Dómstólar og neytendaréttur

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 8.2.2015.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort neytendaréttur sé yfirhöfuð kenndur við lagadeildir háskóla á Íslandi.  Ástæðan er, að frá miðju sumri 2010 hafa gengið fjölmargir dómar í héraði og Hæstarétti, þar sem mér finnst verulega skorta á skilning dómara á þýðingu og tilgangi neytendaréttar.  Mig langar hér að fjalla um nokkra slíka dóma.  Ég geri mér grein fyrir að færslan er löng, en svo verður bara að vera.  Helst hefði hún þurft að vera mun lengri, því mér finnst ég bara rétt rispa yfirborðið.

Dómur 471/2010 um vexti áður gengistryggðra lána

Málið snýst um uppgjör á bílasamningi.  Lánið var tekið í nóvember 2007 og fór fljótlega í vanskil.  Vegna vanskilanna var bílnum skilað og snýst málið um það hve mikið lántaki á eftir að greiða Lýsingu.  Óumdeilt er að lántaki er í skuld, en spurning er hve mikil hún er.

Þessi dómur markaði viss tímamót fyrir ruglið.  Eftir að hann gekk, þá skrifaði ég færsluna Neytendavernd á Íslandi - Minningarorð. Byrjaði ég færsluna með eftirfarandi orðum:

Til grafar var borin í dag neytendavernd á Íslandi.  Banamein hennar var dómur Hæstaréttar 16. september sl.  Hinstu líkræðu hélt Héraðsdómur Reykjavíkur 28. september 2010 og sami dómur sá um greftrun 29. september.  Blóm og kransar skulu lagðir við dyr Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar Íslands.  Þeir sem vilja minnast neytendaverndar á Íslandi er líka bent að senda erindi til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, og EFTA dómstólsins, þar sem framferði dómstóla er mótmælt.

(Dómarnir sem gengu í Héraðsdómi Reykjavíkur 28. og 29. september 2010 urðu síðan að Hæstaréttardómum nr. 603/2010 og 604/2010.)

Dómur 471/2010 er algjör nauðgun á neytendarétti samkvæmt tilskipun 93/13/EBE.  Skýringin er einföld:  Dómstóli er óheimilt, þó landslög geti hugsanlega leyft það í einhverjum tilfellum, að skipta út óréttmætum, í þessu tilfelli ólöglegum, skilmála neytendasamnings fyrir annan.  Þetta má gera í tilfellum þar sem hvorugur samningsaðili er neytandi, en ekki þegar annar aðilinn er neytandi.

Hæstiréttur komast að því, án þess að hafa neitt annað en órökstunda fullyrðingu lögmanns Lýsingar, að LIBOR vextir væru órjúfanlegir frá gengistryggingunni.  Hæstiréttur étur þetta upp eftir lögmanni Lýsingar í orðunum:

Í þessu sambandi verður að gæta að því að fullljóst er að slík vaxtakjör af láninu gátu ekki komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess, sem nú liggur fyrir að óheimilt hafi verið að kveða á um.

Mér vitanlega voru ekki lögð fram nein gögn þessu til stuðnings og því verður þetta seint "fullljóst".  Kynnti Hæstiréttur sér fleiri lánssamninga?  Kannaði Hæstiréttur hvernig svona samningum er háttað í öðrum löndum?  Lagði Lýsing fram slík gögn?  Svör við öllum þessum spurningum er "Nei".  Hvort var Hæstiréttur svona trúgjarn eða var hann að fara eftir fyrirmælum frá Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirliti?

En þetta var ekki nóg fyrir Hæstarétt. Hann greip til laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Í 2. gr. laganna segir:

Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Einnig verður vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um. Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.

Þetta þýðir að ákvæði II. og IV. kafla eru frávíkjanleg, en önnur ákvæði laganna eru ófrávíkjanleg.  Hæstiréttur ákvað hins vegar að nýta sér ákvæði frávíkjanlegra greina (3. og 4. greina í II. kafla) í lögunum og víkja til hliðar þeim greinum sem voru ófrávíkjanlegar!  Ákveðin snilld fólgin í því eða hitt þó heldur.

