Hæstiréttur að missa sig?

Færslan var fyrst birt á Möggabloggi höfundar 6.6.2014.

Ég get ekki annað en spurt mig þessarar spurningar í fyrirsögn pistilsins.  Er Hæstiréttur að missa sig?

Í síðustu viku gekk dómur í máli nr. 338/2014, kröfu Landsbankans um að bú Ólafs H. Jónssonar verði tekið gjaldþrotaskipta, en Ólafur áfrýjaði dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í þá veru.  Gjaldþrotaúrskurðurinn er byggður á því að einn dag í september 2013 hafi farið fram árangurslaust fjárnám hjá Ólafi.  Gerð sem samkvæmt frétt Morgunblaðsins, Ólafi var ekki kunnugt um, en látum það gott heita.

Það eru hins vegar þessi orð Hæstaréttar sem mér er ómögulegt að skilja:

Að þessu virtu verður að líta á hið árangurslausa fjárnám, sem gert var hjá sóknaraðila 2. september 2013, sem sönnunargagn um ógjaldfærni hans. Breytir í því sambandi engu þótt skuldin sem leiddi til fjárnámsins hafi verið greidd. Á hinn bóginn getur sóknaraðili varist kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti með því að sýna fram á að hann sé allt að einu fær um að standa skil á skuldbindingum sínum eða verði það innan skamms tíma, sbr. upphafsákvæði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.  (Feitletrun er mín.)

og síðan:

Þótt sóknaraðili haldi því fram að krafan sé fyrnd eða fallin niður hefur sá ágreiningur málsaðila ekki verið til lykta leiddur fyrir dómstólum. Af þessum sökum verður ekki horft framhjá kröfunni við mat á því hvort sóknaraðili sé fær um að standa skil á skuldbindingum sínum eða verði það í bráð.

Hér eru tvö atriði sem ég skil ekki og hef ég talað við lögfræðing sem tekur undir það með mér.

  1. Er það ekki sönnun á gjaldfæri að hafa greitt kröfuna sem árangurlausa fjárnámið gekk út á?  Hvernig er hægt að greiða kröfuna upp, ef gjaldfærið er ekki fyrir hendi?  Hæstiréttur bendir á að aðrar kröfur séu með veðtryggingu og hvað stendur þá eftir?

  2. Hæstiréttur samþykkir að krafa sem ekki hefur verið sannreynd fyrir dómi að sé réttmæt sé grunnur að því að úrskurða um gjaldþrot.  Ég hefði haldið, að Hæstiréttur hefði átt að vísa málinu frá eða aftur til héraðs, þar sem augljóslega er ágreiningur um kröfuna, Landsbankinn sæki á Ólaf um hvort krafan sé réttmæt, verði niðurstaðan Landsbankanum í hag, þá geti hann notað hana sem grunn í nýrri beiðni um að taka búið til gjaldþrotaskipta.  Er það virkilega svo að þeir sem leggja fram kröfu um gjaldþrotaskipti þurfa ekki að sanna, að kröfur þeirra eigi við rök að styðjast og upphæðin sé sú sem þeir halda fram?  Ef svo er, þá getur kröfueigandi sem sér fram á að verða undir í ágreiningsmáli einfaldlega krafist  gjaldþrotaskipta og þannig hefnt fyrir að verða gefa eftir.

Líklegast er rétt að halda áfram með "rökstuðning" Hæstaréttar:

Að teknu tilliti til þess verður ekki talið að sóknaraðila hafi tekist að hnekkja líkum fyrir ógjaldfærni sinni sem leiddar verða af fjárnámsgerðinni 2. september 2013. 
Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur og þarf þá ekki að taka afstöðu til þess hvort aðrar kröfur varnaraðila, sem að framan greinir og enn eru óuppgerðar, séu nægilega tryggðar. (Feitletrun er mín.)

Þó ég sé ekki löglærður, þá sýnist mér Hæstiréttur teygja sig langt út fyrir það sem hann er spurður um.  Lögð var fram krafa um gjaldþrotaskipti vegna kröfu sem hefur verið greidd.  Samt telur rétturinn að honum hafi ekki "tekist að hnekkja líkum fyrir ógjaldfærni sinni".  Er rétturinn farinn að velta fyrir sér hvort Ólafur gæti hugsanlega í einhverju öðru tilfelli ekki greitt.  Ég hélt að rétturinn yrði að dæma samkvæmt staðreyndum, en ekki líkum.  Höfum í huga að rétturinn lítur framhjá öllum öðrum kröfum sem á Ólaf eru gerðar.  Af hverju á Ólafur að sanna gjaldfærni sína gagnvart kröfum sem rétturinn tekur ekki tillit til?  Ef þetta er löghyggja, þá er eitthvað að lögunum.

