Kröfuhafar fá afsláttinn til baka í gegn um hagnað nýju bankanna - Bankarnir fjármagna sig á lágum innlánsvöxtum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.3.2011.

Í fyrravor varaði ég við því, að kröfuhafar gömlu bankanna myndu fá hluta af afslættinum, sem þeir veittu nýju bönkunum á innlendum lánasöfnum, til baka í gegn um hagnað nýju bankanna.  Hafði ég upplýsingar um að gerðir hefðu verið samningar við kröfuhafana, að þeir fengju hlutdeild í hagnaði umfram það sem færi í arðgreiðslur.  Vissulega mun þetta ekki gerast fyrstu árin (að því sagt er), en mér finnst liggja í augum uppi, að eflist eigið fé nýju bankanna, þá verði þeir á einhverjum tímapunkti látnir greiða eigendum sínum út hlutdeild í því.

Fyrsta frétt Stöðvar 2 í kvöld gekk nákvæmlega út á þetta.  Þar var fjallað um afkomutölur Íslandsbanka og bent á að 14,5 ma.kr. af 29 ma.kr. væri tilkominn vegna uppreiknings á lánasöfnum.  Síðan var verulegur hluti tilkominn vegna vaxtamunar, sem er ekki síður mikilvægt atriði.  Þetta varðandi lánasöfnin er það sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa haldið fram frá því stuttu eftir stofnun samtakanna.  Hitt varðandi vaxtamuninn er atriði sem ég hef nokkrum sinnum bent á. 

Varnarræða fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir hönd fjármálafyrirtækjanna var að ekki væri hægt að miða við samningsvexti, þar sem fjármögnunarkostnaður þeirra væri svo hár.  Þessu hef ég alltaf mótmælt og bent á að bankarnir fjármagni sig að miklu leiti með ódýru, óverðtryggðu lánsfé í formi veltiinnlána og óbundinna innlána.  Vextir þessara innlána eru mjög lágir og því fá bankarnir góðan vaxtamun, þó svo að ekki séu reiknaðir aftur í tímann allt að 21% vextir ofan á útlán sem áður báru 4-5% vexti.  Fjármögnun bankanna snýst nefnilega ekki um fortíðina heldur framtíðina.

Nú kemur í ljós, að Íslandsbanki hefur náð inn góðum vaxtamun á síðasta ári.  Er það þrátt fyrir að bankinn hafi ekki verið byrjaður að innheimta afturvirkt hina himinháum vexti Seðlabanka Íslands.  Hvað segir það um þörf bankans til að sækja seðlabankavextina aftur í tímann?  Hún er nákvæmlega engin.  Bankinn þarf jú ekki að borga núna fyrir fjármögnun árið 2007, 2008 og 2009.  Nei, það er liðin tíð og kemur ekki inn í uppgjör bankans.  Fjármögnun árið 2007 og 2008 var vandamál Glitnis og fjármögnun 2009 var í gegn um innlán og miðað við afkomutölur vegna 2009 var bankinn ekki í neinum vandræðum með vaxtamuninn þá.

Ég hef oft sagt, að kannski væri sanngjarnasta niðurstaðan að lántakar fyrrum gengistryggðra lána bjóði eigendum lána sinna einfaldlega fast vaxtaálag ofan á vexti óverðtryggðra innlána.  Bara til að hafa þetta í samhengi, þá voru bundin innlán bankakerfisins 528 ma.kr. 31. janúar sl., almennt sparifé var 434 ma.kr. og veltiinnlán 452 ma.kr.  Síðan var eigið fé og hlutdeild minnihluta 451 ma.kr. Af innlánunum voru aðeins 213 ma.kr. í verðtryggðum innlánum, 80 ma.kr. í viðbótarlífeyrissparnaði og 137 ma.kr. í peningamarkaðsreikningum, alls 480 ma.kr. af 1.413 ma.kr. innlánum.  Það þýðir að ríflega 910 ma.kr. innlán voru á reikningum með tiltölulega lágum vöxtum, þó svo að eitthvað af því hafi verið á bundnum reikningum.  Samkvæmt þessu eru bankarnir að fjármagna sig á lágum vöxtum og þurfa því ekki háa útlánsvexti til að ná í góðan vaxtamun.

Ok, en útlán bankanna til innlendra aðila stóðu í 2.088 ma.kr. sem er umtalsvert hærra en 910 ma.kr.  Gott og vel, en þetta snýst ekki um öll útlán bankanna, heldur eingöngu þau sem áður voru gengistryggð.  Samkvæmt hagtölu Seðlabankans (sem aðrar tölulegar upplýsingar eru líkar teknar upp úr), þá stóðu gengistryggð útlán bankanna í 843 ma.kr. 31. janúar sl., óverðtryggð skuldabréf voru 340 ma.kr. og yfirdráttarlán 150 ma.kr.  Stór hluti óverðtryggðra skuldabréfa bera yfir 6% raunvexti og yfirdráttarlán yfir 8% raunvexti.  Þessir tveir flokkar eru því ekki að valda bönkunum vanda með ónógum vaxtamuni, þó svo að verðtryggð og/eða bundin innlán væru notuð til að fjármagna þau.  Eftir standa því fyrrum gengistryggð útlán upp á 843 ma.kr.  Á móti þeim eru 910 ma.kr. í lágvaxta, óverðtryggðum innlánum sem tryggja bönkunum góðan vaxtamun þó svo að samningsvextir lánanna væru látnir halda sér.