Skortir bankana aðild að hluta endurútreiknings lána og hvað þýðir það fyrir endurútreikning lánanna

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.3.2011.

Undanfarnar vikur hefur lántökum fyrrum gengistryggðra lána borist inn um lúguna og í vefbönkum sínum upplýsingar um endurútreikning áður gengistryggðra lána í samræmi við lög nr. 151/2010.  Samkvæmt lögunum, þá skal reikna greiðsluflæði lánanna aftur til útgáfudags og þau bera lægstu vexti Seðlabanka Íslands í samræmi við 10. gr. laga nr. 38/2010 um vexti og verðbætur (vaxtalaga).  Er þetta í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 471/2010.  Ágreiningur er þó ennþá uppi um frá hvaða tíma Hæstiréttur telur að vextir skv. 10. gr. vaxtalaga eiga að taka gildi og hvort þetta nái eingöngu til lána sem voru með LIBOR vaxtaviðmið.

Umboðsmaður skuldara hefur sent frá sér harðorðatilkynningu og vísar í henni til enn harðorðari umsögn um frumvarpið að lögum nr. 151/2010, þar sem umboðsmaður kemst að þeirri niðurstöðu að krafa um afturvirkni vaxtanna sé brot á neytendavernd í Evrópurétti (sem við erum bundin af) og jafnvel eignarétti samkvæmt stjórnarskrá.  Talsmaður neytenda heldur einnig þeirri skoðun fram vef sínum.  Fjallaði ég um þetta í færslu í gær og bendi fólki á að kynna sér nánar efni hennar.

Í dag vil ég fjalla nánar um aðildarskort nýju bankana að endurútreikningi vaxta fyrir þann tíma að lánin komust í þeirra eigu.  Svo vill nefnilega til, að Sjómannafélag Íslands krafði Arion banka um endurgreiðslu á ofgreiðslu vegna láns sem félagið hafði tekið hjá Kaupþingi og var komið í eigu Arion banka.  Þetta er mál nr. 5215/2010 hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og var dómur felldur 18. febrúar sl.  Krafa Sjómannafélagsins var upp á kr. 19.867.805.  Vissulega var uppi ágreiningur um nákvæma tölu, en það er ekki stóra atriðið í þessu máli.  Arion banki bar fyrir aðildarskorti, þar sem lánið hafði ekki komist í eigu bankans fyrr en 8. janúar 2010.  Héraðsdómur féllst á þessi rök og taldi bankann því eingöngu eiga að greiða Sjómannafélaginu til baka vegna greiðslna eftir þann dag.  Gott og blessað.  Nú þarf Sjómannafélagið að stefna fyrri eigendum lánsins, þ.e. Seðlabanka Íslands og Kaupþingi.

Ég er ekki viss um að Arion banki átti sig á því hvers konar ormagryfju hann var að opna.  Lántakar allra fyrrum gengistryggðra lána sem núna eru í eigu Arion banka geta nefnilega notað sömu rök, þegar kemur að kröfum vegna endurútreiknings lánanna.  Þ.e. Arion banki er ekki aðili að málinu fram að þeim degi þegar lánið komst í eigu bankans.  Engu máli skiptir að lánið hafi verið í innheimtu hjá bankanum frá því í október 2008, hafi bankinn ekki átt lánið getur hann ekki krafið lántaka um vangreidda vexti í fortíð.  Hann getur heldur ekki krafið lántaka um vexti sem endurreiknast á lánin meðan þau voru hjá Kaupþingi fyrir hrun.  Sama gildir um lán hjá Íslandsbanka og NBI.

Ekki held ég að stjórnendur Íslandsbanka og NBI kunni lögfræðingi Arion banka miklar þakkir.  Það er nefnilega staðfest af starfsmanni NBI að bankinn eignaðist ekki kröfuna fyrr en hún var "flutt yfir til NBI þann 9.10.2008, samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins sama dag", eins og segir í tölvupósti sem ég hef undir höndum.  Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-5215/2010, þá var Arion banki ekki aðili að máli Sjómannafélags Íslands vegna endurgreiðslukröfu nema frá þeim degi sem lánið varð eign bankans.  Ég veit ekki hvort dagsetning flutnings láns frá Landsbanka Íslands til NBI sé líka dagsetning "eigendaskipta".  Mér finnst raunar líklegra að þessi "eigendaskipti" hafi átt sér stað síðar og tel að grunnforsenda slíkra "eigendaskipta" sé að stofnefnahagsreikningur hafi verið orðinn til.

