Slagur SVÞ við íslenskan landbúnað

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 20.5.2013.

Ég er einn af þeim sem skil ekki slag Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) við íslenskan landbúnað.  Þessi slagur gengur út á að bera kostnað neytenda í örsamfélagi saman við kostnað neytenda í milljóna samfélögum. Mér finnst sá samanburður rangur og nær væri að skoðað verð á kjúklingabringum á Borgundarhólmi, norður Jótlandi og í Færeyjum.  En látum það liggja á milli hluta.

Hefur afnám innflutningshafta skilað lægra vöruverði?

Án þess að ég sé einhver talsmaður innflutningshafta, vörugjalda eða tolla, þá tel ég rétt að við veltum fyrir okkur hver ávinningurinn hefur verið af afnámi slíkra innflutningsheftandi aðgerða í gegn um tíðina.

Ég man þá tíð, þegar hér voru framleiddar eldavélar í samkeppni við innflutning.  Mér vitanlega er það ekki gert lengur.  Ég man þá tíð, þegar skór voru framleiddir á Íslandi í samkeppni við innflutning.  Mér vitanlega er það ekki gert lengur.  Ég man þá tíð, þegar á Íslandi var mjög blómleg fataframleiðsla.  Nú fer langmest framleiðsla á íslenskri fatahönnun fram í Kína, meira að segja af "íslenskri" ullarvöru.

Ég veit ekki til, að skóverð sé sambærilegt á Íslandi og í öðrum löndum, þó skóframleiðsla hafi lagst innanlands, þegar tollar og vörugjöld voru afnumin.  Ef eitthvað er, þá er skóverð mun hærra.  Þess vegna kaupa íslenskir neytendur sér nýja skó, þegar þeir ferðast til útlanda.  Sama á við um fatnað.  Ekki kannast ég heldur við að eldavélar séu ódýrari á Íslandi en í nágrannalöndum okkar.  Rökin fyrir því að afnám hafta leiði til lægra vöruverðs virðast ekki standast.  Hugsanlega gerðist það tímabundið, en íslenskir neytendur (a.m.k. þeir sem eru á aldri við mig) ættu flestir að hafa áttað sig á því, að verð vöru ræðst ekki af kostnaðarverði eða tollverði.  Það ræðst fyrst og fremst að því hvað seljandi kemst upp með.

Íslenskur fataiðnaður nærri horfinn

Ég er meira og minna alinn upp í íslenskum iðnaði, Prjónastofunni Iðunni hf. á Seltjarnarnesi.  Þegar það fyrirtæki lagði upp laupana vorið 1988, þá töpuðust um 30 störf í íslenskum iðnaði.  30 heimili misstu tekjur.  Ríkissjóður og sveitafélög misstu af skatttekjum 30 einstaklinga.  Vissulega fengu margir af þessu einstaklingum fljótlega störf, en í staðinn fengu aðrir ekki þau störf. 

Ein höfuðástæða fyrir því að fyrirtækið hætti framleiðslu var hrun í innlendri eftirspurn.  Það þótti nefnilega ekki fínt að kaupa íslenskt.  Kaldhæðnin í þessu var að erlend eftirspurn var fín.  Peysurnar fengust í Kaupmannahöfn og London, en ekki á Húsavík eða Akureyri!  Og ef ætlunin var að selja þær "fínni" verslunum Reykjavíkur, þá mátti ekki sjást að þær væru framleiddar á Íslandi.  Eigandi einnar slíkrar verslunar, sagði einu sinni við móður mína, að hún hefði keypt flottustu peysuna sem hún fann í London.  Þegar hún kom inn á hótelið sitt, fór hún að skoða nánar þessa flottu peysu og komst að því, að hún var framleidd á Seltjarnarnesi!

Iðnaðardeild Sambandsins var lögð niður nánast eins og hendi væri veifað.  Mörg hundruð störf glötuðust á Akureyri og stór hluti þeirra fór á atvinnuleysisskrá.  Sama gerðist þegar framleiðsla hinna og þessara iðnhönnunar var flutt úr landi og eldavélaframleiðslunni var hætt.  Það koma ekki önnur störf í staðinn fyrir þau sem eru lögð niður.  Fólkið sem missir vinnuna sækir í störf sem hefðu nýst fólki í atvinnuleit.  Það er því tap fyrir samfélagið, þegar störf eru lögð niður.  Störfunum sem standa undir rekstri samfélagsins fækkar.  Höfum í huga, að hefði þessi starfssemi ekki lagst af á Íslandi, ýmist með því að fyrirtækjunum var lokað, framleiðslunni hætt eða framleiðslan flutt úr landi, þá væru kannski 2-3000 fleiri störf í iðnaði í landinu en raunin er.

Það munar um 2-3000 störf.  Munurinn á því að hafa þau og hafa þau ekki, gæti, svo dæmið sé tekið, birst í 2-3% muni á virðisaukaskatti (án þess að ég hafi reiknað það neitt sérstaklega). 2-3000 manns á atvinnuleysisskrá kosta 340-510 m.kr. í atvinnuleysisbætur á mánuði.  (Setti hér í fljótfærni "á ári".)

Er SVÞ treystandi?

