Svar Hagsmunasamtaka heimilanna við erindi efnahags- og viðskiptaráðuneytis um meðferð gengistryggðra lána

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.6.2010.

Hér fyrir neðan birti ég svör Hagsmunasamtaka heimilanna við fyrirspurn frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti um meðferð gengistryggðra lána.

---

Ályktun stjórnar Hagsmunasamtaka  heimilanna um málsmeðferð gengistryggðra lána eftir  niðurstöðu Hæstaréttar í málum nr.92/2010, nr.153/2010 og nr.317/2010 16.júní sl.

Málsmeðferð gengistryggðra lána

Hagsmunasamtök heimilanna fagna því að ráðneyti efnahags- og viðskiptamála skuli leita til samtakanna vegna dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í ofangreindum málum.

Fyrst vilja samtökin taka fram að þau telja ofangreinda dóma algerlega fordæmisgefandi fyrir öll gengistryggð lán, því á þeirri málsforsendu fellir Hæstiréttur dóma sína.  Gengistrygging lána er að mati samtakanna jafn ólögmæt gagnvart öllum slíkum lánum, bæði til einstaklinga og fyrirtækja hjá öllum fjármögnunarfyrirtækjum.

Hagsmunasamtök heimilanna hafna þeirri fullyrðingu í bréfi ráðneytisins þar sem segir:
"Hæstiréttur tók hins vegar ekki afstöðu til þess hvaða endurgjald skuldurum ber að inna ef hendi fyrir lánið, þ.e.a.s. hvaða vaxtafót skuli leggja til grundvallar í samningi aðila, eða eftir atvikum verðtryggingu."

Samtökin telja niðurstöðu Hæstaréttar í þessum málum skýrar.  Gengistryggingarákvæði lánanna er dæmt ólögmætt en vaxtakjör standa óbreytt.  Lánin standa því óverðtryggð með upphaflegum vaxtakjörum, þ.e. LIBOR vexti og vaxtaálag samkvæmt ákvæðum hvers samnings.  Vilja samtökin vísa til 36. gr. laga nr. 7/1936, en þar segir í tölulið c:  

"Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans." 

Samkvæmt þessu er ekkert tilefni til að breyta vaxtaskilmálum samninganna, þar sem allar slíkar breytingar hljóta að vera neytendum í óhag.  Þess fyrir utan, þá eru þetta þau vaxtakjör sem bæði neytendur og lánveitendur reiknuðu með í upphafi lánstímans.  Er það trú samtakanna, að flest fjármálafyrirtæki hafi gert ráð fyrir stöðugu gengi á líftíma lánanna.

Samtökin telja að endurreikna skuli höfuðstól lánanna miðað við upphaflegan höfuðstól og vaxtakjör frá lántökudegi og gera upp mismuninn miðað við þær greiðslur sem þegar hafa farið fram og kröfur um eftirstöðvar.  Of greidd upphæð skal reiknuð frá lántökudegi skv. 18. og 4.gr. laga 38/2001.  Leiði uppreikningur til kröfu um endurgreiðslu ætti lántaki að geta valið um hvort hann fái endurgreitt það sem hann hefur ofgreitt ásamt vöxtum eða að sú upphæð komi sem inngreiðsla til lækkunar eftirstöðva höfuðstóls, sé um eftirstöðvar að ræða, án kostnaðar.   

Hagsmunasamtök heimilanna telja ekki að þörf sé á að breyta vaxtakjörum lánanna til framtíðar með almennum hætti eða lagalegu inngripi yfirleitt, séu samningsaðilar sáttir við þau og benda á að mörg þessara gengistryggðu lána eru með endurskoðunarákvæði á vaxtalið á nokkurra ára fresti.  Telji lánveitendur ástæðu til þess geta þeir nýtt þau tímamót til breytinga á vaxtalið samninganna.

Það er ljóst að lántakar gengistryggðra lána hafa almennt sætt miklu ofríki og aðgangshörku lánveitenda frá hruni krónunnar í október 2008, sem í mörgum tilfellum hefur bakað lántökum ýmsan beinan kostnað, sálarangist og miska, jafnvel andlát maka eða ættingja.  Það á bæði við lántaka sem enn eru með lán í endurgreiðsluferli, þá sem hafa náð að greiða upp sín lán og eins þá sem hafa verið þvingaðir til vörslusviptinga og nauðungarsölu.  Leiðrétting gengistryggðra lána þarf að taka til allra slíkra tilfella.

