Lánasjóður erlendra krónueigenda

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 15.8.2013.

Loksins er farið að renna upp fyrir þorra manna að gjaldeyrisstaða þjóðarinnar er grafalvarleg.  Ég hef reynt að vekja athygli á þessu nokkrum sinnum, en fyrstur til að benda á þetta var Haraldur Líndal Haraldsson, hagfræðingur.  Það var á vormánuðum 2009.  Þá lagði nánast enginn við hlustir og Seðlabankinn gaf út sérstaka greinargerð til að sýna hve auðvelt væri fyrir þjóðina að standa undir Icesave skuldbindingur Svavarssamningsins.  Þessi greinargerð er hin mesta skemmtilesning í dag.

Ég ætla ekki að fara að telja upp hversu oft ég og annað gott fólk höfum fjallað um þetta mál, en meðan ekkert er gert af viti, þá versnar staðan.  Nú sé ég að skipa á "afnámsstjóra" og verður forvitnilegt að sjá hver verður fyrir valinu.  Í mínum huga koma bara fimm til greina, þ.e. Gunnar Tómasson, Friðrik Jónsson, Lilja Mósesdóttir, Heiðar Már Guðjónsson og Frosti Sigurjónsson, en líklegast verður einhver annar valinn.

Meðan menn sitja bara og horfa á, þá gerist ekkert jákvætt.  Fjall fjármunanna sem vilja úr landi heldur bara áfram að stækka.  Þökk sé fáránlega háum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands sem með vaxtaákvörðunum sínum mokar bílhlössum af krónum til kröfuhafa sem bíða eftir að komast með peningana sína úr landi.  Þetta er svo vanvita stefna að maður veltir fyrir sér hvaða leynisamningur knýr seðlabankastjóra til halda vöxtunum svona háum.  (Fyrir þá sem halda að peningastefnunefnd ráði einhverju, þá ættu hinir sömu að lesa fundargerðir hennar.  Seðlabankastjóri hefur aldrei (svo ég muni eftir) lent í minnihluta þar, enda ætti hann þá að víkja sem seðlabankastjóri.)

Krónueignir útlendinga

Erlendir kröfuhafar (sem vafalaust eru stundum fyrirtæki í eigu Íslendinga bara skráð erlendis) og aðrir erlendir eigendur króna á Íslandi hljóta að fara að átta sig á því að eign þeirra er að stórum hluta töpuð eða bundin á Íslandi í mjög langan tíma.   Því fyrr sem þeir viðurkenna þessa staðreynd því betra er það fyrir alla.

Staðan er mjög einföld:  Ekki er til gjaldeyrir í landinu til að hleypa krónueignum úr landi miðað við núverandi gengi.

Lausnirnar eru ekki margar og tvær virðast blasa helst við:  1. Að menn taki á sig gríðarleg afföll, gegn því að fá að fara með restina úr landi á núverandi gengi.  2. Krónan verði látin sýna raungildi sitt og menn fái að fara með fé úr landi á þessu raungengi.

En þetta skilar nánast sömu niðurstöðu!  Já, það er nefnilega málið, að í evrum og dollurum, þá verður niðurstaðan líklegast hin sama, þó leið gæti orðið þeim hagstæðari.

Er til þriðja lausnin?

Ef erlendir krónueigendur spyrðu mig um ráðgjöf, þá væri ég fyrir löngu búinn að benda þeim á að setja hér upp lánasjóð og koma peningunum í vinnu til langs tíma.  Binda féð til 20-30 ára á lágum en stöðugum vöxtum. Þannig að í staðinn fyrir að Sigmundur og Bjarni fái peningana til afnota, þá stjórni krónueigendurnir því hvernig peningarnir yrðu notaðir.  Ekkert inngrip ríkisins, heldur væri einkaframtakið að ákveða að binda peningana hér á landi.  Ég veit að það myndi heyrast hljóð úr horni í bankakerfinu, en mér er nokk sama.  Þeir sem myndu missa vinnuna þar, gætu fengið starf hjá hinum nýja lánasjóði.

Köllum þetta fyrirbrigði Lánasjóð erlendra krónueigenda (LEK). Eignarhlutur hvers og eins í LEK færi eftir þeirri upphæð sem viðkomandi legði fram.  Ef viðkomandi vildi losa sig við eignarhlutinn, þá gæti hann gert það í viðskiptum við aðra eigendur í LEK eða einhverja sem vildu eignast hlut í LEK.  Þau viðskipti færu örugglega fram utan Íslands og því í nothæfum gjaldmiðli. 

