að til að ræna banka er best að eiga hann.

Það grátlega í þessu, er að stjórnvöld hafa á síðustu tveimur árum eða svo ekki séð ástæðu til að taka upp hanskann fyrir þá sem ginntir voru í gildrur gömlu bankanna.  Þegar gömlu bankarnir veittu nýju bönkunum verulegan afslátt af lánasöfnum við flutning til þeirra nýju, þá stigu stjórnvöld ekki fram og kröfðust þess að lántakar fengju sama afslátt af sínum lánum.  Nei, þau hafa stutt nýju bankana í því að innheimta uppblásnar kröfur þrátt fyrir að virði þeirra hjá nýju bönkunum sé ekki nema brot af því sem reynt er að innheimta.  Þegar skuldarar sætta sig ekki við þetta, þá er sett af stað leikrit, þar sem fjármálafyrirtækin fá að ákveða hvað er skammtað í almenning.  Þau eru sögð hafa afskrifað kröfur, en í reynd þá eru stjórnvöld að styðja þau í að innheimta kröfur langt umfram bókfært virði.  Hvernig er hægt að tala um að lán sem er að bókfærðu virði 50 milljónir í nýja bankanum, stóð í 100 milljónum í gamla bankanum, hafi verið afskrifað um 30 milljónir hjá nýja bankanum við það að innheimta það sem 70 m.kr. hjá honum?  Ég fæ ekki betur séð en að lánið hafi hækkað um 20 m.kr. og ekki verið afskrifað um eitt eða neitt.  Þetta er borið á borð fyrir almenning.  Hækkun á láni um 20 m.kr. að bókfærðu virði er sagt vera afskrift.  Svo aftur á móti eru það þeir sem eru innan hringsins.  Fyrirtæki þeirra og félög fá í sumum tilfellum allar skuldir afskrifaðar.  Varla stendur króna eftir eða að búið er til falskt virði á félögin (langt undir raunvirði), lánin afskrifuð að því marki og gömlu eigendurnir fá að halda þeim.  Önnur útfærsla er að hreinsa fyrirtækin af öllum skuldum, selja þau einhverjum leppum (helst í útlöndum) sem skila þeim svo aftur í hendur fyrri eigenda.  Þriðja útfærslan er að láta gömlu eigendurna fá fyrirtækin til baka beint vegna þess að kröfuhafar krefjast þess.  Hvaða kröfuhafar eru svona gjafmildir?  Ætli það séu eigendur fyrirtækjanna sem svo skemmtilega vill til að eru líka kröfuhafar bankanna annað hvort beint eða í gegn um einhverja leppa.

Ég verð að viðurkenna, að ég treysti engum af fyrri eigendum eða stjórnendum gömlu bankanna.  Ég treysti ekki nýju bönkunum til að koma fram af réttsýni og enn síður stjórnvöldum.  Ég veit ekki hvort réttarkerfinu er heldur treystandi, a.m.k. virðist það ekki hingað til hafa þótt það nægilega merkilegt til ákæru að nær öll fjármálafyrirtæki landsins hafi boðið almenningi, fyrirtækjum og félögum upp á ólöglega afurð í mörg ár.  Hvers vegna hefur Fjármálaeftirlitið ekki svipt þessi fyrirtæki starfsleyfi eða þó ekki væri annað en sett ofan í við þau?  Hvers vegna skiptir meira máli fyrir dómstóla, stjórnvöld og Seðlabanka forsendubrestur fjármálafyrirtækja (sem þau bjuggu til með lögbrotum sínum), en forsendubrestur almennings og fyrirtækja og félaga utan hrings hinna innvígðu og innmúruðu?  Eru dómstólar, stjórnvöld og Seðlabankinn kannski innan hringsins?

Hrunadans fjármálakerfisins hefur skilið tugþúsundir fjölskyldna eftir eignalausar.  Annar eins hópur hefur tapað stórum hluta eigna sinna.  Eina sem gagnslaus stjórnvöld segja er:  "Shit happens!"  Þeim er alveg sama þó einstaklingar og fjölskyldur hafi tapað tugum milljóna á svikum, lögbrotum og prettum fjármálafyrirtækja á árunum fyrir hrun.  Þau hafa ekki frumkvæði á að rannsaka lögbrotin sem snúa að almenningi.  Nei, í staðinn er allt gert til að bæta lögbrjótunum skaðann sem þeir urðu fyrir vegna lögbrota sinna.  Vanhæfni stjórnvalda til að hlusta á almenning lýsir sér best í "úrræðunum" sem fjármálafyrirtækin og lífeyrissjóðirnir voru að því virtist neydd til að fallast á í desember, en voru í raun stórsigur fyrir þessa aðila, þar sem þeir fengu að halda öllum eignum almennings.  Það var ekki ein einasta króna gefin eftir sem á annað  borð var innheimtanleg hjá almenningi.  Eina sem gefið var eftir, voru tapaðar kröfur og sokkinn kostnaður.  Vá, en það örlæti.  Ég hef ekki hitt einn einasta mann sem segist hafa fengið eitthvað út úr úrræðum stjórnvalda, fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða.  Og síðan lögin hans Árna Páls.  Lán hjá mér sem stóð í 2,1 m.kr. hækkar við endurútreikning í 2,3 m.kr.  Hvernig dettur nokkrum manni í hug að fasteignalán eigi að falla undir sömu vexti og lánskjör og bílalán?  Nei, enn og aftur er verið að hafa almenning að ginningarfíflum.

Ég hef líkt þessu öllu við að stjórnvöld og fjármálafyrirtækin hafi ákveðið að slátra gullgæsinni.  Það vill nefnilega svo til, að heimilin í landinu eru gullgæsir.  Þau eru uppspretta tekna fyrir atvinnulífið og stjórnvöld.  Með því að gera heimilin meira og minna eignalaus, þá hafa þau enga möguleika til fjárfestinga og nýsköpunar.  Velta fyrirtækja hefur dregist mikið saman í magni, þó vissulega haldist hún uppi í krónum talið.  Heilu geirarnir í verslun eru að þurrkast út.  Að vísu eru 3.632 fjölskyldur í landinu svo ríkar að þær kunna ekki aura sinna tal.  En þær eru ekki nógu margar til að halda uppi tímaritaútgáfu, öllum sjónvarpsstöðvunum eða dagblöðum.  Svört vinna grasserar um allt.  Það er búið að færa þjóðfélagið 30 - 40 ár aftur í tímann hvað það varðar.  Svo má ekki gleyma því að aldrei hafa fleiri verið atvinnulausir jafn lengi á hinum síðari árum, ef bara nokkru sinni.  Stjórnvöld berja sér á brjósti með að atvinnuleysið hafi ekki orðið jafn mikið og menn spáðu, en það er hluti af talnaleikfiminni.  Fjöldi á vinnandi fólks er í samræmi við spár um fækkun á vinnumarkaði.  Ástæðan fyrir því að atvinnuleysið mælist ekki meira er að um 8.000 manns á vinnualdir eru fluttir út landi og 4.000 til viðbótar búa hér á landi en eru ekki í atvinnuleit.  Alvarlegast er að á hverjum degi flytja 5 manns úr landi umfram aðflutta.  Þetta eru allt gullgæsir sem leiddar eru til slátrunar.  Gæsir sem hafa verið reittar öllum sínum fjöðrum og munu ekki gefa meira af sér.  Því miður skilja stjórnvöld þetta ekki.  Vangeta þeirra til að hjálpa almenningi er æpandi.