Hvað sagði Hæstiréttur? - Tilmælin virka sem lög

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 1.7.2010.

Ég hef á undanförnum dögum heyrt í og rætt við nokkuð stóran hóp lögfræðinga.  Með fáum undantekningum er menn sammála um að dómur Hæstaréttar hafi snúist um og takmarkast við þrjú atriði:

1.  Voru þeir samningar sem málin snerust um leigusamningar eða lánasamningar?  Hæstiréttur komst að því að þeir væru lánasamningar.  Þetta atriði hefur eingöngu fordæmisgildi fyrir álíka samninga og skiptir engu máli þegar um lánasamninga er að ræða.

2.  Voru samningarnir í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli?  Niðurstaða Hæstaréttar var að samningarnir væru í íslenskum krónum og ástæðan er tilgreind í eftirfarandi texta úr dómsorðum réttarins í máli 92/2010:

Til þess verður á hinn bóginn að líta að samningur aðilanna ber skýrlega með sér að hann var um lán í íslenskum krónum, en fjárhæðin, sem ákveðin var í þeirri mynt, væri bundin við gengi tveggja erlendra mynta í þar greindum hlutföllum. Kaupverð bifreiðarinnar, sem samningurinn snerist um, var jafnframt tilgreint í íslenskum krónum og mánaðarlegar greiðslur í 84 mánuði ákveðnar í sama gjaldmiðli. Berum orðum kom fram í skilmálum með samningnum að íslensk fjárhæð hverrar afborgunar ætti að breytast eftir gengi á þeim erlendu myntum, sem mið var tekið af, og sagði að auki í texta samningsins að hann væri „100% gengistryggður“. Af þessum sökum er ótvírætt að samningur aðilanna var um skuldbindingu í íslenskum krónum og fellur hann því undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001.

Skoðum þetta betur.  Þarna er bent á að höfuðstóllinn var í íslensku krónum, þó fjárhæð hans væri bundin gengi tveggja erlendra mynta.  Kaupverð og mánaðargreiðslur var tilgreint í íslenskum krónum. Þetta atriði er fordæmisgefandi fyrir alla lánasamninga, þar sem ótvírætt er að lántaki hafi aldrei fengið erlendar myntir í hendur eða greitt mánaðargreiðslur í öðru en íslenskum krónum.

3.  Er gengistrygging heimil samkvæmt lögum?  Niðurstaða Hæstaréttar er ótvíræð og í máli 153/2010 segir: 

Vilji löggjafans kom skýrlega fram í því að í orðum lagaákvæðanna var eingöngu mælt fyrir um heimild til að beita tilteknum tegundum verðtryggingar, en þar var ekkert rætt um þær tegundir, sem óheimilt var að beita. Lög nr. 38/2001 heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 eru ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verður því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki er stoð fyrir í lögum.  Fyrrnefnd ákvæði í 4. og 7. gr. samnings áfrýjanda og stefnda Jóhanns Rafns um gengistryggingu voru því í andstöðu við þessi fyrirmæli laganna og skuldbinda þau ekki stefndu af þeim sökum. Niðurstaða héraðsdóms verður því staðfest.

Gengistrygging er því óheimil.  Tökum eftir því að það eru eingöngu þessi atriði um gengistrygginguna sem skuldbinda ekki lántakann.  Þetta atriði er að mati allra sem ég hef rætt við fordæmisgefandi fyrir öll lán sem sem greidd voru út í íslenskum krónum og greitt er af í íslenskum krónum en eru samkvæmt upprunalegum lánasamningi með tengingu við erlenda gjaldmiðla.

Niðurstaðan af þessu er að dómur Hæstaréttar nær til mun fleiri lánasamninga, en bara bílalánasamninga.  Enda væri fráleitt að Seðlabanki Íslands og FME væru að hafa áhyggjur af þjóðarhag, ef eingöngu þrjú bílalánafyrirtæki gætu orðið fyrir höggi á eigið fé vegna dómsins.

Í lögfræðiáliti á vefsvæði talsmanns neytenda koma fram mörg önnur áhugaverð lagarök fyrir því að fleiri lán falli undir þetta. Höfundur álitsins lítur fjölmargra þátta og hvet ég fólk til að kynna sér álitið, þó því sé ekki að neita, að gott er fyrir ólöglærða að lesa það í nokkrum atrennum

Í dag sat ég svo fund, þar sem fleiri sjónarmið komu fram.  Það getur nefnilega vel verið að skuldabréfið sjálft sé formlega "erlent lán", en öll fylgiskjöl, lánsumsókn, vinnuskjöl, uppgjörsskjöl, útgreiðsluskjöl, o.s.frv. beri það með sér að lánið sé gengistryggt.  Ég hef sjálfur sagt, að hafi lántaki sótt um lán í íslenskum krónum með tengingu við erlenda mynt eða myntir, þá hefur hann ekkert um það að segja hvaða skjalaform lánveitandi notar við gerð lánasamningsins.  Hvor á þá að njóta vafans, sá sem útbjó samninginn eða lántakinn?  Um þetta verður rifist.

Tilmælin virka sem lög

Ég óttaðist í gær, að tilmæli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins myndu virka sem lög.  Fjármálafyrirtækin myndu eitt af öðru fara eftir þeim á sama hátt og öðrum tilmælum FME.  Nú er það sem sagt komið á daginn.  Ekkert fjármálafyrirtæki hefur tekið sjálfstæða ákvörðun um vaxtakjör eða túlkað vafa neytendum í hag, þó að það sé grunnurinn í 36. gr. laga nr. 7/1936 og neytendaverndartilskipun ESB 93/13/EBE.  Nei, betra er að brjóta lögin en virða rétt neytenda.

Þetta þarf svo sem ekkert að koma á óvart, enda meira og minni í anda lagatúlkunar þessara fyrirtækja hin síðari ár.  Hið furðulega er að oftast var FME á hinum endanum, þ.e. þurfti að berjast við fjármálafyrirtækin, en þá eins og nú lúffar FME fyrir fjármálafyrirtækjunum.  Við vitum hverjar afleiðingarnar urðu síðast.  Hverjar ætli þær verði núna?