Kostnaður og ávinningur - hvort vegur þyngra?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.9.2010.

Sem stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna hef ég lagt mikla vinnu í þær tillögur sem samtökin sendu frá sér í dag.  Þær eru að mati okkar bæði sanngjarnar og réttlátar, þó ég efist ekki um að ekki líki öllum þær.  Höfum það alveg á hreinu að Hagsmunasamtök heimilanna voru ekki að setja þessar tillögur fram til að þóknast einhverjum eða reyna að vinna hylli.  Tillögurnar eru settar fram núna, vegna þess að ástandið í þjóðfélaginu er grafalvarlegt og samtökin meta það sem svo að annað hrun sé yfirvofandi, ef haldið verður áfram á þeirri braut sem við erum á núna.

Það er eðlilegt að spurt sé hvað svona tillögur kosta, en þetta er flóknara en svo.  T.d. langar mig að vita hvað núverandi ástand kostar fjármálakerfið og þjóðarbúið og hve stóran hluta af þeim kostnaði væri hægt að forðast með því að fara í þessa aðgerð sem Hagsmunasamtök heimilanna leggja til.  Í hverju fellst kostnaðurinn í dag?

  • Lækkandi markaðsverði húsnæðis vegna uppsöfnunar óseldra eigna hjá fjármálafyrirtækjum, offramboðs á markaði þar sem fólk er að reyna að selja t.d. til að forðast nauðungarsölu og óseldar nýjar íbúðir.  Fasteignamat íbúðarhúsnæðis var um 2.800 milljarðar í árslok 2008 og hefur fallið síðan.  Hver 10% þýða 280 milljarða.  Íbúðarhúsnæði var í árslok 2008 með 60% skuldsetningu, þannig að 280 milljarða lækkun fasteignamats veldur beint 6% rýrnun á verðmæti/gæðum lánasafna fjármálafyrirtækjanna.  Í þeim tilfellum sem fjármálafyrirtækin miðuðu útlán sín við markaðsverð hefur rýrnun verðmætis/gæða numið 20 - 30%, eftir því hvernig maður reiknar.  Þessi rýrnun nær til allra lána með veði í húsnæði, ekki bara húsnæðislána.

  • Minnkandi skatttekjur vegna minni neyslu og eftirspurnar í hagkerfinu.  Einhvers staðar las ég að skatttekjur ríkisins hafi lækkað um 40 milljarða frá 2007 til 2009.  Verðbólgureiknum skatttekjur 2007 og þá fáum við út allt að 138 milljarða.  Þetta er þrátt fyrir hækkun skatta á þá sem ennþá greiða eitthvað af viti.  Ofan á þetta bætast skertar tekjur sveitarfélaga sem nemur tugum milljarða.

  • Aukin útgjöld vegna atvinnuleysisbóta hleypur á milljörðum, er þó skiptimynt miðað við tvo síðustu liði.

  • 50.000 manns hafa tekið út 42 milljarða af séreignalífeyrissparnaði hér á landi og síðan hafa fjölmargir tekið út annan sparnað.  Með úttöku séreignarsparnaðar er verið að ganga á skattstofna framtíðarinnar.

  • 18.000 manns hafa flutt af landi brott á síðustu tveimur árum.  Vissulega stór hluti útlendingar, sem voru hér í vinnu, en þeir voru í verðmætasköpun fyrir land og þjóð og það sem mestu máli skipti, borguðu skatta til ríkis og sveitarfélaga.  Einnig voru viðkomandi virkir þátttakendur í neyslusamfélaginu, atvinnusköpun o.s.frv.  Þegar einstaklingar og fjölskyldur flytja brott, sem eiga skyldmenni hér á landi, þá teygist á fjölskylduböndum og þau jafnvel rofna og það eitt skilur eftir sár sem seint gróa.

