Eftirlitsnefnd með sértækri skuldaaðlögun enn með rangar forsendur

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.12.2012.

Ég hef nokkrum sinnum fjallað um lög 107/2009 um úrræði fyrir einstaklinga, heimili og fyrirtæki vegna banka- og gjaldeyrishruns.  Í dag var birt enn ein skýrsla eftirlitsnefndar (svo kallaðrar Maríu-nefndar, kennd við Maríu Thejll formann nefndarinnar) með sértækri skuldaaðlögun samkvæmt I. kafla laganna.  Því miður er það svo, að enn einu sinni eru forsendur Maríu-nefndarinnar rangar og því getur hún ekki annað en komist að rangri niðurstöðu.

Ákvæði laganna um sértæka skuldaaðlögun

Svona til að rifja upp tilgang laga 107/2009:

Markmið laga þessara er að hraða endurreisn íslensks efnahagslífs í kjölfar banka- og gjaldeyrishrunsins haustið 2008 og að jafnvægi komist á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindinga einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar.

Svo vill til, að ég sat í starfshópi skipuðum af efnahags- og viðskiptaráðherra eftir tilnefningu flokkanna.  Starfshópinn áttu líka að skipa sérfræðinga og fulltrúa hagsmunaaðila, en ráðherra taldi sér greinilega ekki skylt að fara að lögum.  "Hópurinn skal meta árangurinn af framkvæmd laganna og skoða álitaefni sem upp koma við framkvæmdina" segir í lögunum og til þess fengum við örfáa mánuði á tímabili þegar engin reynsla var komin á framkvæmd laganna.  Ég þori að fullyrða, að aldrei stóð til að markmiðum laganna yrði náð og enn síður að ákvæði 2.gr. yrðu uppfyllt, en þau hljóða sem hér segir:

Í samningi milli kröfuhafa og skuldara um eftirgjöf skulda eða breytingu á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga skal fyrst og fremst horft til þess að laga skuldir að greiðslugetu og eignastöðu viðkomandi einstaklings eða heimilis. Skal miðað að því að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur og komast hjá óþarfa kostnaði og óhagræði.

Reglur bankanna ekki í samræmi við ákvæði laganna

Sértæk skuldaaðlögun bankanna hefur ALDREI uppfyllt ákvæði 2. gr. laganna.  Þetta er stærsta atriðið sem verður að setja út á í starfsemi Maríu-nefndarinnar.  Hún hefur því miður ekki sýnt fram á að sú sértæka skuldaaðlögun sem nefndin hefur haft til skoðunar sé í samræmi við ákvæði laganna.  Hún getur það nefnilega ekki og því er tómt mál að tala um að sértæk skuldaaðlögun sem bankarnir komu sér saman um, sé rétt framkvæmd.  Mestu skiptir hvort framkvæmdin sé í samræmi við lögin og það hefur hún aldrei verið. 

Sérstaklega skal bent á atriðið "skal miða að því að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur og komast hjá óþarfa kostnaði og óhagræði".  Sértæk skuldaaðlögun bankanna snýst bara um að hámarka ávinning bankanna!  Hvergi er í reglunum fjallað um að lántakar fái felldar niður ósanngjarnar kröfur, ólöglegar kröfur, kröfur sem fegnar voru með ólöglegu athæfi, að lántakar fái hlutdeild í afslætti bankanna og fleira þar sem lántaki fær að njóta eðlilegs ávinnings.  Nei, sértæk skuldaaðlögun bankanna hefur bara snúist um hagsmuni bankanna.  Lántakar hafa aldrei fengið krónu niðurfellda eða leiðrétta af lánum sínum, sem bankarnir hafa ekki verið 100% vissir um að ekki væru innheimtanleg.  Hver er þá hinn gagnkvæmi ávinningur?  Hann er ekki til staðar, þar sem orðið "gagnkvæmur" þýðir að báðir njóti ávinningsins, en slíkur er ekki fyrir að fara.

Rangar forsendur Maríu-nefndarinnar

Þar sem Maríu-nefndin er ekki að vinna úttektir sínar í samræmi við ákvæði 1. og 2. gr. laga 107/2009, þá getur hún ekki annað en komist að rangri niðurstöðu.  Sorgleg staðreynd, því ég held i alvöru að María Thejll sé ákaflega hæf kona og vönduð í sínum vinnubrögðum.  Allt sem nefndin hefur sent frá sér bendir til mikillar nákvæmni í meðhöndlun talna, en þegar forsendurnar eru rangar (þ.e. reglur bankanna, en ekki ákvæði laganna), þá geta niðurstöðurnar ekki orðið réttar. Höfum í huga að Maríu-nefndin átti að fjalla um hvernig lögunum væri framfylgt, ekki reglum bankanna!  Nefndin verður því að skoða öll mál viðskiptavina/lántaka sem eru í vinnslu í bankakerfinu, en ekki bara þau sem falla undir reglur bankanna um sértæka skuldaaðlögun.

Valdleysi stjórnvalda, ráðleysi stjórnvalda

Bara svo það sé á hreinu, þá held ég að ég þekki fá eða nokkur lög frá Alþingi betur en þessi lög.  Ég hef alveg frá upphafi bent á að sértæk skuldaaðlögun bankanna bryti gegn lögunum og kom því á framfæri í starfshópnum, sem áður var nefndur, hér á blogginu mínu og á fundum með ráðamönnum og þingmönnum.  Staðreyndin er sú, að stjórnvöld hafa engin völd, þegar kemur að þessum málum.  Valdið hefur alla tíð legið hjá fjármálafyrirtækjunum, sem hafa getað farið sínu fram án þess að stjórnvöld andmæli í eitt einasta skipti.  Jafnvel þegar dómstólar hafa staðfest einbeittan brotavilja fjármálafyrirtækjanna, þá hafa stjórnvöld ALLTAF komið fyrirtækjunum til varnar.  Staðreyndin er að það er óopinber stefna stjórnvalda, að lántakar skuli bera kostnaðinn af endurreisn bankakerfisins og svo það sé hægt skuli mergsjúga fólk ef því verður mögulega við komið.  Þessi stefna stjórnvalda er að keyra atvinnulífið á kaf, hún er að keyra heimilin á kaf og hún er að keyra einstaklingana á kaf.  Það getur vel verið að einhver tölfræði líti ágætlega út, en maður þarf ekki að hlusta lengi á hljóðið í þjóðinni til að heyra að eitthvað er verulega að.

Stjórnvöld munu örugglega í undanfara kosninganna hrósa sér fyrir að viðspyrna hafi náðst.  Sú viðspyrna er lík þeirri sem Sigurjón Þ. Árnason lýsti í viðtali um mánaðarmótin mars/apríl 2008.  Hún reyndist vera viðspyrna á veikri brún, sem brast með geigvænlegum afleiðingum.  Ég vona innilega að stjórnvöld beri gæfu til að átta sig á því hve veik viðspyrnan, sem þau telja sig finna fyrir, er í þetta sinn.