Áhrif tillagna HH á lífeyrissjóðina

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.10.2010.

Á Eyjunni er færsla þar sem verið er að fjalla um tillögur HH (sjá HH: Gríðarleg eignaupptaka ef húsnæðisskuldir verða ekki færðar niður).  Ein athugasemd er frá Nafnlausum Kjósanda og er hún eftirfarandi:

Af aurum verða menn apar, auðsáhrif fasteignabólunar gerðu það að verkum að stórir hópar héldu að þeir væru orðnir "ríkir" og slógu lán út á þennan "auð".

Raunveruleiki er að það var engin innistæða fyrir þessum "auð", það langversta er að ungt fólk var vélað af bönkum til að taka gríðarleg lán og það eru þessi hópur sem á að hjálpa og sú skerðing á að bitna eingöngu á bönkunum, þeir hinir sem áttu eignir fyrir fasteignabónuna er engin vorkunn, margir blinduðust af innistæðulausu "auðsáhrifunum" og tóku út þenna "auð" sem þeir vilja nú að Lífeyrissjóðir og skattgreiðendur beri ábyrgð á.

Um 200.000.000.000Kr af eignum lífeyrissjóðanna eru til íbúðarlána og vilja HH að 36.000.000.000Kr verði teknar af lífeyrisþegar.

Um 750.000.000.000Kr eru í útlánum hjá Íbúðalánasjóð og vilja HH að 135.000.000.000Kr verði sendar á skattgreiðendur til að borga.

Ef um 171.000.000.000Kr lenda á lífeyrisþegum og skattgreiðendum þá þíðir að aðeins 49.000.000.000Kr lenda á bönkunum og þeirra "afslætti" við tilflutning úr gömlu í nýja banka.

Niðurstaðan er sú að HH vilja að 18% snilldar leikur þeirra lendir 77% á skattgreiðendum og lífeyrisþegum.

Það þarf ekki að ræða nánar þessar tillögur HH svo vitlausar eru þær!

Mér finnst alveg með ólíkindum hvað er hægt að snúa út úr því sem sagt er eða verið með stór orð sem byggja á vanþekkingu.  Vil ég því skýra hér út hvernig Hagsmunasamtök heimilanna sjá fyrir sér að tillögur samtakanna hafi áhrif á lífeyrissjóðina. 

Lífeyrissjóðirnir eiga eitthvað um 1.835 milljarða.  Af þessari tölu eru um 60% um þessar mundir í verðtryggðum útlánum eða um 1.100 milljarðar.  Sjóðfélaga lán standa í um 175 milljörðum, þau eru ekki öll húsnæðislán, þó þau séu öll með veði í húsnæði. 15,5% af 175 gerir 27 milljarðar.  Lán Íbúðalánasjóðs sem falla undir tillögur HH nema um 450 - 500 milljörðum, 15,5% af þeim tölum eru á bilinu 70 - 80 milljarðar.  Tillögur HH gera ráð fyrir að eigendur Íbúðabréfa, húsnæðisbréfa og húsbréfa taki á sig þessa lækkun, ekki ÍLS eða skattgreiðendur.  Eigendur þessara bréfa eru lífeyrissjóðir (um 65%), bankar og önnur fjármálafyrirtæki og fjárfestar.  Hlutur lífeyrissjóðanna af þessari tölu er því á bilinu 45 - 50 milljarðar.  Alls gera því tillögurnar ráð fyrir að á lífeyrissjóðunum lendi 72 - 77 milljarðar, en þetta samsvarar um 4% af eignarsafni lífeyrissjóðanna.  Þá er það sem kemur á móti hjá lífeyrissjóðunum: 

1) Lífeyrissjóðirnir keyptu lánasöfn heimilanna sem veðsett höfðu verið í nokkrum seðlabönkum á allt að 50% afslætti, en eru að rukka þau upp í topp.  Þarna eru þeir búnir að búa sér til hagnað upp á tugi, ef ekki á annan hundarð milljarða króna.  Það er, að mati HH, ótrúlegt siðleysi hjá sjóðunum að ætla halda þessum hagnaði hjá sér og hunsa stöðu skuldara. 

2)  HH leggur til að breytingar á réttindaávinningi taki tillit til breytingar á eignasafni þeirra og skuldbindingum til lengri tíma.  Nú er þessi tími 2 ár, en samtökin leggja til að hann verði lengdur í 10 ár.  Mun gefa sjóðunum lengri tíma til að jafna sig á áfallinu, sem hrunið olli, án þess að skerða lífeyrisgreiðslur.  Þetta mun líka þýða að þróun til hækkunar mun ekki verða eins skörp og hún var á árunum fyrir hrun. 

3)  HH leggja til endurskoðun á raunávöxtunarmarkmiðum/-kröfum sem gerðar eru til lífeyrissjóðanna. 

4)  HH leggja til að skerðing sem verður ekki hægt að komast hjá, verði framkvæmd þannig, að hún komi harðast niður á þeim sem hafa mesta möguleika á að vinna hana upp á þeim tíma sem eftir er af starfsævinni og bitni ekkert á þeim, sem eiga enga möguleika á að vinna skerðinguna upp.  Þetta þýðir að lífeyrisþegar verða ekki fyrir neinni skerðingu.  Allt tal um að þetta bitni á ömmu gömlu er því kjaftæði.  Hafi lífeyrissjóðirnir ekki heimild til að framkvæma hlutina svona, þá verður einfaldlega að breyta þeim lögum og samþykktum sem koma í veg fyrir það.

