Fattleysið mitt er með ólíkindum en það tók enda

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 1.7.2010.

Enn einn viðburðarríkur dagur er að kveldi kominn og enn einu sinni voru gengistryggð lán mál málanna.  Ég er núna búinn að lesa margar fréttir og horfa á sjónvarpsfréttir á báðum stöðvum, hlusta á viðtöl á útvarpsstöðvum og hér á mbl.is.  Þrátt fyrir þetta og vera talsvert vel inni í þessum málum, líklega betur en meðal Jóninn, þá er ég ekki að fatta allt þetta.

Seðlabankinn og FME gáfu út þessi tilmæli til að verja þjóðarhag.  Við þetta hef ég nokkrar spurningar: 

1) Við erum þjóðin og hvernig getur það verið að verja okkar hag að leggja til mun hærri vexti en eru á lánunum?  

2) Ef dómur Hæstaréttar fjallar aðeins um bílalánin, eins og svo mörg fjármálafyrirtæki halda fram, (okkar lán eru í lagi, segja þau), hvernig getur það staðist að breyting á vöxtum úr breytilegum LIBOR-vöxtum með vaxtaálagi í vexti Seðlabankans geta ógnað þjóðarhagi?  Hafa skal í huga að gengistryggð bílalán eru víst metin á 85 milljarða í bókum bankanna.

3) Ef dómur Hæstaréttar fjallar líka um húsnæðislán heimilanna, hvernig getur það verið meira í þjóðarhag að láta fjármálafyrirtækin fá peninginn beint, en að nota hann í neyslu fyrst sem skapar veltu hjá fyrirtækjunum, sem viðheldur eða fjölgar störfum, og skatttekjur fyrir ríkið og sveitarfélögin, sem gerir þeim kleift að halda uppi meiri þjónustu og viðhalda eða fjölga störfum og sem gerir það að verkum að tekjur heimilanna aukast og hringrásin hefst aftur? 

4) Ef dómur Hæstaréttar nær líka fyrir lán fyrirtækjanna, hvernig getur það verið meira í þjóðarhag að láta fjármálafyrirtækin fá peninginn beint, en að nota hann til að auka veltuna í þjóðfélaginu, sem viðheldur eða fjölgar störfum..sem gerir það að verkum að tekjur heimilanna aukast, sem verður til þess að þau geta notað peninginn í neyslu o.frv.?

Arnór Sighvatsson sagði að SÍ og FME teldu að þeirra skilningur á vaxtalögunum styddu við tilmælin og vísar til 18. gr. og 4. gr. laganna.  Hér fer ég á haus í fattleysi:

1)   Fjórða greinin fjallar um það hvenær má nota vexti Seðlabankans.  Það er þegar "hundraðstala eða viðmið vaxta" kemur ekki fram í samningi eða hefur verið dæmt ógilt.  Nú hef ég bara mína lánasamninga fyrir framan mig, hjá fjórum mismunandi lánveitendum.  Í öllum þessum samningum kemur tvennt fram: a) að lánin séu tengd við LIBOR-vexti; b) að lánafyrirtækið leggi fast vaxtaálag á LIBOR-vextina.  Ég fatta ekki hvernig SÍ og FME geta metið það sem svo að ákvæði 4.gr. leyfi þeim að tengja vexti SÍ við samningana.

2)  Í 18. grein segir:  "Ef samningur um vexti eða annað endurgjald..telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara..".(Leturbreyting MGN)  Það er sama hvernig ég les dóma Hæstaréttar, þá fæ ég ekki séð að samningur um vexti hafi verið dæmdur ógildur, og þó svo væri þá er ég skuldari en ekki kröfuhafi, þannig að ég fatta ekki hvernig hægt er að nota þessa grein til að réttlæta, hvað þá rökstyðja, að ég eigi að greiða vexti SÍ í stað samningsvaxta.

3)  Ok, gefum þeim sjens og skoðum hvort hægt sé að víkja frá greinum laganna.  Um slíkt er fjallað í 2. gr. laganna og vil ég nú vitna í Eyvind G. Gunnarsson, en hann hefur nokkrum sinnum sagt í minni endursögn:   "Ákvæði II. og IV. kafla [sem innihalda greinar 3, 4, 8 og 9] eru frávíkjanlegar en ekki aðrir kaflar."  Skoðum þá hvenær þessir kaflar geta verið frávíkjanlegir:  "Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum."  Einmitt "að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum".  Þannig að séu einhverjir samningar sem eru í gildi, þá er ekki hægt að nota 4. gr. til að breyta vöxtunum.

Arnór aftur:  Vissulega kemur högg á eiginfjárstöðu fyrirtækjanna, en með þessu þola þau það.  - Hér keyrir fattleysi mitt um þverbak hvað varðar Landsbankann og dótturfélag bankans SP-fjármögnun, Arion banka, Íslandsbanka, Frjálsa fjárfestingabankann, SPRON, BYR og SpKef og raunar Avant og Lýsingu líka.

1) Ég sat fund hjá efnahags- og skattanefnd með forstjórum fjármögnunarfyrirtækjanna og fulltrúum Íslandsbanka um daginn.  Á þeim fundi kom skýrt fram að þau þyldu hvert um sig að dómur Hæstaréttar félli eins og hann féll.  Fyrirtækin myndu finna fyrir dómnum, en rekstrarhæfi þeirra yrði áfram í lagi.  Þetta eru orð forsvarsmanna fyrirtækjanna fyrir þingnefnd, þannig að varla voru menn að segja ósatt!

2) Samkvæmt októberskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þá fóru innlend lánasöfn gömlu  bankanna til þeirra nýju með 45% afslætti vegna lána heimilanna og allt að 70% afslætti vegna lána fyrirtækja.  Samkvæmt opinberum tölu Seðlabankans lækkaði staða gengisbundinna útlána bankanna úr 2.830 milljörðum í lok þriðja ársfjórðungs 2008 niður í 880 milljarða í lok árs 2009.  Mér sýnist sem með þessu sé meira en borð fyrir báru hjá bönkunum og líklegast sé búið að gera gott betur en að reikna með niðurfærslu lánasafnanna en nemur leiðréttingu á höfuðstóli þeirra vegna dóms Hæstaréttar.  Vissulega koma einhverjar endurgreiðslur til viðbótar og síðan afskriftir, en lækkun á bókfærðu verði úr 2.830 milljörðum í 880 er nokkuð ríflega, sérstaklega þegar haft er í huga að þorri lántaka hefur ekki séð örla fyrir þessu í lánum sínum.

3) FF og SPRON eru þrotabú og endurheimtur af útlánum þessara fyrirtækja hefur ekkert með þol eiginfjárstöðu fyrirtækjanna.  Hún er neikvæð fyrst fyrirtækin eru í þrotameðferð.  Vissulega hefur þetta áhrif á endurheimtur kröfuhafa, en það er þessu máli óviðkomandi.

4) BYR og SpKef eru bæði nýkomin úr endurskipulagningu.  Hafi ekki verið gert fyrir þessari niðurstöðu Hæstaréttar, þar sem niðurstaða héraðsdóms frá 12.2.2010 lá fyrir, þegar þeirri endurskipulagningu lauk, þá hefur einhverjum orðið verulega á í messunni.

Næsta fattleysi mitt er hvernig þeim dettur í hug að þeir komist upp með þetta.

1) Út um allan bæ sýnast mér vera lögspekingar sem trúa ekki sínum eigin augum og eyrum.  Ég hef séð menn nefna að best sé að kæra þetta til lögreglu eða jafnvel alþjóðlegra dómstóla.  Halda menn að fólk skilji ekki hversu lítil lagastoð er í þessum tilmælum.

2) Ég hef aldrei mætt eins mikilli reiði og vantrú fjölmiðlafólks við nokkru í tengslum við baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna, eins og í dag.  Hver fjölmiðlamaðurinn á fætur öðrum hringdi og spurði hvað væri í gangi.  Fréttamenn tóku upp vangaveltur okkar á fréttamannafundi ríkisstjórnarinnar og ég hafði það á tilfinningunni að Steingrími liði ekki vel með þessa ákvörðun FME og SÍ.

3) Leikhús fáránleikans náði hæstum hæðum í símaviðtali Síðdegisútvarpsins á Rás 2 við Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja, sem allt í einu sá gull í öllum hornum og hélt því blákalt fram að þessir vextir myndu ekki bara standa, heldur yrðu afturvirkir.  Dagskrárgerðarmenn sem voru með mér í stúdíói 2 misstu gjörsamlega andlitið, þegar Guðjón sagði þetta.  Það var ekki fyrr en ég var kominn út, sem ég skyldi hvað klukkan sló.  Þetta er leikrit sem sett er upp til að bæta samningsstöðu fjármálafyrirtækjanna.  Ákveðnar eru gjörsamlega fáránlegar kröfur, ýtrustu kröfur sem hægt væri að gera fyrir dómi, eins og talsmaður neytenda benti á í dag, og síðan á að gefa eftir og þá verða allir glaðir. 

Fattleysið mitt endaði þarna.  Eina rökrétta skýringin á öllum þessum klúðurslegu aðgerðum, rökstuðningi og viðbrögðum voru til að stilla upp réttri varnarlínu.  Við sjáum bara sóknarlínuna, því í hana var eytt miklu púðri, en bak við hana er varnarlína.

Þetta er gamalkunnugt trix.  Núverandi forseti notaði það árið 1989, þegar hann var fjármálaráðherra og skoðanabróðir hans er greinilega að reyna að endurnýta það í örlítið breyttri mynd.  Þá hafði sá orðrómur verið þrálátur, að það ætti að hækka skatta á skattpíndri þjóðinni um 6%.  Þessi orðrómur fór af stað snemma í vikunni og ágerðist eftir því á leið.  Þá tókst fréttamanni útvarps eða sjónvarps loks að króa Ólaf af og bar þetta undir hann.  Svarið kom að bragði:  "Nei, nei, nei.  Þetta er algjör misskilningur.  Það á bara að hækka skatta um 3,5%."  Landinn sem hafði horft upp á mögulega 6% hækkun varð svo glaður að hækkunin átti "bara" að vera 3,5%, að hann unni sæll við sitt.

Það er sem sagt búið að undirbúa, að Steingrímur J eða Gylfi komi frelsandi á hvíta hestinum með vexti sem eru mitt á milli vaxta Seðlabankans og samningsvaxta.  Og hvað er líklegast að gerist þá?  Jú, allir verða ofsa glaðir, enda ekki eins slæmt og hitt, labba áhyggjulausir inn í sólsetrið.

Vilji menn fara svona leið, af hverju ekki bara fara hana strax.  Af hverju halda fjármálafyrirtækin endilega að lántakar séu eins og þeir, þ.e. ósanngjarnir og þverir?  Ég veit ekki betur en að allir hagsmunaaðilar neytenda og lántaka hafi í nærri 17 mánuði beðið um viðræður um sanngjarna niðurstöðu.  Og ég veit að sanngirni er aldrei eineygð.  Kannski er það, að margur heldur mig sig, eins og sagt er, og fjármálafyrirtækin hafi haldið að við myndum haga okkur eins og þau.  Vitið þið til, við erum betri en það.