En meistaraverkið var ekki fullkomnað.  Það fellst í því, að mál sem ekki felur neitt í sér, sem gæti talist fordæmisgefandi fyrir nánast öll önnur gengistryggð lán með ólöglegu gengistryggingarákvæði, verður að fordæmi fyrir ÖLL slík lán.  Eins og áður segir, var lánið í dómnum bílalán tekið í nóvember 2007 sem fór mjög fljótlega í vanskil, bílnum hafði verið skilað og því um uppgjör að ræða.  Miklu skiptir líka, að málið var handvalið af Lýsingu án nokkurri aðkomu eins eða neins nema Lýsingar.  Þar sem þessu máli hafði verið stefnt áður höfðu dómskröfur þegar verið að mestu skilgreindar, Lýsing vissi hver lögmaður stefnda var og Héraðsdómur Reykjavíkur lét sama dómarann fá málið og fékk það þegar fyrst var stefnt.  Því má segja að Lýsing valdi málið, dómskröfur, lögmann stefnanda og dómarann.  Síðan lagði lögmaður Lýsingar fram órökstuddar fullyrðingar sem auk þess hafa líklegast ekkert fordæmisgildi fyrir aðra áður gengistryggða lánssamninga. 

Hæstiréttur telur sig ekki þurfa að hugsa eða skoða forsendur dóma sinna.  Hann bara dæmir í miklu hugsunarleysi í eitt skipti og fer á sjálfstýringuna eftir það.  Nema að hann þurfti að éta ofan í sig hluta vitleysunnar í dómi nr. 600/2011.

Kjánalegasti hlutinn varðandi það, að dómur nr. 471/2010 er talinn fordæmisgefandi, er að ekki notuðu allir lánveitendur LIBOR vexti sem viðmið.  Þannig notaði Kaupþing eigin vaxtakörfu, SP-fjármögnun notaði líka sína vaxtakörfu og örugglega var svo um fleiri.  Það eru því ENGIN rök fyrir því að vextir þeirra lána séu ekki nothæfir vegna þess að þeir eru ekki skráðir í London.

Dómur 604/2010 um vexti áður gengistryggðra fasteignalána

Þetta er fyrri dómur Hæstaréttar í máli Elvíru og Sigurðar gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum/Dróma (FF).  Í þessu máli notar Hæstiréttur sem fordæmi fyrir niðurstöðu sinni, dóm nr. 471/2010.  Hann segir þó í dómnum að ákvæðið geti bara gilt til framtíðar og tekur dómstóllinn ekki afstöðu til uppgjörs vegna fortíðar.  Um það er fjallað í dóm nr. 600/2011 sem áður hefur verið vísað til.

Í dómnum birtist ótrúleg, mér liggur við að segja, fáviska Hæstaréttar á neytendarétti:

Þá er haldlaus sú málsástæða sóknaraðila að greiðsluáætlun, sem fylgdi hverjum lánssamningi, hafi verið hluti af samningnum eða að í henni hafi falist loforð varnaraðila um að fjárhæð einstakra afborgana yrði sú sem þar kom fram óháð forsendum um lánskjör, sem að framan er lýst.

Nú vill svo til að bæði EFTA-dómstóllinn í dómum sínum 28. ágúst 2014 og 28. nóvember 2014 lagði mikla áherslu á einmitt inntak greiðsluáætlunar og eins hefur Evrópudómstóllinn margoft komist að þeirri niðurstöðu að greiðsluáætlun sé lykilplagg í neytendalánssamningi.  Hæstiréttur hins vegar ýtir greiðsluáætluninni til hliðar eins og um ómerkilegan skeinispappír sé að ræða.

Ekki voru allir Hæstaréttardómarar öryggir í sinni sök og vildi Ólafur Börkur Þorvaldsson að leitað yrði álits EFTA-dómstólsins um þetta atriði.  Það var greinilega fyrir neðan virðingu annarra dómara í málinu, enda gamlir hundar sem setið höfðu í réttinum í langan tíma.  Hefði Hæstarétti borið sú gæfa til að leita álits EFTA-dómstólsins í febrúar 2011, þá væri líklegast búið að ljúka öllum deilumálum varðandi áður gengistryggð lán.

Hæstiréttur vitnar svo hugsunarlaust í dóm nr. 471/2010 án þess að skilja að um gjörólíkar aðstæður er að ræða.  Fyrir þá sem ekki skilja þessa gagnrýni mína er rétt að skýra hana betur út:

1. Eins og áður sagði var dómur 471/2010 uppgjörsmál vegna bifreiðar sem þegar hafði verið skilað og aðeins var greitt af í stuttan tíma.  Sem sagt uppgjör á skammtímaláni, þar sem nánast allar leiðir lækkuðu greiðslu lántaka.

