Um hvað snýst áminningarbréf ESA og hver er vörn/sekt stjórnvalda?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10. og 11.4.2011.

Talsvert hefur verið rætt um áminningarbréf ESA (Letter of formal notice), en um hvað snýst það?  Ekki hefur verið fjallað um efni þess í fjölmiðlum og stjórnvöld hafa forðast sem heitan eldinn að ræða innihaldið.  Nú vill svo til að bréfið er opinbert gagn og hægt er að nálgast það á t.d. vef ESA (sjá tengill að ofan).

Fyrsti hluti áminningarbréfsins lýsir hvað gerðist frá og með 7. október 2008.  M.a. að FSCS (breski tryggingasjóðurinn) og DNB (hollenski seðlabankinn f.h. hollenska tryggingasjóðsins) greiddu út innstæðutryggingar upp að annars vegar 50.000 pund og hins vegar 100.000 evra.  Einnig að viðræður stæðu yfir og það væri skoðun íslenskra stjórnvalda að TIF (íslenski tryggingasjóðurinn) uppfyllti kröfur tilskipunar 94/19/EC og íslenskra laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingakerfi.

Í hluti tvö er vitnað í ýmsar greinar tilskipunarinnar og í hluta þrjú í lög nr. 98/1999.

Hluti fjögur inniheldur mat ESA og þar byrjar fjörið, ef svo má segja. 

Grein 4.1

Grein 4.1 fjallar um vangaveltur hvort TIF hafi staðið við skuldbindingar sínar gagnvart lögum og hvort brot á þeim skuldbindingum leiði til ábyrgðar ríkisins á vanefndum TIF.  Dregin er sú ályktun hvorki TIF né stjórnvöld hafi stuðlað að því að innstæðueigendur fengju aðgang að innstæðum sínum og að því ESA best vissi hefði engin greiðsla borist frá TIF.  Í undirmálsgrein segir ESA aftur:

In that respect the Authority notes that the Furd and the British Financial Services Compensation Scheme (FSCS) have entered into a settlement agreement. Under Article l.l of that agreement the parties acknowledge that the FSCS has with the Fund's knowledge made payments in accordance with its rules to individual depositors of the UK Branch of Landsbankinn in respect of which the Fund had a compensation obligation under Act No. 98/1999. Similarly, the Fund and the Dutch National Bank have entered into a deed of assignment with regard to claims on Landsbankinn Amsterdam branch paid by the Dutch National Bank.

Í lok greinarinnar segir svo:

Even if that were not the case that the Fund is part of the Icelandic State and is considered to be an independent entity, the State remains under the obligation to ensure full compliance with the Directive and proper compensation of depositors under its terms.

Ef ég skoða innihald þessarar greinar, þá er það ályktun ESA að ríkið hafi átt að tryggja að greiðslur frá TIF bærust í samræmi við íslensk lög og tilskipun 94/19/EC.  Um þetta vil ég segja:

TIF fékk frest til útgreiðslu í samræmi við lög og tilskipunina.  Sá frestur var framlengdur tvisvar.  Áður en til þess kom að hann rynni út, voru FSCS og DNB búin að greiða út til innstæðueigenda eins og segir í undirmálsgreininni.  Það getur því ekki staðist að TIF hafi átt að greiða til innstæðueigenda sem áður höfðu fengið greitt frá sjóðum í sínum löndum.   Með Icesave I samningnum var samið um að FSCS og DNB veittu TIF lán til greiðslu á sínum hluta.  Tæknilega séð hafði TIF því uppfyllt skyldur sínar áður en lokafresturinn til að gera það rann út.  Sá samningur var samþykktur á Alþingi með fyrirvörum, sem síðar kom í ljós að Bretar og Hollendingar vildu ekki fallast á.  Nýr samningur komst á og var hann í grunninn byggður á sömu hugsun, þ.e. FSCS og DNB lánuðu TIF fyrir greiðslunni.  Aftur var því engin ástæða fyrir TIF að ætla að ekki hafi verið staðið við ákvæði tilskipunar 94/19/EC.

