Dómsorð að friðhelgiákvæði sé leyfilegar skorður á tjáningafrelsi

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.2.2011.

Greinilegt er að dómur héraðsdóms í gær var mikið áfall fyrir suma fjölmiðlamenn.  Dómarinn vogaði sér að setja fjölmiðlum þau skilyrði að þeir virði stjórnarskrárvarinn rétt einstaklinga til friðhelgi einkalífs.  Fjölmiðlum er ekki sett í sjálfsvald að ákveða hvað telst leyfilegt heldur sé það ákveðið í lögum, í þessu tilfelli sjálfri stjórnarskrá lýðveldisins.

Umfjöllun DV um fjármál Eiðs Smára og skuldastöðu mína eru hvorutveggja dæmi um hvernig blaðið ákvað að tjáningarfrelsisákvæðið væri friðhelgisákvæðinu ofar.  Nú segir sérstaklega í tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar að hverjum manni sé frjálst að setja skoðanir sínar fram, en "ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi" (sjá 73. gr. laga 33/1994) og á þetta reyndi fyrir héraðsdómi.  Að viðkomandi verði að geta ábyrgst skoðanir sínar fyrir dómi, segir að tjáningarfrelsinu megi setja skorður sem getið er í lögum.  Annars væri ekki vísu í dómstóla.  Það er jú hlutverk dómstóla að kveða úr um hvort lög hafi verið brotin.  Fjölmiðlum er ekki bannað að fjalla um málefni, en telji einstaklingur að á rétti sínum hafi verið brotið, þá ábyrgist viðkomandi fjölmiðill umfjöllun sína fyrir dómi.

Í 73. gr. stjórnarskrárinnar segir einnig:

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Hér segir að takmarka megi tjáningarfrelsið á almennan hátt, þ.e. lögum sem gilda fyrir alla á sama hátt.  Friðhelgisákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar er dæmi slíka um allsherjarreglu og þar sem friðhelgi einkalífs telst til mannréttinda, þá telst hún jafnframt nauðsynleg og samrýmast lýðræðishefðum.  Hún byrjar á einföldum orðum:

Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

Þetta er dæmigerð allsherjarregla, þ.e. "allir" ekki "sumir" skulu njóta réttindanna.  Friðhelgisákvæðið uppfyllir því það að vera allsherjarregla og samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar má setja tjáningarfrelsinu skorður með friðhelgisákvæðinu.

Líkt og með ákvæðið um tjáningarfrelsið, þá eru settar takmarkanir á friðhelgina: 

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

Það má sem sagt takmarka friðhelgi einkalífs að settum tveimur skilyrðum.  Annað er að það sé gert "með sérstakri lagaheimild" og hitt er að "nauðsyn ber til vegna réttinda annarra".  Nú fer ekkert á milli mála að umfjöllun um upphæð fjárskuldbinding Eiðs Smára, svo dæmi sé tekið, snerti ekki "réttindi annarra".  (Ég tel málið fyrst og fremst snúast um upphæðir en ekki viðskiptin sem Eiður Smári tók þátt í.)

Samkvæmt ákvæðum 71. og 73. gr. stjórnarskrárinnar, þá má annars vegar takmarka rétt manna til friðhelgi einkalífs og setja tjáningarfrelsi manna skorður.  Í fyrra tilfellinu þarf sérstaka lagaheimild, en í síðara tilfellinu skal það eingöngu gert með allsherjarreglu.  Málið er að þessi sérstaka lagaheimild sem gefur fjölmiðlum leyfi til að brjóta á friðhelgi einkalífs er ekki til.  Á hinn bóginn, þá hafa verið festar í lög fleiri en ein allsherjarregla um skorður á tjáningarfrelsi.  Ein þeirra er 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Nú veit ég ekkert hvort Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms.  Niðurstaða héraðsdóms er þó alveg ótvíræð.  Fjölmiðlar verða eins og aðrir landsmenn að virða lög landsins um friðhelgi einkalífs og  tjáningarfrelsi þeirra takmarkast við allsherjarreglur í lögum.