Ekki bendi á mig...

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.6.2010.

Menn draga upp alls konar skýringar og afsakanir fyrir því að bönkunum tókst í 9 ár að bjóða upp á gengistryggð lán þrátt fyrir mjög skýran bókstaf laganna um að eina verðtryggingin sem leyfð er í lánasamningum sé við vísitölu neysluverðs og hlutabréfavísitölur, innlendar eða erlendar eða sambland þeirra.  Um það er innihald 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, eins og ég benti á í athugasemd við færslu hjá mér í febrúar á síðasta ári.  Ég verð að viðurkenna, að ég var svo hissa á innihaldi greinarinnar, að ég fylgdi henni ekki eftir, enda fannst mér ég þurfa að bera þetta undir lögfræðing.  Það gerði ég loks í apríl, eða öllu heldur hann kom til mín og benti mér á að fylgja málinu eftir.  Það voru nefnilega lögfræðingar bæði innan og utan fjármálafyrirtækjanna sem höfuð efasemdir um gengistrygginguna, en já-bræðralagið kom í veg fyrir að menn riðluðu fylkingunni.

Ég er sannfærður um að fjármálafyrirtækin vissu meira en þau eru að gefa í skyn.  Málið er að þau gerðu sér leik í því að dansa á gráa svæðinu.  Það sýnir bara skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og það sýna t.d. ummæli Elínar Jónsdóttur, fyrrverandi starfsmann FME og núverandi forstjóra Bankasýslu ríkisins, í viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins 8. janúar 2009, sjá hér fyrir neðan:

Þetta viðtal og margt annað bendir því miður til einbeitts vilja fjármálafyrirtækjanna að ganga eins langt og hægt væri, þó svo að fyrirtækin mættu vita að með því væru þau að teygja lögin og beygja langt út fyrir vilja löggjafans.  Síðan var öllum ákvörðunum áfrýjað eða þær kærðar og jafnvel niðurstöður dómstóla vefengdar, eins og er með dóma Hæstaréttar.

Þessi framkoma fjármálafyrirtækjanna fríaði FME ekkert undan því að grípa til aðgerða og þar liggur hundurinn kannski grafinn.  FME gaf eftir undan hreinum tuddaskap fjármálafyrirtækjanna.  Þau nýttu kraft sinn og stærð gegn hinni veiku eftirlitsstofnun.  En FME var veikt vegna þess að löggjafinn útvegaði FME ekki þau vopn sem stofnunin þurfti á að halda.  Svo einfalt er það.  Og líka vegna þess að FME var ekki að beyta af nægilegri hörku þeim vopnum sem stofnunin þó hafði.