Niðurstaða mín er að TIF hafi tæknilega staðið við skyldu sína í gegn um það samkomulag sem náðist um Icesave í júní 2009 og aftur október 2009.  Það er ekki sjóðnum eða íslenskum stjórnvöldum að kenna, að Bretar og Hollendingar hafi ekki samþykkt fyrirvara Alþingis.  Strangt til tekið gætu Bretar og Hollendingar dregið Icesave I fram núna og fallist á fyrirvara Alþingis og þá væri málið úr sögunni.  Eina ástæðan fyrir því að Icesave I tók ekki gildi var krafa Breta og Hollendinga um hærri vexti og óeðlilegan forgang í þrotabú Landsbankans. 

Hitt er rétt að benda á, að stjórn TIF hafði miklar áhyggjur af eignastöðu sjóðsins eftir að ákveðið var að taka yfir Glitni í lok september.  Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er í 17. kafla fjallað um TIF.  Undirkafli 17.16 ber titilinn Tryggingasjóðurinn leitar eftir stuðningsyfirlýsingu íslenska ríkisins. Í kaflanum er lýst tölvupóstsamskiptum Áslaugar Árnadóttur, formanns stjórnar TIF, við Ingimund Friðriksson, seðlabankastjóra, Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, og Bolla Þór Bollason, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu.  Áslaug sendir þeim þrjár útgáfur af yfirlýsingu vegna TIF í drögum og hljóða þau sem hér segir:

A: Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að ábyrgjast öll innlán í öllum íslenskum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þessara aðila á Íslandi og erlendis.

B: Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að ábyrgjast öll innlán í öllum íslenskum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þessara aðila á Íslandi og erlendis.

Ábyrgð þessi gildir á meðan órói er á fjármálamörkuðum.

Samkvæmt lögum nr. 98/1999 skal Tryggingarsjóð[ur]i innstæðueigenda og fjárfesta greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækis andvirði innstæðu hans við greiðsluþrot eða gjaldþrot aðildarfyrirtækis sjóðsins. Aðildarfyrirtæki sjóðsins eru allir íslenskir viðskiptabankar og sparisjóðir. Yfirlýsing þessi felur í sér að ríkisstjórn Íslands ábyrgist að Tryggingarsjóðurinn geti staðið við þær skyldur sínar.

C: Samkvæmt lögum nr. 98/1999 skal Tryggingarsjóð[ur]i innstæðueigenda og fjárfesta greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækis andvirði innstæðu hans við greiðsluþrot eða gjaldþrot aðildarfyrirtækis sjóðsins. Aðildarfyrirtæki sjóðsins eru allir íslenskir viðskiptabankar og sparisjóðir. Yfirlýsing þessi felur í sér að ríkisstjórn Íslands ábyrgist að Tryggingarsjóðurinn geti staðið við þær skyldur sínar.

Satt best að segja virðist mér sem formaður stjórnar TIF sé að leggja til að ríkissjóður, sem ekki gat einu sinni tekið 500 ma.kr. lán, eins og Alþingi veitti heimild fyrir, ætti að tryggja innstæður upp á yfir 3.100 ma.kr. með yfirlýsingu.

Allt endaði þetta á því að stjórn TIF samþykkti að senda eftirfarandi bréf til forsætisráðherra og fór það 1. október 2008:

Stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta samþykkti á fundi sínum í dag að beina því til forsætisráðherra að skýrt verði með hvaða hætti Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta verði gert kleift að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, ef eignir sjóðsins hrökkva ekki til að inna af hendi þær greiðslur sem lög kveða á um.

Þessu erindi var aldrei svarað og segi ég bara sem betur fer.  Virðist mér sem stjórn sjóðsins hafi ekki verið í neinum tengslum við veruleikann, að halda að ríkissjóður gæti tryggt það fjármagn sem um var að ræða.

