Góð ákvörðun ef rétt er eftir haft - Greiðsluáætlun á að gilda

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 25.6.2010.

Sé frétt RÚV rétt (hefur að vísu verið borin til baka), þá verður það gríðarlega stórt skref í rétta átt.  Hvort skrefið er í samræmi við ákvæði laga kemur ekki í ljós. 

Tekið skal fram að tveir stjórnarmenn Hagsmunasamtaka heimilanna áttu fund með framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja í dag og var sá fundur mjög góður.  Á fundinum kom fram að fjármálafyrirtækin fengu leyfi Samkeppnisstofnunar að ræða saman.  Mikill þrýstingur er á þeim að klára málið núna um helgina.

Við frá HH lögðum mikla áherslu á rétt neytenda og hömruðum á  36. gr. laga 7/1936 sem kveður á um að sé ágreiningum um túlkun samnings, þá gildir túlkun neytandans.  Ég held að þetta hafi komið SFF á óvart.  Þá lögðum við mikla áherslu á, að ekki yrðu sendir greiðsluseðlar til þeirra lántaka, sem eru búnir að inna af hendi hærri heildargreiðslu en nemur samtölu greiðslna samkvæmt greiðsluáætlun.  Fyrirtækin mættu ekki ganga lengri í innheimtu en næmi því sem greiðsluáætlun gerði ráð fyrir.  Það er skoðun samtakanna að slíkt væri alvarlegt brot á samningsskilmálum og í andstöðu við niðurstöðu Hæstaréttar og ákvæði 36. gr.  Vona ég að tekið verði tillit til þessarar ábendingar.

Við tjáðum SFF að það hafi alltaf verið markmið HH að hægt væri að viðhalda viðskiptasambandi fjármálafyrirtækjanna og viðskiptavina þeirra.  Það væri öllum til hagsbóta.

Tekið skal fram að tilgangur fundarins var ekki að komast að niðurstöðu eða sátt, heldur að koma sjónarmiðum á framfæri og skiptast á skoðunum.  Ég er sáttur við fundinn, en á eftir að sjá hvort farið verður eftir ábendingum okkar.  Ekki var samið um neitt á fundinum, enda hvorugur aðili með umboð til slíks.

Á undan fundinum með SFF áttum við hjá HH fund með AGS í þeim tilgangi að tryggja að réttar upplýsingar um skuldastöðu heimilanna kæmust á framfæri við sjóðinn.  Við útskýrðum skilning okkar á dóma Hæstaréttar, þ.e. að í þeim fælust þrenn skilaboð:

1.  Bílaleigusamningar væru lánasamningar

2.  Gengistrygging væri ólögleg.

3.  Engu öðru var breytt í lánasamningunum umfram gengistryggingarákvæðið

Í því ljósi bentum við líka á 36. gr. laga 7/1936, því AGS virtist hafa hreinlega fengið rangar upplýsingar um áhrif og niðurstöður dómanna.  Hvort sem fólki líkaði betur eða verr, þá tryggði greinin rétt neytenda að halda inni ákvæðum sem væru þeim hagstæð, þrátt fyrir að aðrar aðstæður hafi breyst.

Ég hef það á tilfinningunni að AGS finnist dómur Hæstaréttar lýsa, ja er ekki best að segja fúski.  Það furða sig allir á því að svona geti gerst, en gert er gert og þetta verður ekki tekið til baka.  Vissulega breyti þetta stöðunni, en við lögðum áherslu á að þetta breytti ekki skoðun okkur á að leiðrétta þyrfti verðtryggð lán heimilanna.