  • Fjármálafyrirtæki eiga yfir 1.500 íbúðir og á þriðja þúsund eru í nauðungarsöluferli.  Mun það fara vel með efnahagsreikning fjármálafyrirtækjanna að eiga 5 -7 þúsund íbúðir sem þau geta ekki selt nema fyrir slikk og þar með lækka fasteignaverð enn, sem grefur undan gæðum lánasafnanna.

  • Stærsta og alvarlegasta tjónið verður ekki mælt í peningum.  Það er glatað traust og trú á samfélaginu, embættismönnum, bankamönnum og kosnum fulltrúum, brostnar vonir, brotnir draumar, brotthvarf heiðarleikans úr huga fólks og allt það annað huglæga og tilfinningalega skalanum sem er að bresta og brotna.  Ég mun t.d. aldrei aftur trúa orði sem kemur frá greiningardeild eins einasta banka hér á landi.  Ég mun ekki treysta uppgjöri stærri fyrirtækja og mun því ekki leggja mína peninga í hlutabréfakaup eða aðrar fjárfestingar í slíkum rekstri í ófyrirséðan tíma.  Ég mun ekki trúa einu orði sem kemur frá þjónustufulltrúa í banka um kauptækifæri eða sniðuga ávöxtunarleið.  Íslenskt þjóðfélag tapaði sakleysi sínu við bankahrunið og fjármálafyrirtækin eru ekkert að gera til að bæta því upp þennan skaða.

Jæja, tökum þá þann "kostnað" sem fjármálafyrirtækin hafa af tillögum HH:

  • Lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána verður samkvæmt tillögum HH líklega um 18%.  Tillögurnar ná eingöngu til lána vegna núverandi lögheimilis, fyrrverandi sem ekki hefur tekist að selja og tilvonandi sem er í byggingu eða ekki hefur verið flutt inn í.  Verðtryggð lán eru eitthvað um 1.200 - 1.400 milljarðar og gefum okkur að eingöngu 80% þeirra falli undir tillögur samtakanna.  Kostnaður fjármálafyrirtækjanna væri því á bilinu 173 - 202 milljarðar, þar af félli eitthvað um 90 milljarðar á lán hjá Íbúðalánasjóði og því 83 - 102 milljarðar á önnur útlánafyrirtæki.

  • Varðandi gengisbundin lán, þá er búið að færa höfuðstól gengistryggðra lána niður í upprunalega krónutölu að teknu tilliti til afborgana, en eftir er að færa önnur gengisbundin lán niður.  Þar sem upphæð þeirra er ekki vituð, þá er gert ráð fyrir að sú tala sé 30% af öllum gengistryggðum húsnæðislánum eða 24 milljarðar.  Höfuðstóll þeirra mun skerðast um á að giska 35%, en það er breytilegt eftir gjaldmiðlum.  Á móti kemur að lánin verða verðtryggð sem gefur hærri vexti og ekki er víst að öll þessi lán uppfylli lögheimilisskilyrði.  Tökum samt 35% af 24 og fáum út 8,4 milljarða. Þá eru það áhrifin af því að önnur lán verða verðtryggð með þaki en ekki án þaks eða óverðtryggð.  Það eru 18% af að hámarki 56 milljörðum eða 10 milljarðar.  Líklegt er þó, að allt að helmingurinn af gengisbundnum lánum uppfylli ekki lögheimilisskilyrðin, þannig að líklegast er kostnaður bankanna vegna gengisbundinna húsnæðislána vegna lögheimilis (núverandi, fyrrverandi eða væntanlegs) um 9,2 milljarðar.

  • Þá eru það óverðtryggð lán, mest í formi yfirdráttarlána. Vextir þeirra lækka niður í 8,5 - 10,3% úr 14 - 25%.  Meðallækkun er líklegast um 10% á ári.  Umfang þessara lána er ekki þekkt, en er vart mikið.  Hér er gert ráð fyrir 10 milljörðum, sem gerir þá 2 milljarða.