2. Dómur 604/2010 var um húsnæðislán til 30 ára sem greitt hafði verið af skilvíslega allan tímann.  Breyting á vaxtakjörum aftur í tímann gat því haft verulega fjárhagslega byrði fyrir lántakann.

Þetta tvennt skiptir miklu máli hvað varðar neytendarétt.  Dómur getur nefnilega ekki gert neytanda verr settan en hann var áður.  Raunar segja vaxtalögin þetta líka samanber tilvísun í 2. gr. laga 38/2010 að ofan:

Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.

En réttmæti Hæstaréttar er svo blint að það sér ekki rökleysuna í málflutningnum.

Við erum því með tvö alvarleg brot gegn neytendarétti í þessum dómi, annað að hnusa greiðsluáætlun sem grunnskjal samnings, hitt að fara ekki eftir því ófrávíkjanlega ákvæði vaxtalaganna, að ávallt sé heimilt að láta skuldara njóta vafans.

Sem betur fer, þá er Elvíra sérfræðingur í Evrópurétti og þekkir neytendaverndartilskipanir ESB líklegast betur en nokkur annar á Íslandi, þar með taldir allir dómarar Hæstaréttar fyrr og síðar.  Hún vissi því að Hæstiréttur var að brjóta á þeim og því kom mál nr. 600/2011 til kasta réttarins ári síðar.  Þar varð Hæstiréttur að éta ofan í sig stóran bita af dómi nr. 471/2010, en ekki nógu stóran og frá þeim tíma hefur rétturinn verið að reyna allt hvað hann getur að ná þessum bitum upp úr hálsinum á sér.

Dómur nr. 170/2014 vextir á frystingartíma

Ég hef séð marga einkennilega dóma frá Hæstarétti, en þessi slær allt út.  Það snýst um það hvaða vexti eigi að reikna á frystingartíma, þar sem tekið er fram í skilmálabreytingunni, að vextir bætist á eftirstöðvar að frystingartíma loknum.  Dómur gekk 25. september 2014.

En best er að fara beint í steypuna.  Hún er eftirfarandi:

Eins og aðilarnir hafa hvort fyrir sitt leyti ráðstafað sakarefninu í máli þessu stendur ágreiningur þeirra samkvæmt framansögðu um það eitt hvort líta eigi svo á að vextir af skuld stefndu við áfrýjanda vegna tímabilsins 1. október 2008 til 28. júní 2010 hafi verið greiddir með því að svo hafi samist með þeim að þessir vextir yrðu lagðir við höfuðstól skuldarinnar, sem hafi hækkað sem því nam. Álitaefni um þetta eru hvorki lögð fyrir dóminn með tilliti til þess hvort fyrrgreindir samningar aðilanna um skilmálabreytingar bindi hendur þeirra um fjárhæð vaxtanna né hvort annað þeirra geti losnað undan slíkri skuldbindingu eða fengið henni vikið til hliðar eða breytt eftir reglum fjármunaréttar um ógilda löggerninga.

Ég ætla að endurtaka seinni hluta málsgreinarinnar, þar sem steypan er:

Álitaefni um þetta eru hvorki lögð fyrir dóminn með tilliti til þess hvort fyrrgreindir samningar aðilanna um skilmálabreytingar bindi hendur þeirra um fjárhæð vaxtanna né hvort annað þeirra geti losnað undan slíkri skuldbindingu eða fengið henni vikið til hliðar eða breytt eftir reglum fjármunaréttar um ógilda löggerninga.

Hæstiréttur segir, að þar sem málsaðilar hafi ekki lagt fyrir réttinn hvort skilmálabreytingin sé gilt skjal, þá er ekki hægt að taka tillit til gildi skilmálabreytingarinnar!  Rétturinn býr til ágreining milli aðila, sem ekki er fyrir hendi.  Hann ákveður að undirritaður samningur milli málsaðila hafi ekkert gildi af því að málaðilar báðu ekki um blessun Hæstaréttar.

Í mínum huga, þá ógilti Hæstiréttur með þessu alla samninga sem ekki hafa verið bornir undir réttinn.  Svo einfalt er það.  Sé Hæstiréttur ekki spurður um það hvort undirritaðir og þinglýstir samningar eru gildir, þá eru þeir ekki í gildi. Til að draga aðeins úr dramanu, þá er ljóst að ALLAR skilmálabreytingar samninga eru óbindandi, samkvæmt dómnum, fyrir kröfuhafa, án tillits til þess hvort kröfuhafi hafi haft frumkvæði að því að bjóða slíka skilmálabreytingu eða hann undirritað hana og þinglýst henni á samninginn. 

Hvað Hæstarétti gekk til í þessum dómi, er gjörsamlega óskiljanlegt.  Niðurstaðan er að hann afnam samningsfrelsið og ógilti tugþúsundir, ef ekki hundruð þúsunda, skilmálabreytinga sem gerðar hafa verið, ekki bara vegna áður gengistryggðra lána, heldur ALLAR skilmálabreytingar sem gerðar hafa verið á lánasamningum a.m.k. 10 ár aftur í tímann.

Dómur nr. 349/2014 um yfirdráttarheimild

Málið snýst um það hvort lánveitandi hafi staðið við sinn þátt í samningsgerð vegna yfirdráttarheimildar.  Dómur gekk 22. desember 2014.

Ég held helst að skrifa megi niðurstöðu þessa dóms á of mikið álag á Hæstarétti.  Ég skrifaði bloggfærslu um málið 29. desember sl. með fyrirsögninni Hæstiréttur sleginn lesblindu, óútskýranlegri leti eða viljandi fúski?  Segir fyrirsögnin eiginlega alls sem segja þarf.

Í dómi nr. 170/2014 þá vildi Hæstiréttur ekki viðurkenna skriflega, þinglýsta samninga.  Í þessu máli, þá eru munnlegir samningar allt í einu orðnir þeir bestu í heimi og almenn upplýsingagjöf á vefsíðu fullkomin sönnunarfærsla um að upplýsingar hafi komist til skila.  Hafa skal í huga, að aðeins nokkrum vikum áður en dómurinn gekk, þá úrskurðaði EFTA-dómstóllinn, að upplýsingar á vefsiðu væri ÓFULLNÆGJANDI upplýsingagjöf!  Greinilegt að Hæstiréttur telur sig ekki þurfa að fara eftir leiðbeiningum EFTA-dómstólsins.

En málið snerist ekki bara um hvort að lántaki hafi verið meðvitaður um hvaða þýðingu það hefði að vera með yfirdráttarheimild.  Það snerist fyrst og fremst um skyldur lánveitanda gagnvart neytanda.  Að lánveitandi þyrfti að standa í upplýsingagjöf til lántakans, gera honum grein fyrir ýmsum lykilatriðum varðandi kostnað lántaka af notkun heimildarinnar.  Nei, Hæstiréttur fer í útúrsnúninga, sem koma málinu ekkert við, og hunsar á óskiljanlegan hátt lagaskýringar með því að fullyrða ranglega að þær séu ekki til staðar.

Í mínum huga ber þessi dómur vitni um annað hvort ótrúlega fáránlegt fúsk í vinnubrögðum réttarins eða eitthvað sem ég vil helst ekki hugsa og læt því vera að nefna.  Hvernig sem á allt er litið, þá virti Hæstiréttur að vettugi bæði íslensk lög og tilskipanir EES samningsins um neytendalán.

Héraðsdómar sem gengu föstudaginn 6. febrúar 2015

Þrír héraðsdómar voru birtir á vef Dómstólaráðs föstudaginn 6. febrúar sl.  Tveir, nr. E-4521/2013 og Y-12/2012, voru um verðtryggð húsnæðislán, en sá þriðji, E-4994/2013, er um námslán.  Allir eiga það sammerkt að héraðsdómarar víkja, að mínu mati, frá reglum neytendaréttar.

Þessir dómar eiga allir eftir að fara fyrir Hæstarétt, enda annað óhugsandi.  Húsnæðislánadómarnir voru bæði sigur fyrir neytendur og áfall.  Sigurinn fellst í því að viðurkennt er að húsnæðislán séu neytendalán og því gilda lög og tilskipanir um neytendalána um húsnæðislán.  Áfallið felst í því að báðir dómarar hunsa algjörlega skilgreiningu 3. greinar tilskipunar 93/13/EBE á því hvernig beri að meta hvort skilmáli neytendalánasamnings teljist óréttmætur.  En í 3. gr. segir:

1. Samningsskilmáli sem hefur ekki verið samið um sérstaklega telst óréttmætur ef hann, þrátt fyrir skilyrðið um „góða trú“, veldur umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna samningsaðila samkvæmt samningnum, neytanda til tjóns.

Hvernig dettur héraðsdómurum að hunsa þetta ákvæði sem er kjarninn í rökunum gegn verðtryggðum neytendasamningum?