Ormagryfjan hefur verið opnuð

Ég er ansi hræddur um að Hæstiréttur hafi opnað ormagryfjuna.  Allir þeir aðilar sem hafa lent í árangurslausu fjárnámi geta nú lent í því að krafist verði gjaldþrotaskipta á búi þeirra þrátt fyrir að skuldin hafi verið gerð upp.  Fjármálafyrirtæki og innheimtufyrirtæki hafa fengið opið skotleyfi  á stóran hóp Íslendinga og geta þau með geðþóttarákvörðunum valið einstaklinga sem þeim er illa við.  Kröfu sína get þau stutt með öðrum kröfum sem ágreiningur er um.  Kröfuhafar þurfa nefnilega ekki að sanna að krafan sé gild.  Nóg er að hún sé sett fram.  Í þessu máli virðist mér t.d. að séu kröfur sem gætu fallið undir fordæmi dóma Hæstaréttar sjálfs vegna gengistryggðra lána!  En Hæstarétti er sama.  Það kemur honum ekki við hvort kröfurnar eigi við rök að styðja!

Já, nú eru allir sem einhvern tímann hafa lent í árangurlausu fjárnámi berskjaldaðir fyrir því að einhverju kröfuhafa, sem lent hefur í slíkri árangurslausri gerð, detti í hug eftir 10, 20 eða 30 ár að óska eftir því að bú viðkomandi verði tekið til gjaldþrotaskipta, þrátt fyrir að krafan hafi verið greidd.  Og ekki bara átt á hættu að fá slíka kröfu á sig, Hæstiréttur hefur sett fordæmi um að vegna þess að einhvern tímann fyrir löngu hafi viðkomandi ekki verið gjaldfær, þá gildi það um aldur og ævi.

Eins og ég segi, þá er ég ekki löglærður, en get lesið lög.  Sé Hæstiréttur að dæma að lögum, þá verður að breyta lögunum. 

Þetta var ekki eina svona málið

Guðmundur Ásgeirsson setti inn athugasemd hjá mér um annað svona rugl:

Sæll Marinó og takk fyrir góð skrif eins og ævinlega.

Ég var að lesa síðustu færslu á undan þessari frá 6.6.2014 (Hæstiréttur að missa sig?) en það hefur lokast fyrir athugasemdir við hana svo ég vona að þér sé sama þó ég komi þessu á framfæri hér.

Athugaðu endilega líka þennan dóm frá því í fyrra:

http://www.haestirettur.is/domar?nr=9076

Þarna lá fyrir í málinu að fjárnámsþoli hafði ekki verið löglega boðaður til fyrirtöku á fjárnámasbeiðni bankans. Boðunin var birt öðrum aðila og í öðru sveitarfélagi en fjárnámsþoli átti þá lögheimili.

Fjárnámsgerðin fór fram engu að síður, að fjárnámsþola fjarstöddum þar sem hann hafði ekki fengið boðunina, og varð því árangurlaust. Með það upp á vasann krafðist bankinn gjaldþrotaskipta á búi fjárnámsþolans, sem tók til varna og byggði m.a. á því að fjárnámið væri ógilt þar sem boðun í fyrirtöku þess hefði aldrei borist sér og hann ekki orðið þess áskynja fyrr en gerðin var yfirstaðin.

Í reifun á niðurstöðu dómsins segir m.a.:

Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, sagði m.a. að hvað sem liði fullyrðingum B þætti ljóst að skuldabréfið hafi verið í vanskilum. Yrði að líta á hið árangurslausa fjárnám sem gert hafði verið hjá B sem sönnunargagn um ógjaldfærni hans og skipti í því sambandi engu þótt einhverjir annmarkar kynnu að hafa verið á framkvæmd þess enda hefði B ekki nýtt sér þau úrræði sem hann hefði haft samkvæmt lögum nr. 90/1989 hvað gerðina varðaði. ...

Fjárnámsþolinn gat auðvitað ekki gripið till neinna slíkra úrræða þar sem bankinn var þá nýbúinn að setja heimili hans OG vinnustað á uppboð og reka hann út á götuna atvinnulausan. Samt var boðunin í fjárnámið birt á því heimilisfangi, þó bankinn hafi vel mátt vita að þar bjó enginn lengur enda var bankinn þá sjálfur orðinn eigandi fasteignarinnar! Fyrir vikið varð fjárnámsþoli ekki áskynja um gerðina fyrr en eftir að kærufrestur var liðinn, og gat því ekki höfðað ógildingarmál.

- Í stuttu máli : gjaldþrot á grundvelli ólögmæts fjárnáms.