Þessir dómar um ólögmæti gengistryggingar lánasamninga mun líklegast verða til þess að fjöldi lántaka mun sækja rétt sinn til skaðabóta og krefjast réttlætis á þeim brotum sem þeir hafa þurft að þola. 

Frekari málsmeðferð og nauðsynlegar breytingar

Bent skal á að ýmis álitaefni eru enn uppi í málsmeðferð neytendalána, sem hafa ekki fengið úrskurð dómstóla, en ætla má að muni verða látið á reyna á komandi vikum og mánuðum.  Þær málsmeðferðir munu þá með sama hætti verða fordæmisgefandi fyrir sambærileg neytendalán.  Þar má nefna málsforsendur forsendubrests, sanngirnissjónarmið, jafnræðisreglu og fleiri þætti.  Þar verður tekist á um verðtryggð lán og lán í erlendri mynt til neytenda.

Í því samhengi hvetja Hagsmunasamtök heimilanna stjórnvöld til að taka frumkvæði í að ná sáttum í samfélaginu með frekari almennum aðgerðum til leiðréttingar á höfuðstól neytendalána, þar sem byrðum af hruninu er augljóslega ójafnt dreift milli lántaka og lánveitenda og um augljósan forsendubrest er að ræða.  Þau lán sem út af standa eru verðtryggð lán og lán í erlendri mynt til neytenda.

Gerðardómsleið talsmanns neytenda er enn besti kostur til málsferðar til að leita sátta milli aðila.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa lýst stuðningi við þá leið og eru tilbúin að taka þátt í slíku ferli.  SFF hefur einnig ítrekað lýst yfir miklum og vaxandi vilja til að finna leiðir til sátta og lausna með öðrum hætti en fyrir dómsstólum, þá með sáttaumleitan. 

Hagsmunaamtök heimilanna telja afar brýnt að stjórnvöld gefi út yfirlýsingu sem allra fyrst um slíka málsmeðferð.  Samtökin hvetja til að niðurstöður slíkrar málsmeðferðar liggi fyrir eigi síðar en í byrjun september nk. og benda á mikilvægi slíkra sátta með hliðsjón af komandi kjarasamningaviðræðum stéttarfélaganna í haust.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja stjórnvöld einnig til að lýsa yfir vilja til stefnumótunar á viðsnúningi á skuldastöðu heimilanna og breytinga á lánakerfinu í samvinnu við aðila vinnumarkaðar, forsvarsmenn launþegahreyfingar, talsmann neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna innan sömu tímamarka.  Bent er á að meðal heildarskuldir heimilanna hafa vaxið sem hlutfall af ársráðstöfunartekjum heimilanna frá 25% árið 1980 í nú um 300% og er með því almesta innan OECD.  Engu að síður hefur atvinnuþátttaka hér verið með því mesta innan OECD og lánstími neytendalána á sér enga hliðstæðu, allt að 70 ár.  Í ljósi víðtæks sjálfseignarhalds fasteigna og bílaflota og mjög hárrar skuldastöðu allt að 60% heimila er ljóst að brýn þörf er á að stjórnvöld hafi frumkvæði í að mynda stefnu til viðsnúnings á skuldastöðu heimilanna.  Slík efnahagsaðgerð er óumflýjanleg í ljósi stöðunnar í samfélaginu og hagkerfinu. 

Í því samhengi er afar brýnt að koma á samkeppni um tekin lán, þannig að lántakar geti leitað bestu kjara þegar kemur að endurskoðun vaxtastigs lána.  Breyta þarf reglum um Íbúðalánasjóð svo hann geti veitt fjármálafyrirtækjum á markaði aðhald.  Samtökin leggja ríka áherslu á að fjármálafyrirtækin verði kölluð til ábyrgðar fyrir efnahagsstöðugleika og hóflegri verðbólgu með endurskoðun á lánakerfinu og lagasetningu um þak á verðbætur og vexti óverðtryggðra útlána.

Samhliða þessum breytingum þarf að endurskoða fyrirkomulag vaxta- og húsaleigubóta, sparnaðar, debethagkerfis og skattkerfis.

Hagsmunasamtök heimilanna ítreka vilja til þátttöku í slíku endurmótunarstarfi.