Nú er ég hlessa - Viðmið sem sýna raunveruleikann

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.2.2011.

Ég vil byrja á því að fagna útkomu skýrslu starfshóps velferðarráðuneytisins um neysluviðmið.  Lagt hefur verið í talsverða vinnu við að ákvarða fjölmörg viðmið og skilgreina hver þeirra eru breytileg, þ.e. hægt að vera án í stuttan tíma, og hver þeirra eru nánast óbreytileg.  Auðvitað má deila um margt í skýrslu hópsins, en mér finnst ekki vera tími til þess núna.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa verið mjög gagnrýnin á þau neysluviðmið sem stuðst hefur verið við í  mati á skuldavanda heimilanna.  Ítrekað hefur verið bent á að viðmið ráðgjafastofu um fjármál heimilanna væru allt of knöpp og þar með allar viðmiðanir bankanna við úrvinnslu mála.  Finnst mér sem HH hafi fengið viðurkenningu á sínum málflutningi með skýrslu starfshópsins.

Eitt helsta ágreiningsefnið í vinnu hins svo nefnda sérfræðingahóps forsætisráðuneytisins um skuldavanda heimilanna, sem ég sat í, var hvaða neysluviðmið ætti að styðjast við, þegar verið væri að meta stöðu heimilanna.  Ég var nokkuð sér á báti og hvatti til þess að viðmið úr neyslukönnun Hagstofu Íslands væru notuð meðan fulltrúar stjórnvalda (og fjármálafyrirtækjanna) vildu halda í örlítið upppoppað naumhyggjuframfærsluviðmið embættis umboðsmanns skuldara.  (Hafa skal í huga að umboðsmaður skuldara hafði lýst þvi yfir í fyrra starfi sínu sem forstöðumaður ráðgjafastofu um fjármála heimilanna, að þau viðmið væru gagnslaus.)  Staða heimilanna fór nefnilega frá því að vera alvarleg yfir í að vera grafalvarleg, ef gögn Hagstofunnar voru notuð.  Nú eru komnir nýir útreikningar og þó þeir séu ekkert heilagri en aðrir, þá benda þeir til þess að ef eitthvað var, þá var ég of bjartsýnn á getu fólks til að lifa á litlum pening.

Fyrir þá sem vilja kynna sér neysluviðmið umboðsmanns skuldara þá er þau að finna hér.   Fyrir einstakling eru þau kr. 58.100.  Þessi tala var margfölduð með 1,5 og síðan bætt við bíl ef það átti við.  Það gaf okkur neyslu upp á kr. 129.150 kr. án húsnæðiskostnaðar.  Sambærileg tala hjá velferðarráðuneytinu er kr. 218.960 mismunur upp á kr. 89.810 eða tæp 70%.  Vissulega gefur velferðarráðuneytið upp skammtímaviðmið sem fólk á að geta lifað við í nokkra mánuði (miðað við allt að 9 mánuði).  Er það mjög svipað grunnviðmiði "sérfræðingahópsins" og munar eingöngu um 4.000 kr.  Einhver myndi segja að grunnviðmið "sérfræðingahópsins" hafi þá bara verið nokkuð nærri lagi fyrst munurinn er ekki meiri.  Svo er ekki.  Ástæðan er að útreikningar "sérfræðingahópsins" áttu ekki að miða við naumhyggjuframfærslu í skamman tíma heldur framfærslu sem hægt væri að halda við í 3 ár.  Á þessu er mikill munur.

En svona til gamans þá koma hér nokkrar tölur fyrir annars vegar einstakling og hins vegar hjón með tvö börn:

Einstaklingur:

Hagstofan - meðalneysla kr. 256.068 (verðlag 2008)

Hagstofan - lægsti tekjuhópur kr. 203.346 (verðlag 2008)

Dæmigert viðmið kr. 291.932

Skammtíma viðmið (með húsnæði og bíl) kr. 201.132

Grunnviðmið (án húsnæðis og bíls) kr.  86.530

Grunnviðmið með húsnæði frá skammtíma viðmið kr. 154.431

Grunnviðmið með húsnæði + bíll frá skammt.viðmiði kr. 214.027

Neysluviðmið umboðsmanns skuldara (án húsnæðis og bíls) kr. 58.100

Neysluviðmið umb.s. með húsnæði frá skammtíma viðmiði kr. 126.001

Neysluviðmið umb.s. með húsnæði og bíl kr. 177.001

Hjón með tvö börn :

Hagstofan - meðalneysla kr. 559.131 (verðlag 2008)

Hagstofan - lægsti tekjuhópur kr. 549.035 (verðlag 2008)

Dæmigert viðmið kr. 617.610

Skammtíma viðmið (með húsnæði og bíl) kr. 447.544

Grunnviðmið (án húsnæðis og bíls) kr.  286.365

Grunnviðmið með húsnæði frá skammtíma viðmið kr. 402.949

Grunnviðmið með húsnæði + bíll frá skammt.viðmiði kr. 480.243

Neysluviðmið umboðsmanns skuldara (án húsnæðis og bíls) kr. 157.300

Neysluviðmið umb.s. með húsnæði frá skammtíma viðmiði kr.  273.884

Neysluviðmið umb.s. með húsnæði og bíl kr.  314.884

 

Ég veit ekki hvort einhverjir hópar falla í raun og veru inn í þau neysluviðmið sem sýnd eru að ofan.   Viðmiðin segja ýmislegt varðandi möguleika fólks á að lifa mannsæmandi lífi á þeim launum sem boðið er upp á vinnumarkaði, hvað þá bótum lífeyriskerfisins.  Ríkisskattstjóri getur síðan velt fyrir sér hvort allar tekjur, sem fólk þyrfti að hafa, komi fram í skattframtölum.