Sanngirni þegar ráðherra hentar og röng lagatilvitnun

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.6.2010.

Ekki halda að ég sé kominn með Gylfa Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, á heilann, þó ég fjalli mikið um ummæli hans í gær og í dag.  Hann er bara endalaus uppspretta glórulausra ummæla, að ég get ekki annað en dregið þau fram.

Í þessu stutta viðtali við mbl.is sem þessi færsla er tengd við, þá eru nokkur ótrúlega furðuleg ummæli.  Langar mig að skoða þau:

1.   Dýrt að lánin verði á upprunalegum vöxtum:  Þegar gengistryggð lán stóðu almenningi til boða, þá voru þau á góðum vöxtum.  Þessir vextir eru betri í dag vegna þess að LIBOR-vextir hafa verið mjög lágir frá haustdögum 2008.  Þeir eiga eftir að hækka.  Evru-vextir voru dæmigert á bilinu 4,5-5,5%, vextir á pund voru 5,5-6,5% og vextir á dollara frá 4,0-5,0%.  Bætum ofan á þetta 2,5-3,5% vaxtaálagi fyrir íbúðalán og 5-9% fyrir bílalán og þá liggja vextir sem bundnir eru þessum myntum í 6,5-10% fyrir íbúðalán og 9-15,5% fyrir bílalán. Vissulega eru margir með lán í jenum og frönkum og þar lágu vextir lengi í kringum 0,5% fyrir jen og 1,5% fyrir franka.  Þess vegna sóttist fólk eftir þessum lánum og bankarnir buðu upp á þessa vexti meðan verðbólgan fór vel uppfyrir 8%.  Frá janúar 2005 til mars 2008, þ.e. á þeim tíma sem flest gengistryggð lán voru veitt, var verðbólga á bilinu 2,8-8,6% og var mest allan tímann hærri en 4%.  Nú eru LIBOR vextirnir vissulega lægri, en það er tímabundið ástand.  Verðbólgan er á niðurleið, þannig að óverðtryggðir vextir hér á landi munu lækka.  Við erum því að tala um tímabundið ástand þar sem vaxtamunur á innlánsvöxtum og útlánsvöxtum er lítill.  En hafi bankarnir haft efni á því að bjóða þessa vexti haustið 2006 í 8,6% verðbólgu, þá ættu þeir örugglega að hafa efni á því núna í 6-7% verðbólgu.

2.  Þungbært fyrir hagkerfið:  Hvers vegna er það þungbærara fyrir hagkerfið að hagnaður bankanna dregst eitthvað saman, en skatttekjur ríkisins aukast vegna aukinnar neyslu, miðað við að bankarnir sýni góðan hagnað en neysla og skatttekjur dragast saman?  Ég skil ekki svona röksemdarfærslu.  Það hlýtur að vera mjög gott fyrir hagkerfið að fólk hafi meira á milli handanna í staðinn fyrir að peningarnir leiti inn í banka sem (samkvæmt orðum Gylfa sjálfs) koma þeim ekki í umferð.

3.  Það segir enginn Hæstarétti fyrir verkum:  Mikið er gott að ráðherra er búinn að átta sig á því.  Ég get svarið, að mér fannst hann hafa verið að gera það í óteljandi ummælum í gær.

4.  Ósanngjörn lausn fyrir aðra lántakendur og lánveitendur, ef hluti þjóðarinnar fær gjafvexti sem lántakar hefðu aldrei geta fengið nema gert hafi verið ráð fyrir að um væru að ræða erlend lán með erlendum vöxtum: Það er nú svo margt í þessu, að ég ætla að búta þetta niður.

