Hvernig sem fer tapar þjóðin

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.4.2011.

Eftir mikla yfirlegu um Icesave samninginn, hvað Já þýðir og hvað Nei þýðir, þá er það mín niðurstaða að hvernig sem fer, þá mun þjóðin tapa.

Ég hef nokkrum sinnum reynt að kryfja inn að beini þau álitamál sem helst virðast vera uppi varðandi Icesave.  Hér ætla ég að nefna nokkur þeirra.

1.  Er ríkissjóði skylt að gangast í ábyrgðir fyrir Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta?

Þessu er svarað á skilmerkilegan hátt í tilskipun ESB 94/19/EC, þar sem segir í  næst síðustu málsgrein inngangskafla tilskipunarinnar:

Whereas this Directive may not result in the Member States' or their competent authorities' being made liable in respect of depositors if they have ensured that one or more schemes guaranteeing deposits or credit institutions themselves and ensuring the compensation or protection of depositors under the conditions prescribed in this Directive have been introduced and officially recognized;

og þýtt er í íslensku útgáfu tilskipunarinnar:

Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.

Vart er hægt að orða þetta skýrar.  Sé fyrir hendi kerfi til að ábyrgjast innlán, þá verða stjórnvöld ekki gerð ábyrg.

2.  Er fyrir hendi kerfi sem ábyrgist innlán? (Gagnrýni ESA gengur m.a. út á þetta)

Þessu svaraði ég í færslu hér í gær. Niðurstaða mín er að lög nr. 98/1999 uppfylli í öllum meginatriðum ákvæði tilskipunar 94/19/EC.  ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) gerir með jöfnu millibili athugun á frammistöðu stjórnvalda í Noregi, Liechtenstein og á Íslandi varðandi innleiðingu tilskipana sem falla undir EES samninginn.  Í frétt ESA frá 23.9.2002 kemur fram að stofnunin geri athugasemd við innleiðingu Íslands og Liechtenstein á nokkrum tilskipunum.  Ein af þeim tilskipunum sem Liechtenstein er ekki talið hafa innleitt er 94/19/EC, en ekki er minnst á hana gagnvart Íslandi.  Þetta er mjög mikilvægt atriði, þar sem viku áður (16.9.2002) hafði stofnunin líka kvartað við norsk stjórnvöld um að þau hafi ekki innleitt tilskipun 94/19/EC.  Ég get ekki annað en dregið þá ályktun að það hafi verið skoðun ESA, að Ísland hafi innleitt tilskipun 94/19/EC á fullnægjandi hátt á þessum tímapunkti og því hafi stofnunin ekki sent sams konar athugasemd til íslenskra stjórnvalda og stjórnvöld hinna landanna fengu. 

3. Er fyrir hendi greiðsluskylda Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta?

Á þessu er enginn vafi.  ESA hefur lýst því yfir í Letter of formal notice frá 26.5.2010 að Tryggingasjóðurinn beri ábyrgð á því að greiða breska innstæðutryggingasjóðnum um 2,1 milljarð punda og þeim hollenska 1,35 milljarð evra.  Um þetta er ekki deilt.  Icesave samningaviðræðurnar hafa snúist um það hvernig þessi upphæð skuli greidd til baka.  Samkvæmt tilskipun 94/19/EC og lögum nr. 98/1999 þá hvílir greiðsluskylda á Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta.  Málið er að hann er fjárvana.  Bresk og hollensk stjórnvöld ákváðu hins vegar að taka yfir kröfur innstæðueigenda á hendur íslenska sjóðnum og því eru innstæðueigendur í flestum tilfellum í góðum málum.  Samkvæmt upplýsingum á vef breska innstæðutryggingasjóðsins, þá var Landsbanki Íslands með viðbótartryggingar hjá sjóðnum upp að 35.000 pundum á hver reikning.  Líklegast hefur bankinn verið með sams konar tryggingar í Hollandi, þ.e. upp að 50.000 evrum á hvern reikning.  Stjórnvöld í þessum löndum ákváðu síðan einhliða að hækka þessar tölur við útborgun í 50.000 GBP og 100.000 EUR.  Upphæðir umfram 16.200 GBP og 20.887 EUR eru þó íslenska tryggingasjóðnum óviðkomandi.

4.  Var innstæðueigendum mismunað eftir þjóðerni?

Ekkert bendir til þess að innstæðueigendum hafi verið mismunað eftir þjóðerni.  Allar innstæður voru gerðar að forgangskröfum í bú Landsbanka Íslands óháð þjóðerni.