Grein 4.2

Í grein 4.2 er tekið á atriðum varðandi kerfishrun.  Þar er vísað í bréf íslenskra stjórnvalda frá 23. mars 2010, þar sem þau benda á að könnun framkvæmdarstjórnar ESB hafði leitt í ljós, að í engu landi hefðu tryggingasjóðir getu til að standa undir nema í mesta lagi hruni miðlungsstórs fjármálafyrirtækis.  Sjóðunum sé því ekki ætlað að standa undir því að innstæður séu ekki aðgengilegar vegna meiriháttar eða alsherjar bankakreppu.  Þessu er ESA ósammála og vísar til dóms Evrópudómstólsins frá 1990 (mál C-19/90 og C-20/90).  Þar hafi dómstóllinn komist það þeirri niðurstöðu að óvanalegar aðstæður leystu ríki ekki undan því að uppfylla ákvæði tilskipana.  ESA rökstyður svar sitt jafnframt með því að íslensk stjórnvöld hafi framlengt frest TIF í samræmi við tilskipunina og þar með í reynd viðurkennt að ákvæði hennar ættu ennþá við.  Þá bendir ESA á að aldrei hafi verið gefin út almenn yfirlýsing um að innstæður yrðu ekki aðgengilegar á Íslandi.  Aðgerðir stjórnvalda (m.a. neyðarlögin) komu í veg fyrir að slíkt ástand skapaðist.

Vissulega má segja að aðferðir FME við aðskilnað milli innlendrar og erlendrar starfsemi Kaupþings, Glitnis og Landsbanka hafi tekið frá stjórnvöld vörn varðandi þennan þátt.  Klúður FME (sem ég hef nokkrum sinnum bent á) sem fólst í því að tryggja ekki jafnt aðgengi innlendra og erlendra innstæðueigenda að eignum sínum, gerir ríkinu ókleift að verjast þessu atriði.  Svo einfalt er það.  Einnig má svo sem benda á slitastjórn Landsbankans, en henni bar að gera Icesave innstæður aðgengilegar innstæðueigendum eins fljótt og kostur var.  Hún brást í því og hefur raunar setið á háum upphæðum í nærri 2 ár. 

Staðreyndin er að staðið var rangt að málum, þegar allar innlendar innstæður voru gerðar aðgengilegar án nokkurs rofs.  Mikið er búið að gagnrýna þetta í baráttu heimilanna vegna stökkbreyttra lána og hins mikla taps fólks í lögbundnum sparnaði, en rökin um mismunun innstæðueigenda eru líklegast sterkust.

Neyðarlögunum var ætlað að tryggja innstæður í bönkunum.  Það var gert með því að færa þær til í kröfuröð og gera þær að forgangskröfum.   Í einhverju bjartsýniskasti, þá virðist hafa verið gengið út frá því að a) í lagi væri að mismuna innstæðueigendum og láta innlenda hafa órofinn aðgagn að sínu, en erlendir máttu bíða síns tíma, b) gert var ráð fyrir að eignir bankanna dygðu fyrir öllum forgangskröfum og þær kæmu til útborgunar á hratt og vel.  Hvorutveggja klikkaði og því sitjum við uppi með þetta mál óleyst.

