Áminningarbréf ESA er á miklum misskilningi byggt

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 23.4.2012.

ESA hefur sent íslenskum stjórnvöldum áminningarbréf.  Innihaldið er eitthvað á þá leið að ekki sé leyfilegt að banna fortakalaust gengistryggingu lána, þar sem það brjóti gegn 40. gr. EES samningsins.  Fyrri hluti færslunnar er frá því áður en ég sá bréfið, en sá seinni eftir að ég hafði lesið það.

Fyrri hluti

Skoðum hvað segir í þessari 40. gr. EES samningsins:

Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar.

Ég velti því fyrir mér hvernig hægt sé að lesa það út úr þessum orðum að bann við gengistryggingu hefti "flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum".  Gengistrygging kemur því ekkert við hvort flytja megi fjármagn á milli landa.  Hún var bara ein tegund lánsforms á sama hátt og verðtrygging eða óverðtryggt lán.  Bann við gengistryggingu hindrar heldur ekki flutning fjármagns eða mismunar lántökum eða lánveitendum byggt á ríkisfangi eða búsetu aðila eða hvar féð var notað.  Hvernig ESA dettur slíkt í hug, er mér gjörsamlega óskiljanlegt.

Tekið skal fram að ég hef átt þessa umræðu við ESA.  Það var í ágúst 2010.  Áhyggjur ESA voru þá um að sá sem veitti erlent lán gæti ekki tryggt lán sitt með veði í fasteign.  Benti ég viðmælanda mínum á að það væri framkvæmt með því að þinglýst væri tryggingarbréfi í stað skuldabréfsins sjálfs.  Þannig gæti hver sem vildi veita erlent lán, þ.e. lán í erlendum myntum, gert það og fengið tryggingu í fasteign með notkun slíks tryggingarbréfs.  Raunar gerðu fjármálafyrirtæki þetta til að byrja með, en svo urðu þau löt og sniðgengu formsatriðin.

40. gr. EES samningsins er ekki um hvaða lánsform eru leyfileg.  Nei, hún er um það að þegar einhver, sem telst eigandi fjármagns, vill flytja fjármagnið á milli landi, þá séu engin höft á þeim flutningi.  Þá er spurningin:  Hver er eigandi fjármagns sem fengið er að láni?  Er það lánveitandinn eða lántakinn?  Það er lántakinn, því um leið og lánið er greitt út, þá er lánveitandinn eigandi að kröfu á hendur lántakanum og krafan verður kyrr í upprunalandi sínu, þ.e. þar sem hún er gefin út.  Hvaða skilmálar eru á láninu, kröfunni, skiptir ekki máli, þar sem hún er ekki að flytjast á milli landa.  Peningarnir, sem greiddir voru út, voru á hinn bóginn fluttir á milli landa.  Hvaða vextir þeir bera eða gjaldmiðillinn sem notaður er til viðmiðunar, skiptir ekki máli, þar sem tekið var fram í lánssamningnum í hvaða mynt ætti að greiða út upphæðina og hvert ætti að greiða hana.

Hvort bannið við gengistryggingunni skerði á einhvern hátt atvinnufrelsi viðkomandi banka, er allt annað mál.  En að lög setji atvinnufrelsi skorður er ekkert nýtt og telst ekki ólöglegt nema um mismunun sé að ræða eða með því sé haft af viðkomandi fyrirtæki möguleiki til að nýta annars löglegan rétt.  Það bara kemur 40. gr. EES samningsins bara ekkert við.

Mér finnst ESA vera á villigötum, ef stofnunin telur 40. gr. EES samningsins vera brotna með banni við gengistryggingu.  Raunar skil ég ekki hvernig stofnunin fær það út, en á móti þá hef ég ekki séð áminningarbréf ESA til stjórnvalda.

Seinni hluti

Er búinn að sjá brét ESA til stjórnvalda.  Brandarinn er eiginlega verri en ég hélt. 

Fyrstu fjórir kaflar bréfsins eru almennt hjal sem skiptir ekki máli.  Það er í 5. kafla sem fjörið hefst og bullið.

Rök kvartanda eru m.a.:

In the complaints it is alleged that the ban on exchange rate indexation of loans in Iceland has the effect of making it less attractive for financial institutions to finance themselves in other currencies than ISK.