5.  Var innstæðueigendum mismunað eftir búsetu?

Á þessu leikur enginn vafi.  Það var gert.  Vissulega voru allar innstæður gerðar að forgangskröfum, en síðan skilja leiðir.  Eins og fram kemur í bréfi ESA til íslenskra stjórnvalda og ég hef margoft bent á, þá var innstæðueigendum mismunað á þann hátt að innstæðueigendur á Íslandi hafa haft aðgang að sínum fjármunum óslitið.  Icesave innstæðueigendur í Bretalandi og Hollandi þurftu að bíða í nokkra daga eftir að fá að hámarki 50.000 GBP eða 100.000 EUR eftir því í hvoru landinu þeir lögðu inn.  Umfram þetta hámark hefur ekkert verið greitt út.  Þá hafa fjölmargir aðrir Icesave innstæðueigendur ekki fengið neitt, þar sem þeir falla hvorki undir hollensku trygginguna né þá bresku.  Það fer því ekkert á milli mála að innstæðueigendum var mismunað eftir búsetu.

6.  Hvar liggur greiðsluskyldan?

Þetta er bæði flókið og einfalt.  Í einfaldleika sínum liggur greiðsluskyldan hjá þrotabúi Landsbanka Íslands.  Þangað þurfa a) Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta; b) breski tryggingasjóðurinn; c) hollenski tryggingasjóðurinn; d) aðrir tryggingasjóðir sem greitt hafa út vegna Icesave; e) innstæðueigendur sem engrar tryggingar njóta; og f) innstæðueigendur sem áttu meira en tryggingarvernd var fyrir að leita eftir greiðslu á kröfum sínum. Hver um sig af þessum aðilum hefur líklegast gert kröfu í þrotabú Landsbankans.  Þeir verða núna að bíða eftir því að byrjað verði að greiða út úr búinu. 

7.  Í hvaða röð á Landsbankinn að greiða forgangskröfuhöfum?

Um þetta hefur í mínum huga stirrinn staðið varðandi Icesave-samningana.  Mér hefur alltaf fundist eðlilegt, að hver innstæðureikningur sé meðhöndlaður sem sérstök krafa.  Síðan greiðist jafn mikið inn á hverja kröfu þar til annað tveggja gerist, að allar kröfur eru uppgreiddar eða að sjóðþurrð er orðin.  Þetta þýðir í reynd að fyrst er greitt inn á ábyrgðir Tryggingasjóðs innstæðueigenda. Hann sér síðan um að greiða öðrum tryggingasjóðum það sem þeir hafa greitt til innstæðueigenda fyrir hans hönd og til þeirra innstæðueigenda sem ekki hafa einu sinni fengið lágmarks vernd greidda út.  Næst er greitt inn á það sem eftir stendur af kröfum annarra tryggingasjóða upp að lægstu upphæð sem sjóðirnir hafa tryggt og til ótryggðra innstæðueigenda upp að sama marki.  Síðan er þetta endurtekið þar til allir tryggingasjóðir hafa fengið sitt greitt og ótryggðar innstæður fylgja með.  Síðast eru þær innstæður greiddar út sem eftir standa.

8.  Hvað gerist ef það verður sjóðþurrð?

Eigi Landsbanki Íslands ekki fyrir forgangskröfum, þá vandast málið.  Hér kemur að klúðri FME við stofnun NBI hf.  Þar á bæ hugsuðu menn dæmið greinilega ekki til enda eða voru mjög bjartsýnir varðandi endurheimtur á eignum Landsbankans.  Þetta atriði gæti leitt til ábyrgðar ríkissjóðs á fullri greiðslu Icesave-innstæðna.  FME er nefnilega á ábyrgð ríkisins og mistök FME geta valdið ríkinu skaðabótaskyldu.  Málið er að þetta kemur Icesave-samningnum ekkert við.  Sjóðþurrð getur orðið hvort heldur Icesave-lögin verða samþykkt eða ekki.  Vanti 100 milljarða upp á eignir Landsbankans dugi fyrir öllum innstæðum, þá verða þeir 100 milljarðar að koma úr ríkissjóði.  Svo einfalt er það.  Almenningur mun því þurfa að blæða fyrir mistök FME.  Almenningur mun þurfa að blæða fyrir að innstæður voru greiddar út upp í topp hér innanlands.  Nú verði ekki sjóðþurrð, þá er ríkið samt ekki sloppið.