4.a  Ósanngjörn lausn fyrir aðra lántakendur og lánveitendur:  Sanngirni gildir í báðar áttir.  Af hverju er þetta ósanngjarnt núna, en þar það ekki þegar fólk var að kikkna undan byrðunum?  Er það bara ósanngjarnt þegar þeir ríku tapa?  Nei, ósanngirnið felst í vaxtastiginu, gengishruninu, verðbólgunni, verðbótunum og markaðsmisnotkun og fjárglæfraspili fjármálafyrirtækja, stjórnenda þeirra og eigenda í undanfara hrunsins.  Ósanngirnið felst í óbilgirni fjármálafyrirtækja og stjórnvalda að koma til móts við skuldsett heimili og fyrirtæki og verja í staðinn sökudólga hrunsins með kjafti og klóm.  Lántakar hafa ekki verið ósanngjarnir í sínum kröfum og ég held ekki að margir hafi búist við þeim málalyktum sem urðu í Hæstarétti í síðustu viku.  Það er ekki lántökum gengistryggðra lána að kenna, að SP-fjármögnun og Lýsing völdu að vera ekki með varakröfur eða varavarakröfu.  Lántakar gengistryggðra lána hafa ekki verið spurðir um hvernig framtíðarlánakerfi landsins á að vera, hvað þá hvaða vextir eiga að vera í framtíðinni á þeim lánum sem hér um ræðir.  Nei, það eina sem gerst hefur, er að menn kalla "ósanngjarnt, ósanngjarnt".

4.b  hluti þjóðarinnar fær gjafvexti:  Ég hef að nokkru svarað þessu að ofan.  En af hverju eru þetta gjafvextir núna en ekki áður en dómurinn féll.  Vextirnir hafa ekkert breyst svo ég viti.

4.c   lántakar hefðu aldrei geta fengið nema gert hafi verið ráð fyrir að um væru að ræða erlend lán með erlendum vöxtum: Hvað er maðurinn að segja?  Áttu við, Gylfi Magnússon, að bankarnir hafi veitt þessi lán í þeirri vissu að krónan myndi veikjast svo og svo mikið til þess að þeir gætu fengið góðan gengishagnað af þeim?  Takk fyrir.  Þú ert að leggja lántökum upp í hendur mjög góð rök í skaðabótamálum gegn bönkunum.  Hvaða máli skiptir í reynd hvernig fjármögnun lánanna var háttað?  Ég veit ekki betur en að þú, Gylfi Magnússon, haldir fram í svari eftir þig á Vísindavef Háskóla Íslands að í reynd hafi þessi lán verið fjármögnuð með vaxtaskiptasamningum í tengslum við jöklabréfin.  Vissulega mín túlkun á þínum orðum, en þú segir þar eitthvað á þann veg, að bankarnir hafi tekið lán í útlöndum og erlendir aðilar hafi gefið út jöklabréfin.  Síðan tóku erlendu aðilarnir að sér að greiða erlendu lánin, en íslensku bankarnir jöklabréfin.  Þannig kom aldrei ein evra af erlendu lánunum til landsins og fór aldrei ein króna af jöklabréfunum úr landi.  Krónurnar fóru í að veita "erlend lán" og gengistryggð lán á Íslandi.

5.  Ekki hvarflað að neinum að niðurstaðan yrði sú að gengistryggingin féll en vextirnir stæðu:  Æi, Gylfi, láttu ekki svona.  Björn Þorri Viktorsson sendi þér bréf í maí í fyrra, þar sem hann varaði þig við þessu.  Gunnar Tómasson, hagfræðingur sendi þér bréf í september í fyrra og varaði við þessu.  Skoðaðu þessa færslu hennar Láru Hönnu Löngu vitað um lögleysuna og þú sérð að það var búið að vara við þessu.  Þú bara hlustaðir ekki.  Ég skrifaði líka færslu um þessa vangaveltu mína og taldi einsýnt að ekkert kæmi í veg fyrir að LIBOR-vextirnir héldu þó gengistryggingin félli.  Vísaði ég þar til greinarinnar, sem þú kannt greinilega ekki og skoða á eftir.

6.  Í lögunum er beinlínis ákvæði sem kveður á um það að ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lán sé dæmt ólögmætt, þá eigi að miða við vexti Seðlabankans:  Sko, það er lágmark að fara rétt með tilvitnanir í lög. Í 18. gr. laga nr. 38/2001, sem ráðherra er að vísa í segir:

Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft.  Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.

Og í 4. gr. segir:

Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.

Takið sérstaklega eftir feitletruðu orðunum.  18. gr. á við um endurgreiðslu frá kröfuhafa og 4. gr. á bara við þegar vextir eða viðmið þeirra eru ekki tilgreind.

Síðan segir í b og c-lið 36. gr. laga nr. 7/1936:

Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag.

Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.

Það er sama hvernig Gylfi snýr þessu, þá vernda lögin neytandann en ekki lánveitandann.

Ég gæti haldið áfram og tekið ræðu Gylfa á þingi í dag, en ég nenni því ekki.