Miðað við þessar forsendur er heildarkostnaðurinn 192 - 221 milljarður.  Af þeirri tölu er það bara sú upphæð sem lendir á Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðunum og smærri sparisjóðum, sem er vandamál, ef svo má segja.  Tillögur HH gera ráð fyrir að þessi tala, líklega í kringum 110 milljarðar sé bætt með því að íbúðabréf, húsbréf og húsnæðisbréf Íbúðalánasjóðs taki einnig sama þak á verðbætur fyrir þann hluta þessara bréfa sem notaður var við að fjármagna lán vegna lögheimilis.  Vissulega eiga lífeyrissjóðirnir umtalsvert af þessum bréfum, en þau eru líka í eigu annarra fjárfesta.  Lendi Íbúðalánasjóður í miklum vanda, þá mun ríkissjóður ekki geta bjargað sjóðnum nema með miklu skattahækkunum.  Hér vegast því á hvort lántakar eigi að taka á sig óréttlátar hækkanir, skellurinn eigi að lenda á skattgreiðendum eða þeir taki á sig höggið sem geta unnið það upp með fjárfestingum m.a. í íslensku atvinnulífi sem mun örugglega taka kipp við þessar aðgerðir.  HH töldu ekki rétt að útfæra þennan hluta alveg, en samtökin telja að með því að lengja þann tíma sem notaður er til viðmiðunar við útreikning á tryggingafræðilegri stöðu úr 2 árum í 10 ár, þá gefist lífeyrissjóðunum nokkur ár til að jafna sig á þessum tapi.  Einnig mætti hugsa sér að láta skerðingu réttinda hafa minnst áhrif á þá sem eru komnir á lífeyrisaldur og mest á þá sem eiga lengst í það að komast á þann aldur.  Fyrri hópurinn hefur enga möguleika á að rétta sinn hlut komi til skerðingar, en hinn hefur mikla möguleika á því.  Íbúðabréf, húsbréf og húsnæðisbréf lífeyrissjóðanna námu tæplega 454 milljörðum 30. júní sl. af 807 milljarða útgáfu ÍLS eða 56%.  Á lífeyrissjóðina falla því 56% af 90 milljörðum auk að hámarki 30 milljarða vegna eigin útlána. Alls gerir þetta um 80 milljarðar, sem jafngildir um 4,5% af eignum lífeyrissjóðanna.  Telja HH að þetta sé vel viðráðanlegt tap, auk þess sem gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðunum verði bætt þetta upp að einhverju leiti.

Líklegast verður áfallið mest fyrir minni sparisjóði, þar sem svigrúm þeirra er minnst.  Af þeim sökum leggja samtökin til að hægt verði að nota hluta vaxtabóta, sem annars hefðu farið til lántaka, til að bæta þeim þetta og síðan með endurgreiddum verðbótum á innstæður yfir 50 m.kr. vegna tímabilsins frá 1.1.2008 til 6.10.2008.

Ef litið er annars vegar kostnað fjármálafyrirtækja af tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna og hins vegar samfélagsins af núverandi ástandi, þá finnst mér ekki spurning hvað er rétt að gera.  Önnur talan stendur í rúmum 192 - 221 milljarði meðan mælanlegi hluti hinnar fer auðveldlega vel yfir 700 milljarða og gæti hæglega endað í 1.200 milljörðum ef ekki meira.  Mismunurinn upp á kr. 500 - 1.000 milljarða er ávinningur samfélagsins af því að velja leið Hagsmunasamtaka heimilanna.  Nú er spurningin:  Hvort gengur fyrir ávinningur samfélagsins eða fjármálakerfisins?  Þeir sem svara fjármálakerfisins, ættu að velta fyrir sér hvað verður eftir í landinu, ef þröngir hagsmunir fjármálakerfisins verða látnir ráða og einnig hvort það séu yfirhöfuð hagsmunir fjármálakerfisins að hanga eins og hundur á fiskroði á uppblásnum kröfum sínum, sem blésu út vegna alvarlegra afglapa og hugsanlegra glæpa á árunum fyrir hrun.