Er þetta nú alveg rétt, Árni Páll?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 27.4.2011.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, fór með heillanga tölu í fréttum Stöðvar 2 í gær og hún er endurtekin í frétt mbl.is, sem þessi færsla er hengd við.  Mig langar að fara yfir atriði sem nefnd eru í fréttinni og skoða þau út frá minni þekkingu á málinu:

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að löggjöf og aðgerðir stjórnvalda vegna ólögmætra gengislána hafi byggst á þeim vaxtaútreikningum sem hefðu komið fram í dómum Hæstaréttar á sínum tíma. 

Staðreynd málsins er að Hæstiréttur hefur aldrei tilgreint nákvæmlega í úrskurðum sínum eða dómum hvernig útreikningar eiga að fara fram.  Alltaf er byggt á því að aðilar máls hafi komið sér saman um útreikninga.  Kaldhæðnin við það er að þeir útreikningar hafa verið mismunandi frá einu máli til annars. Þannig eru vextir reiknaðir út á annan veg í máli 471/2010 en málum sem síðar hefur verið dæmt í.  Hafa skal í huga varðandi það mál, að það var uppgjörsmál þar sem deilt var um lokauppgjör.  Í því reyndi því ekki á áframhaldandi greiðslur.  Annað atriði, sem dregur verulega úr gildi þess, er að Lýsing handvaldi málið.  Búið var að taka það úr dómi, þegar Lýsing ákvað að stefna því aftur.  Lýsing valdi því lögfræðinginn til að flytja það, héraðsdómarann til að dæma það og málsástæðurnar.  Þrátt fyrir að lögmanninum, sem undirbjó málið fyrir Hæstarétti, hafi verið lagðar til fjölbreyttar upplýsingar og boðin alls konar aðstoð, þá nýtti hann sér ekkert af því (að ég best veit).  Daginn fyrir málflutning í Hæstarétti bað hann um fund, þar sem hann lagði fram fjölmörg skjöl með útreikningum.  Skjöl sem búið var að leggja fram í réttinum og eingöngu var hægt að gera munnlegar athugasemdir við í málflutningi.  Hann lagði ekki fram neina útreikninga sjálfur, fyrir utan að annar lögmaður flutti málið fyrir Hæstarétti og sá virtist enga þekkingu hafa á því.  Ekki er því hægt að segja með sönnu að hafðar hafi verið uppi varnir í málinu. 

Árni Páll lítur svo á að kvörtunin til ESA beinist fyrst og fremst að því sem fram hafi komið í dómum Hæstaréttar þegar hann dæmdi gengislánin ólögmæt. Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sett fram með skýrum hætti.  Lagasetning Alþingis í kjölfar hæstaréttardómanna hafi beinlínis byggt á því fordæmi sem Hæstiréttur hefði þar með sett um endurútreikning ólögmætra gengislána.

Þar sem túlkun Hæstaréttar á vaxtaútreikningi hefur aldrei komið fram með skýrum hætti, er ómögulegt að segja hver hún er.  Kvörtunin beinist að lögum nr. 151/2010, hún beinist að því að dómstólar hunsi neytendavernd (á því eru undantekningar sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur X-77/2011), að hvorki dómstólar né Alþingi hafi nýtt sér að leita álits ESA og EFTA-dómstólsins og hún beinist að afturvirkum áhrifum vaxtabreytinga.

Bara til að hafa það á hreinu, þá segir Hæstiréttur hvergi í úrskurði sínum í máli 471/2010 að reikna skuli vextina upp frá útgáfudegi láns.  Dómurinn segir heldur ekki að taka skuli upp greidda gjalddaga pg endurreikna þá.  Hann segir að lánin skuli taka vexti Seðlabanka Íslands, en sleppir því alveg að segja frá hvaða degi.  Í slíkum tilfellum hefur ákvörðunin alltaf gilt frá úrskurðardegi.  Rétt er að benda á, að nokkrir umsagnaraðilar um frumvarp að lögum nr. 151/2010 bentu á að afturvirkni vaxta gæti verið brot á eignarrétti lántaka samkvæmt stjórnarskrá.  Einn þessara aðila var lögfræðistofa sem gætir hagsmuna kröfuhafa!

Afleiðing þeirrar lagasetningar var að um 50 milljarðar voru fluttir frá fjármálafyrirtækjum til heimila í landinu

Þetta er svo mikið kjaftæði að ráðherra sem heldur þessu fram á ekkert erindi í ráðherrastól.  Staðreyndir sem ráðherrann lítur framhjá eru dómar Hæstaréttar frá 16. júní 2010.  Frá þeim tíma var óheimilt að reikna höfuðstól lánanna miðað við gengisbreytingar, samanber dóma Hæstaréttar 30/2011 og 31/2011.  Að fjármálafyrirtæki hafi hunsað niðurstöðu Hæstaréttar gerir það ekki að verkum að krafa þeirra lækki við lögin.  Hún lækkaði í júní.  Síðan má deila um hvort lögin hafi flutt 30 ma.kr. frá heimilunum til fjármálafyrirtækjanna eða staðfest lækkun sem Árni Páll les út úr dómum Hæstaréttar frá 16. september.  Vissulega fela lögin í sér einhverja bót fyrir lántaka, en hún felst í meðferð vanskila og dráttarvaxta annars vegar og hins vegar er ekki spurt um það hvaða lánsform lánssamningur fór á, hafi það innihaldið tilvísun í erlenda mynt, þá féll samningurinn undir lögin.

Ég hef fullan skilning á því að Árni Páll sé að bjarga eigin skinni eða reyna slá sig til riddara, en hvet hann til þess að hætta að ljúga að fólki.  Hann er ekki einu sinni að hagræða sannleikanum, heldur hreint og beint að segja ósatt.  Slík kann sjaldan góðri lukku að stýra.