Ótrúleg játning varaformanns Sjálfstæðisflokksins: Óvanalegt að foringi í stjórnarandstöðu standi með því sem er rétt fyrir þjóðina

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.2.2011.

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, varð heldur betur fótaskortur á tungunni í viðtali á Bylgjunni í morgun.  Heimir og Kolla voru að spyrja hana út í ólguna innan Sjálfstæðisflokksins með afstöðu Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, og átta annarra þingmanna gagnvart Icesave.  Viðbrögð hennar voru nokkurn veginn eftirfarandi:

Formaður flokksins stígur það skref, sem er mjög óvanalegt, tel ég, fyrir foringja í stjórnarandstöðu, að standa með því sem hann telur rétt fyrir þjóðina.

Hvorki Heimir né Kolla kveiktu á þessari ótrúlegu játningu Ólafar, að markmið stjórnarandstöðu Sjálfstæðisflokksins (a.m.k. miðað við hennar orð) sé ekki að gera það sem flokkurinn telur rétt fyrir þjóðina.   Það kom síðan fram í máli Ólafar að þingflokkurinn hafi verið lengi að komast að þessari niðurstöðu, þ.e. "að standa með því sem hann telur rétt fyrir þjóðina" og ekki voru allir sammála í þingflokknum um það.

Þetta kom hugsanlega eitthvað öfugt út úr varaformanninum,en hún sagði þetta.  Hún sagði það vera óvanalegt að foringi í stjórnarandstöðu tæki afstöðu til mála með hagsmuni þjóðarinnar í huga. Ólöf talar ekki fyrir hönd annarra stjórnarandstöðuflokka, fyrr eða síðar, og því ber ekki að yfirfæra orð hennar yfir á Hreyfinguna eða Framsókn.  Orð hennar voru samt mjög skýr og hún gerði enga tilraun til að leiðrétta þau:

Formaður flokksins stígur það skref, sem er mjög óvanalegt, tel ég, fyrir foringja í stjórnarandstöðu, að standa með því sem hann telur rétt fyrir þjóðina.

Hún segir síðar í viðtalinu, að Sjálfstæðisflokkurinn sé óvanur að vera í stjórnarandstöðu.  Reikna ég með því að sú staðreynd liti þessa afstöðu, þ.e. stjórnarandstöðuflokkurinn Sjálfstæðisflokkurinn heldur, að í því felist að vera í stjórnarandstöðu, að taka almennt þá afstöðu til mála að standa EKKI "með því sem hann telur rétt fyrir þjóðina".

Skýrir þetta, í mínum huga, margt í framgöngu flokksins, t.d. í málefnum heimilanna.  Hefur mér fundist flokkurinn mjög oft hafa lagt sig í líma við að strjúka þjóðinni öfugt og ýfa því sárin frekar en að finna lækningu.  Það sést líka í afstöðu flokksins til auðvaldsins (og þar með kvótahafa), þar sem ekki hefur mátt skerða á nokkurn hátt réttindi þessara aðila, en á sama tíma berst flokkurinn (mér liggur við að segja) fyrir því að heimilin beri eins skertan hlut frá borði eftir svik, lögbrot og pretti eigenda og stjórnenda fjármálafyrirtækjanna, sem svo virðist að séu ótrúlega margir flokksbundnir eða a.m.k. yfirlýstir Sjálfstæðismenn.  Það er mín upplifun, að Sjálfstæðisflokkurinn vilji að sem flestir hlutir fari í hund og kött í þjóðfélaginu, svo hann geti barið sér á brjósti fyrir næstu kosningar og bent á það sem úrskeiðis fór, þegar hann var ekki á vaktinni.  Kannski varð Ólöfu ekkert fótaskortur á tungunni. 

Kannski er það í raun og veru stefna Sjálfstæðisflokksins í stjórnarandstöðu að standa bara í undantekningartilfellum við það sem flokkurinn telur vera rétt fyrir þjóðina. 

Ég náði ekki að hlusta á viðtalið strax til enda, mér varð svo um ummæli hennar, en hún eiginlega bítur höfuðið af skömminni síðar í viðtalinu og dregur ennþá frekar línu undir það, að foringi í stjórnarandstöðu eigi fyrst og fremst að vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar. Þá var hún spurð um það sem koma skal og sagðist hún hafa gott dæmi um það í þessari ákvörðun Bjarna Benediktssonar í síðustu viku og sagði:

Hvað gerði hann? Tók hann ákvörðun, eins og formaður hefði venjulega gert í stjórnarandstöðu? Nei, hann gerði það ekki.  Hann ákvað að standa með því sem hans flokkur hafði gert.

Svona heldur maður stundum að fólki hafi orðið fótaskortur á tungunni, en í ljós kemur að svo var alls ekki.  Hitt er annað mál, að Bjarni Benediktsson tók, samkvæmt orðum Ólafar, eingöngu þessa afstöðu til Icesave vegna þess að Geir H. Haarde hafi þessa afstöðu á sínum tíma.  Niðurstaðan er í mínum huga einföld:

Hafi Sjálfstæðisflokkurinn gert mistök í fortíðinni, þá ætlar núverandi forysta flokksins ekki að viðurkenna það heldur standa við mistökin.  Það er nefnilega betra að viðurkenna ekki að mistök hafi verið gerð, því þá halda kjósendur flokksins að hann sé óskeikull.  Sjálfstæðisflokkurinn er ekki flokkur sem ætlar að læra af reynslunni.

Annars er svo margt ótrúlega merkilegt í þessu viðtali, að ég skora á fólk að hlusta á það.  Má þar nefna stóriðju, nýtt viðhorf Sjálfstæðisflokksins til ráðherraábyrgðar (þ.e. Ögmundur eigi að segja af sér en ekki Geir, Þorgerður, Árni Matt, Björn og þeir aðrir sem sátu þegar allt hrundi yfir okkur), gagnrýni á afturhald í atvinnumálum frá flokki sem gerði ekkert til að verja störfin í kjölfar hrunsins og margt fleira.  Tengilinn á það má finna hér.