Ég hef nú vart séð aðra eins steypu!  Bann við gengistryggingu gerir það óaðlaðandi fyrir fjármálafyrirtæki að fjármagna sig í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum!  Í íslenskum lögum er skýrt tekið fram að heimilt er að taka lán í erlendum gjaldmiðli.  Það eina sem ekki má er að lánið sé í krónum og tengt við erlenda gjaldmiðla.  Hverju var logið að ESA hér?

Næst er þar sem ESA segir:

It was common in Iceland to grant exchange rate indexed loans in so-called "currency baskets" i.e. the loans were indexed to the value of certain foreign currencies such as USD, EUR, CHF and JPY. It varied between loan agreements which currencies were involved and the percentage of each currency in the "currency basket" differed between agreements as well.

Although exchange rate indexed loans were granted in ISK such loans were inevitably linked to the value of other currencies. In order to reflect the risk of granting such loans in ISK! Icelandic financial institutions would therefore probably seek to finance the loans in the currencies that the loans were indexed to.

Já, það var algengt að veita myntkörfulán, en það var ólöglegt.  ESA getur ekki notað það sem rök fyrir að ekki megi banna gengistryggingu að hið ólöglega athæfi hafi verið stundað og að bankar hafi brugðist við ólöglegu athæfi á ákveðinn máta!  Ég held ég hafi ekki séð aumari rökstuðning fyrir því að ekki megi banna lögleysu.  ESA verður að skilgreina hvernig bankarnir hefðu hagað sér, ef þeir hefðu farið að lögum, en ekki réttlæta hegðun þeirra eftir að þeir brutu lögin.

Enn heldur vitleysan áfram hjá ESA:

A total ban on the granting of exchange rate indexed loans in ISK, such as laid down in Act no 38/2001, will dissuade Icelandic financial institutions from financing their loans in other currencies than the national currency and therefore constitutes a restriction on the free movement of capital as provided for under Article 40 EEA.

Er ekki allt í lagi?  Hver var að fylla ESA að ranghugmyndum og tilbúningi?  Ekkert bann er á Íslandi við að veita lán í erlendri mynt svo fremi sem höfuðstóll lánsins er gefinn upp í erlendri mynt, lánið er greitt út í erlendri mynt inn á gjaldeyrisreikning lántaka og lántaki kaupi erlendu myntina til að endurgreiða bankanum.  Bann við gengistryggingu heftir ekki löglegar lánveitingar í erlendri mynt og því geta bankarnir fjármagnað sig á þann veg.  Fyrir utan:  Hvað kemur það vaxtalögum við hvernig bankarnir kjósa að fjármagna sig?  Um gjaldeyrisjöfnuð bankanna er fjallað um í allt öðrum lögum og reglum Seðlabanka Íslands.  Telji ESA að verið sé að hefta möguleika bankanna til að búa til neikvæðan gjaldeyrisjöfnuð, þá er út í hött að benda á vaxtalögin.

Þegar íslensk stjórnvöld bera hönd fyrir höfuð sér, þá gera þau það á kolvitlausan hátt og ESA svarar:

It follows from the above that the restriction of the free movement of capital identified by the Authority in the present letter of formal notice is concerned with Icelandic financial institutions being dissuaded from financing their loans in other currencies than the national curency

Ég skil ekki hvernig ESA kemst að þessari niðurstöðu.  Hvernig getur það latt íslensk fjármálafyrirtæki til að fjármagna sig í erlendri mynt, ef þeim er síðan heimilt að lána þessa sömu mynt út sem lán í erlendri mynt til hvers sem óskar eftir láni?

Ég verð að viðurkenna, að ég hef ekki séð aumari rökstuðning fyrir nokkurri vitleysu en þennan.

Þessi rök ESA að verði sé að hindra fjármálafyrirtæki í að fjármagna sig með lánum í erlendum gjaldeyri eru gjörsamlega óviðkomandi því hvernig bankar endurlána slík lán.  Fyrir utan að ESA færir engin rök fyrir því að sú fjármögnun hafi yfir höfuð átt sér stað á þann hátt sem um ræðir.

Ég held að starfsmaður ESA sem hafði með þetta mál að gera hafi ekki skilið um hvað það snýst.

Skrár tengdar þessari bloggfærslu: