Vísitala neysluverðs hækkar og hækkar þegar neysluútgjöld heimilanna lækka þrátt fyrir meiri tekjur

Hagstofan birti á einu bretti 2. mars sl. niðurstöður neyslurannsókna sinna fyrir þrjú tímabili, þ.e. 2011-2014, 2012-2015 og 2013-2016.  Niðurstöðunar eru um margt áhugaverðar eins og sjá má á töflunum þremur fyrir neðan (ráðstöfunartekjur, vikmörk, neysluútgjöld, vikmörk og hlutfall útgjalda af ráðstöfunartekjum):

Upphæðir lýsa meðaltali fyrir hvert heimili og eru í þúsundum króna

Upphæðir lýsa meðaltali fyrir hvert heimili og eru í þúsundum króna

Við sjáum að í öllum flokkum hafa útgjöld lækkað sem hlutfalla af ráðstöfunartekjum, sem bendir til kaupmáttaraukningar.  Samkvæmt þessu er kaupmáttaraukning 1. tekjufjórðungs um 39%, 2. fjórðungs er kaupmáttaraukningin 42,0%, hjá þeim 3. er hún 37,2% og 22,3% hjá þeim fjórða, með meðaltalið 29,5%.  Meðaltalið skekkist hins vegar af því hve tekjur hæsta tekjufjórðungsins eru miklar, eins og sést af því að meðaltal talnanna fjögurra er 35,2%.  Niðurstaðan er samt að það er ekki tekjulægsti hópurinn, sem hefur fengið mesta kaupmáttaraukningu, heldur er það hópur nr. 2.  (Vissulega hafa einhverjir flust á milli hópa sem eykur kaupmátt lægri tekjuhóps, hvort ástæðan er að einstaklingur færist upp á milli hópa eða niður.)

En það var ekki þetta sem vakti mesta athygli mína, þó þetta sé ákaflega áhugaverð niðurstaða.  Nei, það voru annars vegar breytingar á húsnæðiskostnaði og síðan einnig að neysluútgjöld höfðu dregist saman, þó tekjur hefðu hækkað og verðbólga hafði aukist.

Húsnæðiskostnaður

Okkur hefur verið talin trú um af Hagstofunni, að húsnæðiskostnaður hafi hækkað mjög mikið á síðustu árum, þannig að ég skoðaði hvernig raunverulegur húsnæðiskostnaður hafði breyst hjá tekjuhópunum og hér er niðurstaðan.  (Ég bætti meðaltalinu við, því mér fannst tölurnar eilítið skrítnar):

Þróun húsnæðiskostnaðar á hvert heimili í þúsundum króna

Þróun húsnæðiskostnaðar á hvert heimili í þúsundum króna

Já, mikil ósköp.  Húsnæðiskostnaður hefur hækkað samkvæmt raunverulegum neysluútgjöldum um 1,1 - 2,0% eftir því hvaða aðferð er notuð við útreikningana.  Ok, þetta hljómar eitthvað mun lægra en tölur þessarar sömu Hagstofu og birtar eru um hækkun húsnæðisliðar í vísitölu neysluverðs.  Þannig að næst var að skoða þróunina á vísitölu húsnæðiskostnaðar, eins og hún er í vísitölu neysluverðs.  Svona í leiðinni skoðaði ég hækkun á greiddri leigu og reiknaðri leigu.

Efri tafla sýnir hækkun vísitölunnar á hverju tímabili, en sú neðri meðalvísitölu hvers tímabils og loks hækkun milli 2011-2014 annars vegar og 2013-2016 hins vegar.

Efri tafla sýnir hækkun vísitölunnar á hverju tímabili, en sú neðri meðalvísitölu hvers tímabils og loks hækkun milli 2011-2014 annars vegar og 2013-2016 hins vegar.

Hér eru nokkuð áhugaverðar upplýsingar.  Svo virðist sem raunverulegur húsnæðiskostnaður þeirra sem tóku þátt í neyslurannsókn Hagstofunnar hafi hækkað umtalsvert minna, en mælingar Hagstofunnar á húsnæðislið vísitölunnar gefa til kynna!  Þetta er svo sem í dúr og moll við það sem ég hef haldið fram.  Að verðbreytingar á húsnæði, hvort heldur í formi greiddrar eða reiknaðrar leigu, gefa ekki rétta mynd af kostnaðarbreytingum húsnæðisliðarins hjá þeim sem búa í húsnæðinu, kaupa eða selja.

