Neytendavernd á Íslandi - Minningarorð

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 29.9.2010.

Til grafar var borin í dag neytendavernd á Íslandi.  Banamein hennar var dómur Hæstaréttar 16. september sl.  Hinstu líkræðu hélt Héraðsdómur Reykjavíkur 28. september 2010 og sami dómur sá um greftrun 29. september.  Blóm og kransar skulu lagðir við dyr Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar Íslands.  Þeir sem vilja minnast neytendaverndar á Íslandi er líka bent að senda erindi til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, og EFTA dómstólsins, þar sem framferði dómstóla er mótmælt.

Neytendavernd á Íslandi, í þeirri mynd sem hér er borin til grafar, var sett í lög með lögum nr. 14 frá 6. mars 1995 sem gerðu breytingu á lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.  Hún náði því að verða 15 ára, sex mánaða og 10 daga.  Á þessum tíma var hún hunsuð og fótum troðin af flestum þeim sem áttu að fara eftir henni eða vernda. Varð hún því neytendum aldrei sú vernd sem tíðkast í siðmenntuðum þjóðfélögum.  Enginn vildi heldur kannast við krógann og þannig afneitaði Neytendastofa honum ítrekað í undanfara og eftirmála hruns hagkerfisins og á síðustu 13 dögum gengu dómstólar svo að henni dauðri.

Með neytendaverndin verður einnig borin til grafar réttlæti í fjármálaviðskiptum, fjármálasiðferði og heiðarleiki í viðskiptum.  Bæði Hæstiréttur 16. september og Héraðsdómur Reykjavíkur hafa komist að því að þessir þættir eru til óþurftar í íslensku samfélagi.  Hægt er að stunda svik og pretti, setja heilt hagkerfi á hliðina, en halda samt öllum ávinningi af svikunum með hóflegri 30% álagningu sem dómstólar hafa ákveðið sem rættmætar bætur til lögbrjóta fyrir að brjóta lög.

Þeir sem vilja njóta neytendaverndar til jafns við það sem gerist í siðmenntuðum þjóðfélögum, er bent á að flytja lögheimili sitt til slíkra þjóðfélaga.  Þeim er bent á að snúa baki við samfélagi sem telur fórnarlömbin eiga að greiða gerandanum bætur fyrir að láta þá svíkja sig og pretta.  Hér er ekkert réttlæti að fá og þó svo að ESA eða EFTA-dómstólinn komist að gagnstæðri niðurstöðu, þá er því miður hefð fyrir því að hunsa slíkt.

Þar sem neytendavernd á Íslandi reis aldrei til hárra metorða verður hennar ekki minnst fyrir mikil afrek.  Hún var ítrekað hrakin, hædd og spottuð af fyrirtækjum og stofnunum sem töldu hana standa í vegi næstu græddu krónu eða koma í veg fyrir að stjórnsýslan hefði sinn gang.  Reykjavíkurborg hefur t.d. hunsað neytendavernd við skil lóða í Úlfarsárdal, bílaumboð hafa hunsað neytendavernd þegar kemur að ábyrgðarviðgerðum, tryggingafélög fengu stuðning löggjafans og dómstóla til að hafa af viðskiptavinum sínum tryggingabætur og svona mætti lengi telja.  Lífsþróttur neytendaverndar á Íslandi var því orðinn lítill, þegar Hæstiréttur veitti henni náðarhöggið 16. september sl. þar sem tekist var á um hvort mikilvægari væri forsendubrestur fjármálakerfisins eða neytenda.  Niðurstaða Hæstaréttar var stórfurðuleg og Héraðsdómur Reykjavíkur gekk ennþá lengra í líkræðu sinni í gær.  Refsa skal neytendum fyrir að fjármálakerfið bauð upp á ólöglega gengistryggingu með því að hækka skuld þeirra við fjármálakerfið um tugi prósenta.  Þetta minnir mann á sögur frá bananalýðveldum Karabíska hafsins og til marks um það, að við viljum setja okkur á stall með þeim.

Þrátt fyrir allt hefur neytendavernd á Íslandi haldið á lífi vonarglóð í brjóstum margra landsmanna og vonandi verður ótímabært fráfall hennar ekki til einskis.