Gefum okkur samt að fyrrum gengistryggð lán hafi komist í eigu NBI í októberbyrjun 2008.  Gefum okkur líka að ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur verði staðfest í Hæstarétti.  Þar með verður NBI eingöngu málsaðili að endurútreikningi lána frá 9.10.2008 til dagsins í dag.  Hvað varðar Íslandsbanka, þá er dagsetningin líklegast 10.10.2008 eða síðar.  Hvað Arion banka varðar komu lánin yfir á misjöfnum tíma. 

Ef við færum þetta allt yfir á lán tekið í september 2005 að fjárhæð kr. 10 m.kr.  Samkvæmt útreikningum frá banka voru greiddar um 2,0 m.kr. í vexti af láninu meðan lánið var hjá gamla bankanum, endurútreiknaðir vextir til 12.9.2008 eru hins vegar tæplega 5,3 m.kr. mismunur upp á um 3,3 m kr.  Bætum þessum mánuði sem upp á vantar við og talan er komin í um 3,5 m.kr.  Um þessa upphæð er nýi bankinn að krefja lántakann, auk þess sem bankinn krefur hann um vexti á þessa upphæð frá 9.10.2008.  Loks greiddi lántakinn ríflega 1,3 m.kr. í afborganir af láninu.  (Tekið skal fram að um raunverulegt dæmi er að ræða, þó tölum hafi verið breytt.)

Eins og ég sé stöðuna út frá dómum Hæstaréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur og áliti frá umboðsmanni skuldara, talsmanni neytenda og lögfræðinga sem ég hef rætt við, þá sýnist mér að höfuðstóll umrædds láns hafi staðið í 8,7 m.kr. við færslu þess frá gamla bankanum til þess nýja, þ.e. upphaflegur höfuðstóll mínus afborganir á nafnvirði.  Þá eigi nýi bankinn rétt á því að reikna sér samningsvexti frá yfirtökudegi til 16/9/2010, þegar Hæstiréttur felldi úrskurð sinn nr. 471/2010, en eftir það vexti Seðlabanka Íslands í samræmi við 10. gr. vaxtalaga. Vissulega eru bankarnir ekki sammála því að eingöngu megi reikna Seðlabankavexti frá 16/9/2010, en það er þeirra að sækja mál um þann ágreining, en ekki lántaka að verjast hærri kröfunni.  Mér finnst eðlilegast að einhver banki fari í prófmál til að fá úr þessu skorið, frekar en að níðast á lántökum, sem nóg hafa mátt þola, með hærri vaxtakröfu en ótvírætt er að hafi rétt til.

Höfum í huga, að nýju bankarnir tapa ekkert á því að kröfurnar sem þeir eiga séu minna virði.  Með því að greina á milli aðildar nýja og gamla bankans að hugsanlegri vaxtakröfu í samræmi við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-5215/2010, þá gerist það eitt að hluti kröfu sem nýi bankinn taldi sig eiga færist til gamla bankans.  Samanlagðar eignir bankanna breytast ekkert.  Þegar síðan dómur fellur, sem tekur á því hvort krafa sé réttmæt eða ekki, þá kemur í ljós hvers virði krafan er fyrir gamla bankann.

Loks vil ég velja athygli á frétt mbl.is frá því í morgun (sjá http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2011/03/22/urskurdur_hristir_upp_i_thyska_bankakerfinu/).  Í henni kemur fram að Deutsche Bank hafi verið snupraður af þýskum dómstóli fyrir að taka stöðu gegn viðskiptavini sínum.  Er þetta í mínum huga stórmerkilegur dómur.  Ástæða hrunsins má einmitt að stórum hluta rekja til þess að fjármálafyrirtæki stór og smá voru ítrekað að vinna með einum hópi viðskiptavina sinna og í eigin viðskiptum gegn hagsmunum viðskiptavina sem minna máttu sín.  Áhugavert yrði að sjá nánari greiningu á þessum dómi frá Þýskalandi, t.d. á hvaða lögum hann er reistur og tengingu þeirra laga við Evrópurétt.