Áritunarsaga úr banka

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.1.2012.

Mér barst um daginn póstur frá manni sem sagði mér sögu af samskiptum sínum við viðskiptabankannn sinn.  Hann óskaði eftir því að áritað væri á skuldabréf greiðsla af láni.  Hér fer saga hans nánast óbreytt eins og hann skrifar hana.  Eina sem ég breytti voru greinarskil og línuskipti.  Öllum nöfnum var breytt af bréfritara og bankinn ekki auðkenndur, þar sem ekki skiptir máli hver hann er, en einhverjir munu samt átta sig á því.

Raunir bankans

Eftir umfjallanir um lánamál heimilanna, ákvað ég að kanna nokkra hluti, t.d.: Eru lánapappíranir mínir hér á landi? Er skuldabréfið áritað fyrir innborgunum? Er lánið búið að skipta um eigendur?

Ég er þessi millistéttar auli, sem tók lán í íslenskum krónum með okkar ástsælu verðtryggingu.

Þegar ég fór í Bankann, með pening í vasanum, til að standa skil á afborgun af láninu, var ég nokkuð viss um að gjaldkeri væri ekki með Bréfið hjá sér, þannig að ég fór til “Bakvinnslunnar”.  Kynnti mig og sagði að erindið væri að greiða af láninu mínu. Það var auðsótt.  Greiðsluseðill var prentaður út, upphæð yfirfarinn og sammþykkt. Greiðsla boðin, en,

“Ég vildi gjarnan láta árita skuldabréfið fyrir afborgun”. 

Bakvinnsla “Ha, nei, nei, það gerum við ekki lengur.”

“Nú(dró upp Tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf), en það er í lögum að Bankanum ber að gera það.  Eins og reynslan hefur sýnt okkur, er engum að treysta, þessi Banki gæti farið á hausinn, aftur, bréfið endað einhversstaðar og ég krafinn um greiðslu, frá fyrsta degi, af öllu bréfinu.”

Bakvinnslan var nú ekki sammála, “Þetta er allt skráð í Tölvunni.” 

“En ef Kínverskir tölvuhakkarar gera árás á Reiknistofuna og allt hrynur, ha?”

Bakvinnslan: “Það eru til afrit.”

“Mér er alveg sama, ég treysti þessu ekki og vildi gjarnan fá bréfið áritað, eins og ykkur ber lagaskylda til.” sagði ég kurteist, en ákveðið.

Bakvinnsla: “Já en, bréfið er í skjalageymslu” “Ekki mitt mál, viltu ekki renna þá eftir því...?”

Við sættumst á að áritun færi fram síðar.

Með greiðsluseðill í hendinni, gekk ég að gjaldkera og sýndi seðilinn.

“Ég ætla að fá að borga af þessu láni.”

Setti seðlana á borðið, gjaldkeri tók við þeim, skellti þeim í teljarann...

“Síðan þarf ég að fá áritun á skuldabréfið”

Gjaldkeri: “Nei, það geri ég ekki.”

“Víst” sagði ég og dró upp Tilskipunina, “þér ber skylda til þess samkvæmt lögum, þú ert að taka við greiðslu og ég á að fá áritun á skuldabréfið...”

Gjaldkeri fór vægast sagt í kerfi, hljóp úr básnum sínum, út úr stúkunni og inn til Skrifstofustjóra.  Jafn rjóðan gjaldkera hef ég ekki séð.

Eftir að skrifstofustjóri útibúsins hafði fengið beiðni mína, fór allt af
stað....  Viðskiptaþjónusta var sett í málið (lögfræðingur) og tími var ákveðinn fyrir
áritun.

Ég mætti á slaginu, og fékk að sjá bréfið, það hafði verið framselt til einhvers sjóðs, sem einhver á, í júlí 2008 (Lánið er tekið Nóv -05)

Nú hófst fjörið.  Sestir við borð voru: Ég, Skrifstofustjóri, Lögfræðingur og Bakvinnsla.

Fyrsta stimplun skall á bréfinu, og mér varð að orði: "Gott að stimpillinn var til!"

Lögfræðingur: "Hann var nú búin til fyrir þetta mál!"  Hann raðaði aftur bunka af löggiltum skjalapappír, sem viðbúið var að þyrfti fyrir allar áritanirnar.

Skrifstofustjóri: "Viltu láta árita stöðu lánsins eins og hún er í dag eða..?"

"Nei, ég vil fá áritun  frá framsalsdegi, því ekki getið þið áritað fyrir Skilanefndina"

Skrifstofustjóri: "Nei, en þú getur talað við þau."

"Það get ég ekki, því þið eruð með bréfið, það er ykkar að eiga við þau"

Undarlegur svipur kom upp á Bankafólkinu.

Upphófst nú mikið talnarím á mörgum blöðum, til að komast að stöðu lánsins við framsal 2008.  Einhver tala fannst og varð að áritun. Næsta tala var ekki eins góð, og eftir margar ferðir til "bakvinnslu" og tugi prentaðra síða, gafst Lögfræðingurinn upp, og játaði sig sigraðann, að sinni.

Allar útprentanir sem þau höfðu undir höndum, gáfu ekki rétta mynd af stöðu lánsins, og varð því að fresta fundi, fara niður í Höfuðstöðvar, láta lesa saman úr nokkrum kerfum rétta stöðu, og boða til  annars fundar. Átti þetta ekki allt að vera í Tölvunni?

Þetta tók tæpa klukkustund, og má búast við að þegar "Bakvinnslan" sest við að skrá, í minni viðurvist, allar 42 áritanirnar, að nokkur stund fari í það.  Ég reikna með að fylgja þessu eftir um hver mánaðarmót.

Mórallinn í sögunni er sá, að ekki þarf nema nokkur hundruð lánþega, sem mæta í sitt útibú, og krefjast áritunar, til að bankakerfið lamist.  Þar með erum við kominn með tromp, til að krefjast leiðréttingar á lánunum. 

Tilskipunin segir, að ef þú býður Bankanum greiðslu, en hann er ekki með bréfið við höndina, er Bankanum óheimilt að reikna vexti frá þeim degi er þú býður greiðslu. Bankinn verður að árita bréfið, ef þú vilt það, og vextir og dráttarvextir eru í frosti þangað til að svo er gert.

Það yrði því fljótt að myndast langur hali vaxtalausra lána, meðan beðið er eftir áritun.

---

Þetta er saga eins einstaklings, sem ákvað að bankinn ætti að fara að lögum.  Ég veit um fleiri sem hafa gert það og er Sturla Jónsson einn þeirra.  Þetta er sem sagt ekki saga hans. 

Mér sýnist í fljótu bragði að þessi banki hafi sett ekki undir 10 vinnustundir starfsmanna sinna í þetta mál.  Þetta var einn einstaklingur og eitt lán.  Hve marga þarf í viðbót til að setja allt á hliðina?

Tengill á tilmælin:  Tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf