Fréttatilkynning frá Hagsmunasamtökum heimilanna vegna gengistryggðra lána

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.6.2010.

Mig langar að birta hér fréttatilkynningu frá Hagsmunasamtökum heimilanna vegna viðbragða fjármálafyrirtækja við dómi Hæstaréttar um gengistryggð lán auk leiðbeininga til lántaka. 

---

Fréttatilkynning frá Hagsmunasamtökum
heimilanna vegna gengistryggðra lána

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja allar lánastofnanir, sem veitt hafa lán er gætu fallið undir dóma Hæstaréttar nr. 92/2010 og 153/2010, að stöðva allar innheimtuaðgerðir vegna þeirra lána hvort heldur þau voru veitt til einstaklinga eða fyrirtækja.  Að minnsta kosti skal takmarka innheimtu við upphaflega greiðsluáætlun, þ.e. án allra breytinga á gengi.

Forráðamenn fjölmargra fjármálafyrirtækja hafa komið fram í fjölmiðlum, lýst lán síns fyrirtækis vera öðruvísi en þau lán sem fjallað var um í dómum Hæstaréttar og dómana því ekki ná til þeirra.  Samtökin furða sig á þessum yfirlýsingum, þar sem dómar Hæstaréttar eru mjög afdráttarlausir varðandi ólögmæti gengistryggingar.  Í dómsorði með dómi nr. 153/2010 segir m.a.:

Talið var að samningur aðila bæri skýrlega með sér að hann væri um lán í íslenskum krónum. Kaupverð bifreiðarinnar og mánaðarlegar greiðslur voru tilgreind í íslenskum krónum. Þá kom berum orðum fram að íslensk fjárhæð hverrar afborgunar ætti að breytast eftir gengi á þeim erlendu myntum, sem mið var tekið af. Af þessum sökum var talið ótvírætt að samningur aðilanna væri um skuldbindingu í íslenskum krónum og félli hann því undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001..

..Talið var að vilji löggjafans kæmi skýrlega fram í því að í orðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 væri eingöngu mælt fyrir um heimild til að beita tilteknum tegundum verðtryggingar, en þar væri ekkert rætt um þær tegundir sem óheimilt væri að beita. Lög nr. 38/2001 heimiluðu ekki að lán í íslenskum krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá væru reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og yrði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki væri stoð fyrir í lögum.


Hagsmunasamtök heimilanna geta ekki skilið þessi dómsorð á nokkurn annan hátt, en að öll lán þar sem höfuðstóll lánanna er tilgreindur í íslenskum krónum hvað sem varðar aðra útfærslu á lánssamningum teljist skuldbinding í íslenskum krónum.  Um þetta verður vafalaust deilt, en þar til úr þeim deilum hefur verið leyst, þá skal túlka samninginn neytandanum í hag.  Kemur þetta skýrt fram í tölulið b í 36. gr. laga nr. 7/1936, samningalaga, sem hljómar svona:

[36. gr. b. Skriflegur samningur, sem atvinnurekandi gefur neytanda kost á, skal vera á skýru og skiljanlegu máli. Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag.
[Regla 2. málsl. 1. mgr. gildir ekki þegar aðilar eða stofnanir sem hafa það hlutverk að vernda neytendur geta gripið til aðgerða samkvæmt landslögum til að fá úr því skorið hvort samningsskilmálar sem ætlaðir eru til almennrar notkunar séu ósanngjarnir.]1)]2)
   1)L. 151/2001, 1. gr. 2)L. 14/1995, 3. gr.


Lögin segja hér beinum orðum að vafi skuli vera túlkaður lántaka í hag.  Hagsmunasamtök heimilanna gera þá kröfu til fjármálafyrirtækja að bókstafur laganna sé virtur.  Hafa skal í huga að ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 var innleitt í íslensk lög til að uppfylla tilskipun 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum.  Hér er því um samevrópskar reglur að ræða.

Burt séð frá öllum lagalegum atriðum, þá liggja bæði siðferðisleg og viðskiptaleg sjónarmið fyrir því að innheimtu lána sé frestað eða takmörkuð við upphaflega greiðsluáætlun.  Viðskiptasamband fjármálafyrirtækja og viðskiptavina þeirra hefur beðið verulegan hnekki með dómum Hæstaréttar.  Fjármálafyrirtækin hafa mörg sýnt viðskiptavinum sínum ótrúlega óbilgirni og á síðustu dögum fyrir dómsuppkvaðningu, þá gekk sú harka fram úr hófi.  Nú telja Hagsmunasamtök heimilanna komið að því að fjármálafyrirtæki taki nokkur skref til baka og hugsi sinn gang.  Hvert er það viðskiptasamband sem fyrirtækin vilja hafa við viðskiptavini sína og hvernig geta þau bætt fyrir þann skaða sem þau eða forverar þeirra hafa valdið viðskiptavinum sínum með ólöglegum lánveitingum, ólöglegum innheimtum og ólöglegum aðförum að ekki sé talað um aðra og alvarlegri þætti.

Hagsmunasamtök heimilanna vilja í ljósi tveggja annarra Hæstaréttardóma sem kveðnir voru upp 16. júní 2010, þ.e. dóma nr. 347/2010 og 315/2010, benda á að lántaki getur skaðað stöðu sína með fyrirvaralausri stöðvun greiðslu af lánum án þess að sannanleg samskipti séu í gangi milli lántaka og lánveitanda.  Í fyrra málinu hélt lántaki lánveitanda vel upplýstum um gerðir sínar, tilgreindi ástæður og gaf þannig lánveitanda færi á að bregðast við.  Hæstiréttur dæmdi lántaka í hag.  Í síðara málinu var greiðslu hætt án fyrirvara og án þess að lánveitanda væri gefið færi á að koma með viðbrögð.  Þetta varð til þess að Hæstiréttur dæmdi lánveitanda í hag.  Lánveitandi var sá sami í báðum tilfellum.  Samtökin vilja því brýna fyrir lántökum að tilkynna lánveitanda um ástæðu greiðslustöðvunar, komi til hennar, eða breytingu á greiðslutilhögun, s.s. að takmarka hana við upphaflegu greiðsluáætlun.

Hagsmunasamtök heimilanna lýsa að lokum yfir vilja samtakanna til að koma til viðræðna við fjármálafyrirtæki og stjórnvöld um hvernig leysa megi skuldavanda heimilanna.  Dómar Hæstaréttar frá 16. júní sýna að málflutningur samtakanna varðandi gengistryggð lán var á rökum reistur.  Samtökin eru jafn sannfærð um að málflutningur þeirra varðandi verðtryggð lán er byggður á traustum grunni.  Samtökin gera sér grein fyrir að vandi allra verður seint leystur með almennu samkomulagi, en sértæk skuldaaðlögun og greiðsluaðlögun mun nýtast mörgum af þeim sem eftir standa.  Skora þau því á fjármálafyrirtækin og stjórnvöld að koma til viðræðna við hagsmunaaðila á neytendahliðinni um það hvernig sé hægt að leysa skuldavanda vel flestra heimila í landinu öllum aðilum til hagsbótar. 

Hagsmunasamtök heimilanna
www.heimilin.is