Þar sem krónueigendurnir standa frammi fyrir að tapa eignum sínum með upptöku eða með mjög óhagstæðu gengi, þá myndu þeir sætta sig við að lána þá út í krónum til einstaklinga og fyrirtækja á mjög lágum vöxtum.  Lántakar myndu síðan greiða upp skuldir sínar hjá öðrum lánveitendum og þó svo að höfuðstóll lánanna myndi ekki lækka (eins og Sigmundur er búinn að lofa), þá myndi greiðslubyrði lánanna lækka gríðarlega mikið.  Vaxtabyrði af 10 m.kr. láni til 20 ára með 2% nafnvöxtum er rétt ríflega 2 m.kr. meðan 20% lægra verðtryggt jafngreiðslulán á 4,5% vöxtum í 2,5% verðbólgu væri með vaxta- og verðbótakostnað upp á ríflega 7,7 m.kr. og þar með 3,7 m.kr. í hærri heildarkostnað.  Munurinn væri svo meiri ef verðbólga ykist.

Ávöxtun LEK af 10 m.kr. láni á 2% vöxtum væri neikvæð þar sem verðbótarþáttur slíks láns er augljóslega hærri en vaxtatekjur eða 3,4 m.kr. og ávöxtunin því neikvæð um 1,4 m.kr. eða 14% á þessum 20 árum.  Eftir því sem verðbólgan væri meiri, ykist neikvæð ávöxtun og svo öfugt héldist verðbólgan lág.

Eina óvissustærðin hér er gengisþróun.  Það er áhætta sem eigendur LEK þyrftu að taka, en jákvæðar niðurstöður olíuleitar myndu örugglega valda styrkingu krónunnar yrði hún ennþá mynt landsins, þegar þar að kæmi.  Yrði aftur skipt um mynt innan 10 ára, þá er líklegt að tap vegna gengisbreytinga yrði frekar takmarkað.

Af hverju ættu krónueigendur að vilja þetta?

Hér hafa verið nefndir þrír kostir:

  1. 50-80% upptaka 

  2. Ný 50-60% gengisfelli

  3. Langtímaútlán á lágum vöxtum

Síðan má bæta við skiptigengisleiðinni, en hún er í reynd innifalin í leiðum 1 og 2 gagnvart krónueigandanum.  Hvaða leið myndi ég velja sem erlendur krónueigandi?  Án umhugsunar leið 3.  Ástæðan:  Fjármunir væru vissulega bundnir til langs tíma, en að baki væru traust veð.  Þó svo að byrjað yrði að bjóða lága vexti, þá er ekki þar með sagt að þeir yrðu svona lágir á nýjum lánum til langframa, en yrðu að vera það í upphafi.  LEK gæti líka orðið heildsölubanki, þ.e. fjármagnað útlán annarra fjármálafyrirtækja.  Stærstu kostirnir væru þó að þetta gæfi nánast örugglega af sér betri ávöxtun en kostir 1 og 2, hægt væri að losa fé með því að selja öðrum eigendum LEK sinn hlut fyrir gjaldgenga peninga og framtíðarmöguleika LEK eru miklir.  

Af hverju ættum Íslendingar að vilja þetta?

Kosturinn við þetta væri náttúrulega mikill fyrir lántaka, en myndi hrista nokkuð vel upp í fjármálakerfinu.  Hér myndaðist loksins alvöru samkeppni á fákeppnismarkaði.  Ég er ekki viss um að allir innlendir lántakar færðu lántökur sínar til LEK, en hugsanlega myndu mörg innlend fjármálafyrirtæki fjármagna sig í gegn um LEK.  Létt væri þrýstingnum á krónuna og stöðugleiki næðist í gjaldeyrismál þjóðarinnar, þar sem snjóhengjunum yrði í breytt úr ógn í framtíðarbyggingarefni.  Þar sem LEK væri einkarekinn lánasjóður, þá ættu viðskipti með eignarhluti í honum sér stað á markaði eða fyrirtækja á milli (gert ráð fyrir að hann uppfylli allar kröfur til slíkrar starfsemi).  Ef LEK er bæði skráð hér á landi og erlendis, þá gætu viðskipti með hlut í sjóðnum bæði átt sér stað í íslenskum krónum og erlendri mynt.

Kosturinn við þetta fyrir fjárfesta er að samkeppni á fjárfestingamarkaði myndi minnka.  Nú eiga krónueigendur háar fjárhæðir í ríkisskuldabréfum, íbúðabréfum og mörgum öðrum eignum, sem dregur úr möguleikum innlendra fjárfesta.  Til framtíðar, þegar gjaldeyrisstaðan batnar eða skipt hefur verið um mynt, þá geta innlendir fjárfestar komið að LEK og fyrri eigendur fært fé sitt þangað sem þeir vilja.

Í lokin

Ég er alveg viss um að margir sjá þessu allt til foráttu og þar á meðal fólk í fjármálakerfinu.  Síðan er örugglega margt í þessu sem er ekki nægilega vel hugsað og þetta þarf betri útfærslu.  En við erum að renna út á tíma.  Eins og Andri Geir sagði í færslunni sinni á Pressunni/Eyjunni eru ljósin farin að blikka.  Lognið sem við höfum búið við síðustu ár mun ekki endast mikið lengur.  Óveðursskýin hafa verið að hrannast upp og þau nálgast.  Þó hann verði ekki eins rosalegur og þessi í október 2008, þá gætu áhrif hans orðið varanlegra, þar sem fyrirstaðan er veikari.