Neysluútgjöld lækka

En þetta er ekki það eina, sem vekur athygli.  Neysluútgjöld hafa farið lækkandi!  Árin 2011-2014 voru meðalneysluútgjöld heimilis 6.702 þ.kr., en 6.239 þ.kr. árin 2013-2016.  Þau lækkuðu því um 563 þ.kr. eða 8,4%.  (Var villa í upprunalega textanum og útgjöld sögð í m.kr. í stað þ.kr.)  Eigum við að trúa því, að fólk hafi dregið útgjöld sín saman?  Hvernig stendur á 8,4% samdrætti í útgjöldum á sama tíma og ráðstöfunartekjur voru að aukast.  Verð að viðurkenna, að það stenst enga skoðun.  Er ekki líklegt, að fólk hafi verið að gera hagkvæmari innkaup.  Skipt úr dýrari vöru í ódýrari eða hafði verðlag hreinlega lækkað svona mikið? 

Þegar ég bar saman útgjöld til einstakra liða í neyslurannsókn Hagstofunnar milli 2011-2014 og 2013-2016, þá kom í ljós að útgjöld lækkað vegna 34 liða af 47 liðum sem mældir eru.  Hinir 13 höfðu hækkað.  Þegar yfirflokkarnir eru skoðaðir, þá lækkuðu útgjöld vegna þessara:

 • Matur og drykkir - 20,4%
 • Áfengi og tóbak - 26,9%
 • Föt og skór - 12,8%
 • Ferðir og flutningar - 6,8%
 • Póstur og sími - 8,0%
 • Tómstundir og menning - 9,1%
 • Menntun - 54,6%

Meðan þau hækkuðu vegna eftirtalinna:

 • Húsnæði, hiti og rafmagn - 1,1%
 • Húsgögn, heimilisbúnaður, o.fl. - 2,1%
 • Heilsugæsla - 0,9%
 • Hótel og veitingastaðir - 7,6%
 • Aðrar vörur og þjónusta - 0,1%

Nú dettur mér ekki í hug, að heimili landsins hafi allt í einu farið að borða minna.  Þau voru einfaldlega að versla ódýrar inn.  Hvar kemur sú breyting fram í vísitölu neysluverðs?  Ég geri mér grein fyrir að líklegast voru ekki öll heimili þau sömu, sem tóku þátt í neyslurannsókninni fyrir 2011-2014 og voru með 2013-2016.  Hagstofan telur samt að upplýsingarnar séu nægilega líkar til að nota við að breyta hlutfallslegu vægi liða í vísitölu neysluverðs.  Því verður Hagstofan að svara því hvernig lægri neysluútgjöld koma fram í vísitölunni.  Hafi það kraftaverk gerst að neysla hafi dregist saman við hækkun ráðstöfunartekna, þá er vert að fara í ítarlega rannsókn á því kraftaverki.

Ég hef ENGA trú á því, að þetta kraftaverk hafi átt sér stað.  Ég held heldur ekki að neyslumunstur þjóðarinnar hafi tekið hvílíkum breytingum á milli þessara tveggja tímabila, að allt í einu hafi þjóðin farið að versla minna eða allt öðru vísi en áður.  Þess síður stenst það, að í hækkandi verðbólgu, þá sé allt í einu samdráttur í matinnkaupum upp á 20,4%.  Já, ég gleymdi að nefna, að verð matar og drykkja HÆKKAÐI um 6,0% á milli tímabilanna 2011-2014 og 2013-2016, þegar borin er saman meðalvísitala beggja tímabila.  Það þýðir ofan á 20,4% samdráttinn, að þjóðin á að hafa keypt ríflega fjórðungi minna af matar- og drykkjavöru 2013-2016, en hún gerði 2011-2014.  Eigum við að trúa því?

Ég trúi því ekki og mér þætti vænt um, ef Hagstofan gæti skýrt út hvernig það gangi upp, að fólk sem er með góðar tekjur dregur saman neyslu sína um 7,1% í um það bil 6,0% verðbólgu á sama tíma og tekjur þess jukust um 13,6%.  Kannski er skýringin einföld, en mig grunar að eitthvað sé ekki rétt mælt og sú skekkja sé í mælingu á vísitölu neysluverðs.