Svona út frá almennum vangaveltum, á tryggingasjóður að geta staðið undir kerfishruni?  Ef TIF hefði átt að geta staðið undir lágmarkstryggingu vegna allra innlána í íslenskum bönkum, þá geri ég ráð fyrir að í sjóðnum hefðu þurft að vera um 1.100 ma.kr. í sjóðnum.  Til þess að það hefði verið hægt, eins og ESA virðist vera að ýja að, þá hefði það kallað á gríðarlega hátt iðgjald, sem aðildarfyrirtæki sjóðsins hefðu þurft að greiða.  Mér telst til að 1.100 ma.kr. hafi verið lang leiðina í þriðjungur af innstæðum bankanna.  Ég er viss um að heyrst hefði hljóð úr horni frá ESA ef krafist hefði verið 20% iðgjalds og auðunnið mál að sýna fram á samkeppnishindrun.  (Lárus Blöndal tekur sé ég undir þetta sjónarmið í viðtali við Morgunblaðið, sjá Sterk rök okkar í Icesave.  Ath. ég byrjaði að skrifa þess færslu um 13.30 10.4.)  Ef staðan er, að tilskipunin geri ekki ráð fyrir að tryggingasjóðir stæðu undir kerfishruni, til hvers er þá verið að benda á, að sjái ríki til þess að virkur tryggingasjóður sé settur á fót, þá sé ábyrgð þess lokið?  Var þetta bara sett þarna upp á punt svo menn gætu vísað til þess að tryggingasjóðirnir ættu ekki að vera ríkistryggðir þó þeir væru það í reynd eða hugsuðu menn ákvæðið ekki til enda?  Mér sýnist sem það sé blanda af báðu.

Svo er í raun að sjá, að tilskipunin sé dulbúin krafa um ríkisábyrgð, nokkuð sem er augljóslega í andstöðu við samkeppnistilskipun ESB og írsk stjórnvöld fengu að "kenna á" eftir að þau lýstu því yfir að allar innstæður í írskum bönkum væru tryggðar.

Grein 4.3

Í þessari grein er fjallað um að greiðslur hafi ekki borist.  Bendir ESA á að

..the depositors with the Icesave branches in the Netherlands and the United Kingdom are the only ones who have not received even the minimum compensation from the deposit guarantee scheme responsible under the Directive

Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki þetta atriði.  Almennir innstæðueigendur (e. retail depositors) í þessum löndum voru búnir að greitt út í samræmi við reglur þessara landa.  Áttu þeir þá að fá sömu innstæðurnar greiddar tvisvar?  Auk þess hafði tvisvar verið samið um að líta skuli á hluta útborgunar FSCS og DNB sem lán til TIF vegna lágmarkstryggingarinnar.  

Þetta verður ennþá furðulegra í næstu málgrein, en þar segir m.a.:

Consequently, if the Deposit Guarantee Fund established under the Directive fails to achieve the result prescribed, the State authorities have the obligation to ensure that the result prescribed is attained. The authorities are free to determine how that result is attained. Nevertheless, it is incumbent on the Icelandic authorities to ensure that payments are made to depositors up to the minimum amount guaranteed by Article 7(1) of the Directive.

(Feitletrun er mín.)

Ég fæ ekki betur séð en að íslensk stjórnvöld hafi einmitt tryggt þetta með þeim þremur samningum sem gerðir hafa verið. Í staðinn fyrir að reiða fram peninga, þá var gerður lánssamningur vegna greiðslunnar sem FSCS og DNB reiddu fram.  Það sem meira er, að afgreidd voru lög nr. 96/2009 frá Alþingi, þar sem fyrirkomulag greiðslunnar var samþykkt.  Bretar og Hollendingar völdu sjálfir að hafna fyrirvörum Alþingis og komu þannig í veg fyrir að samningurinn tæki gildi.  Vart er hægt að álasa stjórnvöldum hér á landi fyrir það.  Mergur málsins er að settu marki var náð með Icesave samningnum frá því í júní 2009.  Ekki var á nokkurn hátt reynt að víkja sér undan greiðsluskyldu TIF gagnvart erlendum útibúum íslensku bankanna, eins og gefið er í skyn af ESA með:

No part of that Annex can be understood as meaning that the home State and its guarantee scheme is exonerated from the minimum guarantee it should give to depositors of its foreign branches in the event that deposit guarantee scheme of the host state intervenes.

Hér fer ESA hreinlega með fleipur.