Einhverra hluta vegna hafa SVÞ ákveðið að taka slaginn um tvær vörur, þ.e. kjúklingakjöt og svínakjöt. En mér segir svo hugur að þetta sé bara fyrsta átakalínan.  Næsta verður um annan innflutning landbúnaðarvöru.  Samtökin ráða því alveg hvar er slegist, en út frá sjónarhorni neytenda, þá væri gott að sjá hvatningu til lækkunar álagningar.  Er það eðlilegt að raftæki kosti 10-40% meira á Íslandi en í Danmörku?  Gilda einhver önnur lögmál um verðlagningu raftækja en kjúklinga- og svínakjöts?

Síðan er það þetta með verðsveiflur úr takt við sveiflur á gengi.  Mér virðist sem allar veikingar á gengi komi strax fram í vöruverði, þó engar vörur hafi verið fluttar inn, en styrkingin lætur bíða eftir sér, þó um sé að ræða vöru sem kemur til landsins oft í viku.

Loks er þetta spurningin um hvort lágt innkaupsverð skili sér í verði til neytenda.  Ég hef séð vörureikning fyrir bæði skóm og buxum, þar sem innkaupsverð var í kringum 50 USD.  Þetta var meðan USD var í kringum 60 kr., þannig að innkaupsverðið var um 3.000 kr.  Og hvað ætli verð vörunnar hafi verið út úr búð? 20-24.000 kr.!  Þetta var 7-8 falt innkaupsverð vörunnar.  Sumar verslanir eru svottan aular að fjarlægja ekki erlendar verðmerkingar af vörunni sem seld er.  Í einni verslun stóð kyrfilega merkt að buxur kostuðu 25 GBP eða tæpar 4.400 kr. á þeim tíma.  Viðkomandi verslun vildi fá 12.200 kr.  Í hillum stórverslana má finna pakkningar þar sem segir að 30% viðbót hafi verið bætt í pakkninguna og viðbótin sé ókeypis.  Ekki man ég eftir einu tilfelli, þar sem það reyndist rétt.  Stundum stóð "litla" pakkningin við hlið þeirrar "stóru" og ekki var annað að sjá, en að rukkað væri fyrir 30% viðbótina fullu verði.  Ef spurt var um hvernig á því stæði, þá komu heldur aumingjaleg svör um að þetta væri bara svona.

Hvað er best fyrir Ísland?

Afleiðingarnar af því að framleiðsla hefur færst úr landi er að færri hafa tekjur af framleiðslunni.  Tekjurnar hafa færst til útlanda og til farmflytjenda.  Fjölbreytnin í störfum hefur kannski ekki minnkað, en úrvalið af fjölbreyttum störfum er ekki eins mikið.

Augljóslega er best fyrir Ísland, að í landinu sé sem fjölbreyttust framleiðsla afurða sem annað hvort eru fluttar úr landi og skapa þannig gjaldeyristekjur eða eru nýttar innanlands og spara þannig gjaldeyrisútgjöld.  Innflutt vara sem er ódýrari en sambærileg innlend framleiðsla, þarf ekki að vera hagkvæmari fyrir þjóðarbúið.  Ástæðurnar eru nokkrar, en tvær eru veigamestar.  Sú fyrri er að innflutt vara setur þrýsting á krónuna til veikingar.  Svo lengi sem ég hef munað eftir hefur of mikill innflutningur líklegast verið helsta ástæða fyrir veikingu krónunnar og leitt af sér gengisfellingar á gengisfellingar ofan.  Hin síðari er hve mikið af vöruverðinu myndast innanlands.  Þetta skiptir miklu máli, þar sem þetta er sá peningur sem verður eftir í hagkerfinu vegna vörunnar.  Þetta er sá peningur sem fer út í veltuna og skapar störfin.  Þetta er loks sá peningur sem ríki og sveitafélög fá tekjur sínar af.  Þannig er auðvelt að færa rök fyrir því að forðast eigi innflutning á vörum sem innanlandsframleiðsla getur annað, þó svo að verð innlendu framleiðslunnar sé eitthvað óhagstæðara en þeirrar innfluttu. 

Þessi þrjú atriðin eiga við um margt fleira en landbúnaðarframleiðslu.  Þau eiga við um allar vörur sem hægt er að framleiða með hagkvæmum hætti hér á landi.  Þau eiga líka við um skipasmíðar svo dæmi sé tekið.  Hvað ætli hefði verið hægt að skapa mörg störf hér á landi, ef varðskipið Þór hefði verið smíðaður í Slippstöðinni á Akureyri?  Hvað ætli ríkissjóður hefði haft miklar skatttekjur af launum starfsmannanna?  Hvað ætli hefði sparast mikið af verðmætum gjaldeyri?  (Nú veit ég ekkert um það hvort þetta hefði verið mögulegt.)

Mjög auðvelt er að reikna út kostnað fyrir samfélagið af "ódýrum" innflutningi.  Læt ég það þó hagfræðingum eftir.  Hitt veit ég, að 10-15% lækkun á verði einnar vörutegundar (eins og mér sýnist eiga við um kjúklingakjöt) gæti auðveldlega komið í bakið á neytendum í formi hækkunar annarra vörutegunda (vegna veikingar krónunnar) eða vegna hækkunar skatta, t.d. til að mæta kostnaði vegna tapaðra starfa.

Með fullri virðingu fyrir Samtökum verslunar og þjónustu, þá held ég að fólk þar verði að horfa aðeins lengra en á naflann sinn.