9.  Eiga erlendir innstæðueigendur kröfu á ríkið?

Já, mér sýnist það.  Þar er ég sammála ESA sem segir að innstæðueigendum hafi verið mismunað, þegar innlendir höfðu órofinn aðgang að öllum innstæðum sínum meðan Icesave-innstæðueigendur hafa sumir ekki ennþá aðgang að sínum peningum.  Þetta atriði snýr að Icesave-samningnum, en líka að aðilum sem eru ekki aðilar að samningnum og kröfum sem eru umfram tryggingar erlendu tryggingasjóðanna.  Ég fæ ekki betur séð en allir þessir aðilar eigi réttmæta kröfu um vexti og geti þrotabú Landsbankans ekki greitt þá vexti endar krafan án efa hjá ríkissjóði.

10.  Hvað þýðir þetta allt gagnvart Icesave-samningnum og lögunum?

Í mínum huga fer ekkert á milli mála að Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta ætti að greiða vexti vegna tafa á útgreiðslu frá sjóðnum.   Á ríkissjóður að ábyrgast þá greiðslu?  Nei, afdráttarlaust ekki.  Eina ástæðan fyrir því að ríkissjóður ætti að ábyrgjast Tryggingasjóðinn væri, ef endurheimtur á eignum Landsbankans dygðu ekki fyrir kröfunum sem sjóðurinn þarf að standa undir.  Slík ábyrgð kæmi auk þess í gegn um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum sem eiga aðild að Tryggingasjóðnum, þar sem það eru aðildarfyrirtækin sem eiga að borga dugi tekjur sjóðsins ekki til, skv. lögum 98/1999.  Ríkisábyrgð í samningnum er því út í hött.  Verði endurgreiðslur úr þrotabúi Landsbankans í þeirri röð sem ég tilgreini í lið 7, þá verður þetta ekkert vandamál.  Það sem Hollendingar greiddu frá 20.887 EUR til 50.000 EUR er og verður aldrei vandamál Íslendingar og sama á við um greiðslu Breta á bilinu 16.200 til 35.000 GBP.  Landsbankinn var tryggður í þessum löndum af viðkomandi tryggingasjóðum.  Það sem er umfram þessar upphæðir gæti lent á ríkissjóði, en kemur samningnum ekkert við.

11.  Er öruggt að ógreiddar innstæður vegna sjóðþurrðar lendi á ríkinu?

Um þetta atriði er mesta óvissan og bréf ESA fjallar í megindráttum um það.  Grundvallarregla í EES samningnum er bann við mismunun eftir búsetu og þjóðerni.  Í þessu tilfelli væri það búsetuákvæðið sem ætti við.  Hér á landi fengu allir allt sitt, en sjóðþurrð gæti leitt til þess að einhverjir tapa hluta innstæðna sinna.  ESA mun örugglega krefjast þess að ríkissjóður bæti upp mismuninn og stjórnvöld munu bera fyrir sig neyðarrétti, þ.e. að höggið á hagkerfið hefði orðið of mikið, ef milljarða tugir eða hundruð hefðu tapast og ekki fengist bætt.  Höfum í huga að þetta atriði kemur Icesave-samningnum ekkert við.

12.  Hverju breyta dómsmál, ef lögunum verður hafnað?

Um hvað ætti slíkt dómsmál að snúast?  A)  Þarf Tryggingasjóðurinn að greiða lágmarkstrygginguna.  B) Vextina sem Tryggingasjóðurinn þarf að greiða Bretum og Hollendingum.  C)  Þarf ríkið að greiða það sem er umfram lágmarkstrygginguna.  D) Bætur til innstæðueigenda sem þurftu að bíða eftir aurunum sínum.  E) Það sem út af stendur dugi eignir Landsbankans ekki fyrir öllum innstæðum.

A.  Ég hef aldrei skilið þetta atriði.  Enginn þeirra hópa sem tekið hafa mestan þátt í umræðunni hefur eitt augnablik efast um skyldu Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta að standa við lágmarksverndina.  Ég sé í fréttaskýringu RÚV að talað er um að ríkið verið dæmt til að greiða 660 milljarða kr.  Þetta getur aldrei staðist.  Ábyrgðin er Tryggingasjóðsins og hann endurkrefur Landsbankans.  Þessi upphæð er alveg sú sama, hvort heldur Icesave-lögin eru samþykkt eða ekki.  Það er ekki eins og 660 milljarðar bætist við reikninginn.  Reikningurinn verður nákvæmlega sá sami að teknu tilliti til gengisbreytinga.

