Tilgangur

Svo lengi sem ég man eftir því, þá hefur alls konar kjaftæði verið haldið að almenningi.  Það er svo sem gert í öllum löndum, en einhvern veginn er eins og engin takmörk séu á því hverju er dembt yfir íslenskan almenning.  Ráðherrar, sem brjóta lög, sitja sem fastast.  Ríkisfyrirtæki eru sett í hendur einkavina.  Haldið er að fólki upplýsingum, sem ekki standast.  Kosningaloforð eru svikin nánast áður en lokið er við að telja upp úr kjörkössunum.  Spillingin kraumar í öllum pottum.  Stjórnmálamenn, embættismenn og valdafólk telja það heilaga skyldu sína að ljúga að almenningi við hin ólíklegustu tækifæri, skreyta sannleikann, snúa út úr og vera með fals og blekkingar.

Tilgangur síðunnar er ekki bara að vekja athygli á bókinni Á asnaeyrum, heldur einnig að fjalla um allt hitt, eftir því sem tækifæri gefst og tími er fyrir hendi.  Einnig mun ég færa yfir á síðuna stóran hluta af bloggfærslum mínum og eitthvað af facebook-póstum.  Það mun gerast hægt og bítandi.