Uppgreitt lán skal taka nýja vexti og lántakar skulda 3,5 m.kr. á eftir

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.9.2010.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeir langtímalán tekið til húsnæðiskaupa skuli bera sömu vexti og 5 ára lán til bílakaupa.  Er þetta alveg stórfurðuleg og ákaflega varasöm niður staða, svo ekki sé meira sagt.  Furðulegast í dómi héraðsdóms er að lán sem greitt var upp í október 2008 skuli bera lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands og því eigi lánveitandi kröfu á lántaka vegna vangreiddra afborganna hins uppgreidda láns!

Dómarinn rökstyður mál sitt með tilvísunar í dóma Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september.  Fyrri dómarnir eiga vissulega við í þessu samhengi, en sá frá 16. september getur ekki átt við, þar sem með því er brotið gegn c-lið 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga.  Í þeirri grein er lagt bann við því að breyta samningi neytanda í óhag.  Dómurinn í dag gerir það varðandi öll lánin og sérstaklega eitt þeirra.  Lán nr. 712990 var greitt upp í október 2008.  Af því var greitt í samræmi við þann samning sem gerður var.  Gera má ráð fyrir að vextir lánsins hafi verið 4,5% á lánstímanum, sem var um 32 mánuðir miðað við að lánið var tekið 28. febrúar 2006 og greitt upp í október 2008.  Lægstu óverðtryggðu vextir Seðlabanka Íslands voru á þessu tímabili lægstir 12,45% og fóru hæst i 18,40%, að meðaltali voru þeir 16,14%.  Þetta þýðir að lántakarnir skulda lánveitanda sínum ríflega 3,5 m.kr. vegna láns sem búið er að greiða upp í samræmi við undirritaða samninga.  Þetta er svo freklegt brot á neytendaverndartilskipun ESB og c-lið 36. gr. laga nr. 7/1936, að ég skil ekki hvernig dómaranum dettur þetta í hug.

Það góða við þessa furðulegu niðurstöðu, er að þarna fáum við sem viljum beina málinu til ESA og þess vegna EFTA dómstólsins góð rök fyrir okkar málstað.