5)  Samtökin leggja til að hluti vaxtabóta sem annað hvort ætti að endurgreiða í ríkissjóð eða hefði fallið til væri ekki farið í þá aðgerð sem samtökin leggja til, renni til annars vegar lífeyrissjóðanna og hins vegar nokkurra smærri sparisjóða sem hafa ekki leitað aðstoðar ríkisins, en gætu komist í rekstrarvandræði veiti þeir þann afslátt sem hér um ræðir.  Einnig leggja samtökin til að hluti verðbóta á innstæður yfir 50 m.kr. fyrir tíma tímabilið frá 1.1.2008 til 6.10.2008 verið endurgreiddur og notaður í þessum tilgangi.

6)  Loks má ekki gleyma því að innstæður lífeyrissjóðanna í bankakerfinu voru tryggðar upp í topp með setningu neyðarlaganna, þrátt fyrir að þær hafi bara verið tryggðar upp að 3 m.kr. fram að því.  Þetta var að hluta gert á kostnað skattgreiðenda og að öðru leiti á kostnað lántaka.

Nú hver er hinn kosturinn í stöðunni?  Samkvæmt skýrslu AGS, þá eru 63% lána í lánakerfinu það sem þeir kalla "non-performing loans", þ.e. ekki er greitt af þeim.  Segja má að lántakar þessara lána séu í greiðsluverkfalli.  Ég veit ekki hve stór húsnæðislána eru í þessum hópi.  Þetta eru öll lán útlánakerfisins, þ.e. það sem AGS vísar til sem Iceland: Financial Sector.  Verið er að innheimta lánasöfn upp á 3.800 milljarðar, en sagt er að bókfært verð þeirra sé um 1.600 milljarðar.  Í sjálfu sér kemur þetta ekki beint við verðmæti eignasafna lífeyrissjóðanna, þar sem þetta er utan við þau.  En áhrifin eru hins vegar þau að 63% af 3.800 milljörðum eru lán sem ekki er verið að greiða af eða um 2.400 milljarðar.  Eftir standa 1.400 milljarðar, sem er þokkalegt hlutfall af 1.600 milljörðum, en þegar AGS skoðar lánin á bókfærðu virði, þá fær sjóðurinn út að 45% eru "non-performing loans".  Hátt í helmingur þjóðarinnar og fyrirtækja eru því í greiðsluverkfalli.  Þetta leiðir til þess að sífellt meira af íbúðarhúsnæði endar í eigu kröfuhafa.  Í árslok 2008 var fasteignamat íbúðarhúsnæðis um 2.800 milljarðar.  Markaðsverð var talsvert hærra, en látum liggja á milli hluta hvert það var.  10% lækkun á húsnæðisverði skilar sér því í a.m.k. 280 milljarða rýrnun á verðmæti.  Íbúðalánasjóður hefur á sínum bókum útlán upp á 795 milljarða, þar af eru um 150 milljarðar íbúðalán sem sjóðurinn tók yfir eftir hrun á einhverjum afslætti og 250 milljarðar eru lán til sveitarfélaga, framkvæmdaraðila og annarra en einstaklinga vegna lögheimilis.  10% lækkun á húsnæðisverði rýrir því verðmæti veðanna, sem ÍLS hefur um hátt í 80 milljarða.  Þessi lækkun hefur verið mun meiri á síðustu mánuðum og 2 árum og meira er í pípunum, nema við náum að snúa þróuninni við.  Gefum okkur að þessi lækkun verði 30%.  Það gerir því í reynd 30% rýrnun á veðunum að baki þessum 795 milljörðum og getur því fræðilega valdi ÍLS tjóni upp á 240 milljarða, sem annað hvort lendir á skattgreiðendum eða lánadrottnum ÍLS, m.a. lífeyrissjóðunum.  HH er að leggja til, að í staðinn fyrir að fara inn í þessa framtíðarsýn, þá taki lánadrottnar ÍLS strax á sig þá lækkun sem lagt er til að ÍLS veiti einstaklingum, sem fengið hafa lán hjá sjóðnum til kaupa á lögheimili.  Með því verði hægt að spyrna við fótum varðandi lækkun fasteignaverðs og verja tryggingarnar sem allir lánveitendur eiga fyrir útlánum sínum í þessum málaflokki.

Ég gæti haldið lengi áfram að fjalla um hlutverk lífeyrissjóðanna.  Það sem ég vil bara minna á, að á sama tíma og ég er neytandi í þjóðfélaginu, lántaki og skattgreiðandi, þá er ég sjóðfélagi og framtíðar lífeyrisþegi.  Sem skattborgari, þá er búið að leggja á mig auknar álögur og ríkissjóður hefur skuldsett sig upp á 1.300 milljarða, sem skattgreiðendur þessa lands þurfa að greiða á næstu árum.  Sem neytandi, þá borga ég fyrir sífellt hærra vöruverð.  Sem lántaki, þá á ég að bera afleiðingar þess að nokkrir kjánar héldu að þeir væru sniðugri en allir aðrir businessmenn í heiminum.  Sem framtíðarlífeyrisþegi, þá hafa misvitrar ákvarðanir stjórnenda lífeyrissjóðanna mögulega skert framtíðarlífeyri minn um 10 - 15%.  Sem sjóðfélagi, er mér talið trú um af lífeyrissjóðunum, að leggi ég einn fugl inn í nægtabúr lífeyrissjóðanna, þá ætli þeir að láta mig hafa 0,12 eða 0,18 fugla á ári, þegar ég kemst á lífeyristökualdur.  Með fullri virðingu fyrir lífeyrissjóðunum, þá vil ég frekar að þeir hjálpi mér núna að halda húsinu mínu, þannig að mér dugi 0,115 eða 0,173 fuglar á ári, þegar þar að kemur.  Fyrir utan það, að vit vitum ekkert hverjum við verðum búin að klúðra til viðbótar þegar þar að kemur.