Fleira er í sama dúr í grein 4.3 og er hreinlega eins og sá sem samdi hana skilji ekki eðli þeirra samninga sem gerðir höfðu verið.  Meðan að TIF gerir ráð fyrir því að lán FSCS og DNB séu fyrir hendi, þá er alveg út í hött að inna af hendi einhverjar greiðslu vegna þeirra innstæðna sem FSCS og DNB greiddu út.

Grein 4.4

Greinin fjallar um bann við mismunun.   Þetta er sá hluti bréfsins, sem ég tel íslensk stjórnvöld eiga erfiðast með að verjast.  Raunar get ekki séð að þau hafi nokkrar varnir.  Hafa skal þó í huga að þetta atriði er Icesave samningnum alveg óviðkomandi.  Efni hennar hefði staðið þó niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni hefði verið að lögin væru samþykkt.  Brotið var á jafnræði innstæðueigenda á allan mögulegan hátt.  Annar hópurinn (sá innlendi) fékk allar innstæður sínar tryggðar upp í top og aðgang að þeim strax.  Hinn hópurinn (sá erlendi) fékk þær tryggðar upp í top í orði, en ekki á borði.  Aðgangur að innstæðum rofnaði í vikur eða mánuði og þá eingöngu sumir og upp að tilteknu hámarki.  Þó svo að eignir Landsbankans dugi til að greiða öllum það sem þeim ber, þá munu stjórnvöld mjög líklega þurfa að greiða bætur vegna brots á jafnræðisreglunni.

Niðurstaða mín

Það er mín niðurstaða að tæknilega séð hafi TIF uppfyllt skyldur sínar samkvæmt tilskipun 94/19/EC strax með fyrsta Icesave samningnum.  Þá komst á skilningur um fyrirkomulag.  Ekki er hægt að koma með eftir á skýringu og segja, að fyrst Icesave II og III hafi verið felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá gildi þessi skilningur ekki lengur.   Það sem meira er að TIF uppfyllti skyldur sínar áður en frestur FME rann út samkvæmt ákvæðu tilskipunarinnar.  Eins og ESA bendir sjálft á, þá er hverju ríki frjálst hvernig það uppfyllir skyldur sínar. 

Varðandi tvö atriði, þá sé ég ekki að Ísland geti borið miklar varnir fyrir sig.  Fyrst er að þó höggið hafi verið mikið vegna kerfishruns, þá virtist ákaflega einfalt að bjarga innlendum innstæðum, en gjörsamlega fyrirmunað að bjarga þeim erlendu.  Eins var jafnræði innstæðueigenda brotið.  Hvorugt þessara mála er hægt að skrifa á TIF.  Einnig skiptir útkoma þjóðaratkvæðagreiðslunnar ekki máli fyrir þessi atriði.  Bæði má skrifa á FME sem meiriháttar klúður, hugsanlega hroka, en líklegast ótrúlega ósvífni.  Hvernig datt FME í hug að hægt væri að mismuna innstæðueigendum á þennan hátt?  Hverju hefði það breytt fyrir þá sem áttu hæstu innstæðurnar hér á landi, að aðgangur að þeim hefði skerst í einhvern tíma?  Ég er alveg viss um, að hefðu íslenskir aðilar ekki fengið aðgang að milljónatugum, hundruðum eða þúsundum, þá væri Landsbankinn fyrir löngu byrjaður að greiða út úr búinu.  Dómsmál hefðu farið fyrr af stað og fengið flýtimeðferð í dómskerfinu. 

Þetta klúður FME mun hugsanlega kosta skattgreiðendur háar upphæðir.  Þar liggur mestan fjárhaglega áhættan í því hvort neyðarlögin standast.  ESA hefur að vísu gefið út álit, þar sem stofnunin samþykkir það fyrirkomulag að innstæður hafi verið færðar til í kröfuröð.  Ég sé ekki Hæstarétt dæma á annan hátt.  Gerist það aftur, þá munu líklegast 600-700 ma.kr. falla á ríkissjóð auk þess sem hann þarf að bæta Icesave innstæðueigendum brot á jafnræðisreglu.  Hin áhætta sem felst í þessu klúðri FME er að dugi eignir Landsbankans ekki fyrir forgangskröfum, þá sé ég ekki annað en að mismunurinn falli á ríkissjóð.