B.  Mál vegna vaxta til Breta og Hollendinga tapast alveg örugglega, en einnig má bara semja um það beint að Tryggingasjóðurinn greiði umsamda vexti.  Bara án ríkisábyrgðar og aðkomu ríkissjóðs.

C.  Í fréttskýringu RÚV eru menn að velta fyrir sér hvort ríkissjóður þurfi að greiða allt sem Bretar og Hollendingar greiddu út.  Í fyrsta lagi, þá greiðir íslenski tryggingasjóðurinn (með peningum frá Landsbankanum) lágmarkstrygginguna.  Í öðru lagi, þá var Landsbankinn aðili að breska tryggingasjóðnum og líklegast þeim hollenska líka.  Það er því útilokað að íslenska ríkið greiði það sem Landsbankinn var tryggður fyrir í þessum löndum.  Til hvers var þá tryggingin?  Í þriðja lagi, þá tóku Bretar og Hollendingar upp á því hjá sjálfum sér að greiða meira út en tryggingaverndin sagði til um.  Með neyðarlögunum voru innstæður gerðar að forgangskröfum.  Þar með var innstæðueigendum gert hærra undir höfði en ella.  Ef innstæður hefðu verið almennar kröfur, þá hefðu innlendir og erlendir innstæðueigendur tapað mörg hundruð milljörðum, ef ekki hátt í eitt þúsund milljörðum hjá Landsbankanum einum.  Aðgerðir stjórnvalda bættu því stöðu Icesave-innstæðueigenda og eru ástæðan fyrir því að Bretar og Hollendingar greiddu jafn skjótt út til innstæðueigenda og hækkuðu upphæðina umfram það sem verndin hljóðaði upp á.  Ég efast stórlega að það falli dómur, sem segir að ríkissjóður þurfi að greiða ígildi forgangskröfu Breta og Hollendinga í þrotabú Landsbankans sem þessir aðilar ákváðu sjálfir að taka yfir.

D. Tilskipun 94/19/EC tekur á þessu og búast má við að ríkið þurfi að punga út einhverjum peningum.  Þetta kemur Icesave-samningnum bara ekkert við og krafan verður til staðar hvað sem samningnum líður.

E.  Hér er mesta óvissan, en dómsmál vegna þessa verður höfðað sama hvort niðurstaðan er Já eða Nei.

Niðurstaðan

Min niðurstaða úr öllu þessu, er að hvernig sem kosningin fer verða fjölmörg mál óleyst.  Önnur mál sem leysast með því að samþykkja lögin, munu líklegast kosta svipað hvort heldur lögin verða samþykkt eða þeim hafnað.  Eina óvissuatriðið í mínum huga eru vextirnir, en með því að halda kröfuröðinni, eins og ég lýsi í lið 7 að ofan, þá muni það skila sér til baka.

Lee Buchheit kom í Silfur-Egils um daginn.  Því miður sagði hann nánast ekkert sem hönd var á festandi.  Jú, það var eitt.  Hann talaði um að þetta væri áhættugreining.  Þannig er það nú.  Íslendingar eiga að setjast niður og greina áhættuna af hvorri leið fyrir sig.  Út frá þessari greiningu eiga þeir síðan að velja.  Svo vill til að áhættugreining er hluti af minni sérmenntun.  Þegar allt kemur til alls, þá sé ég áhættu í aðeins einum viðbótarþætti verði lögin felld umfram þá sem eru til staðar verði lögin samþykkt.  Vextirnir sem þarf að greiða Bretum og Hollendingum.  Hækki þeir um 2% á ári, þá gerir það 13,2 ma.kr. miðað við 660 ma.kr. skuld.  Á móti kemur að verði kröfuröðin eins og ég lýsi henni í lið 7, þá greiðist þessi upphæð til baka fyrir árslok 2012, jafnvel fyrr. Og það sem meira er, Tryggingasjóðurinn á að greiða þessa vexti.  Þeir verða því að forgangskröfu í bú Landsbankans og fást greiddir með öðrum forgangskröfum.

Mitt áhættumat á þessum lögum er að segja NEI!

Tekið skal fram að mjög miklar umræður sköpuðust um þessa færslu á Moggablogginu og er vel þess virði fyrir áhugasama að lesa þær: https://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/1156729/