Er einhver í vafa um að verðtryggðir neytendasamningar séu þess eðlis, að neytandinn beri ALLTAF tjónið af verðbólgu? Um það og aðeins það snýst þetta mál. Þetta snýst ekki um að lántaki þekki eðli verðtryggingarinnar. Að hann viti að verðtryggt lán geti hækkað með verðbólgu. Þetta snýst um það að neytandinn ber EINN tjónið af verðbólgunni og ekkert annað. Þess vegna er það blekking hjá lánveitanda, að benda ekki lántaka á líklega byrði sína af verðtryggingunni, að segja honum ekki fyrir fram hvert líklegt tjón hans gæti orðið. En þó svo að lántaki hafi gert það, þá getur slíkt samningsákvæði talist óréttmætt valdi það "umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna samningsaðila samkvæmt samningnum, neytanda til tjóns". Þetta er héraðsdómur ekki að skilja og þess vegna féll hann á prófinu.

Hann fer eiginlega ennþá flatar í þriðja málinu.  Í fyrsta lagi leyfir hann LÍN að komast upp með að leggja fram ófullnægjandi gögn.  Miðað við þau gögn sem fjallað er um í dómnum, þá hefði átt að vísa málinu frá vegna vanreifunar. Neytandinn fær ekki fullnægjandi upplýsingar um það hvernig dómskrafa er reiknuð út og ómögulegt er fyrir hann að sannreyna kröfuna.  Dómarinn lætur þetta algjörlega sem vind um eyru þjóta.  Næsta er að neytandinn ber sönnunarbyrðina á því hvort tilkynningar hafi borist til hans í tíma eða bara yfirhöfuð.  Þetta virðist svo sem venja í hinu kröfuhafamiðaða réttarfari Íslands, en er náttúrulega alveg út í hött.  Þriðja atriðið er, að samkvæmt bæði dómum EFTA-dómstólsins 28. ágúst og 28. nóvember um verðtryggðu lánin og í mörgum dómum Evrópudómstólsins, m.a. nokkrum sem EFTA-dómstóllinn vísar til, þá ber landsdómstólum að hafa frumkvæði á því að taka um atriði er varðar neytendavernd, þó það sé ekki gert af málsaðilum.  Ég veit ekki til þess, að íslenskur dómstóll hafi nokkru sinni gert það, að eigin frumkvæði, en til hvers er verið að fá álit EFTA-dómstólsins, ef dómarar taka það ekki alvarlega?

Lokaorð

Ég gæti tilgreint fleiri dóma, þar sem dómstólar láta sem neytendaréttur sé hvimleitt fyrirbrigði sem raskar hinni ógnarsterku stöðu kröfuhafa á Íslandi.  Nú eru komnir tveir dómar (álit) frá EFTA-dómstólnum, þar sem er farið nokkuð ítarlega í það hvernig á að túlka neytendalöggjöf.  Ég furða mig á því að etir að fyrri dómurinn gekk í lok ágúst hafa gengið fimm dómar, þar sem dómarar virðast ekki hafa kynnt sér dóma EFTA-dómstólsins.  Er þetta svo með ólíkindum, að maður trúir þessu varla.

Það sem mér finnst verst í þessu, er sú þöggun sem hefur verið í þjóðfélaginu um feilspor Hæstaréttar.  Ekki má tala um rangar ákvarðanir forseta Hæstaréttar og meðreiðarfólks hans.  Telji forseti Hæstaréttar neytendarétt ómerkilegan, þá verðum við að lifa við það, þar til hann hættir í réttinum.  Meira að segja, þegar sá dómari, sem ráðinn var (af því sagt er) út af sérþekkingu sinni á Evrópurétti, sér að rétturinn er á rangri leið og leggur til að leitað er til EFTA-dómstólsins, þá er það of djarft fyrir "gamla" fólkið.  Nei, það fer ekki að láta EFTA-dómstólinn segja sér fyrir verkum.  En það er einfaldlega nauðsynlegt, vegna þess að túlkanir á neytendarétti eru íslenskum dómurum framandi.  Þeir skilja ekki þann grundvallarþátt Evrópuréttar hvað varðar neytendarétt, að hann gengur flestum öðrum rétti framar, að landsdómstólar skulu hafa frumkvæði að því að draga fram atriði neytendaréttar til varnar neytendum í dómsmálum sem þeir eiga hlut að, hafi viðkomandi atriði ekki verið hluti af málatilbúningi neytandans.  Landsdómstólar eiga að vera hluti af neytendaverndinni.