Áminningarbréf ESA: Tvö atriði ættu að falla okkur í hag og tvö okkur í óhag

Ég fjalla um mína sýn á innihald áminningarbréfs ESA í færslu sem ég setti við aðra frétt (sjá Um hvað snýst áminningarbréf ESA og hver er vörn/sekt stjórnvalda?).  Mér sýnist út frá röksemdum ESA og almennri rökhyggju og kunnáttu minni á þeim lögum, reglum og tilskipunum sem ESA vísar til, að af þeim fjórum atriðum sem ESA tekur upp í bréfinu, þá eigum við góðar varnir í varðandi tvö þeirra, en nánast engar varðandi tvö þeirra.

Niðurstaða skoðunar minnar á áminningarbréfinu er sem hér segir:

Það er mín niðurstaða að tæknilega séð hafi TIF uppfyllt skyldur sínar samkvæmt tilskipun 94/19/EC strax með fyrsta Icesave samningnum.  Þá komst á skilningur um fyrirkomulag.  Ekki er hægt að koma með eftir á skýringu og segja, að fyrst Icesave II og III hafi verið felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá gildi þessi skilningur ekki lengur.   Það sem meira er að TIF uppfyllti skyldur sínar áður en frestur FME rann út samkvæmt ákvæðu tilskipunarinnar.  Eins og ESA bendir sjálft á, þá er hverju ríki frjálst hvernig það uppfyllir skyldur sínar. 

Varðandi tvö atriði, þá sé ég ekki að Ísland geti borið miklar varnir fyrir sig.  Fyrst er að þó höggið hafi verið mikið vegna kerfishruns, þá virtist ákaflega einfalt að bjarga innlendum innstæðum, en gjörsamlega fyrirmunað að bjarga þeim erlendu.  Eins var jafnræði innstæðueigenda brotið.  Hvorugt þessara mála er hægt að skrifa á TIF.  Einnig skiptir útkoma þjóðaratkvæðagreiðslunnar ekki máli fyrir þessi atriði.  Bæði má skrifa á FME sem meiriháttar klúður, hugsanlega hroka, en líklegast ótrúlega ósvífni.  Hvernig datt FME í hug að hægt væri að mismuna innstæðueigendum á þennan hátt?  Hverju hefði það breytt fyrir þá sem áttu hæstu innstæðurnar hér á landi, að aðgangur að þeim hefði skerst í einhvern tíma?  Ég er alveg viss um, að hefðu íslenskir aðilar ekki fengið aðgang að milljónatugum, hundruðum eða þúsundum, þá væri Landsbankinn fyrir löngu byrjaður að greiða út úr búinu.  Dómsmál hefðu farið fyrr af stað og fengið flýtimeðferð í dómskerfinu. 

Þetta klúður FME mun hugsanlega kosta skattgreiðendur háar upphæðir.  Þar liggur mestan fjárhaglega áhættan í því hvort neyðarlögin standast.  ESA hefur að vísu gefið út álit, þar sem stofnunin samþykkir það fyrirkomulag að innstæður hafi verið færðar til í kröfuröð.  Ég sé ekki Hæstarétt dæma á annan hátt.  Gerist það aftur, þá munu líklegast 600-700 ma.kr. falla á ríkissjóð auk þess sem hann þarf að bæta Icesave innstæðueigendum brot á jafnræðisreglu.  Hin áhætta sem felst í þessu klúðri FME er að dugi eignir Landsbankans ekki fyrir forgangskröfum, þá sé ég ekki annað en að mismunurinn falli á ríkissjóð.

 Til að sjá hvernig ég komst að þessari niðurstöðu verður bara að lesa hina færsluna.