FÚSK

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 25.6.2010.

Ég fékk póst frá manni í kvöld sem er orðinn ákaflega þreyttur á stjórnvöldum og fjármálakerfinu.  Mér finnst að það sem hann sagði eigi erindi til fleiri og fékk því góðfúslegt leyfi hans til að birta  að eigin vali úr því sem hann ritaði.  Hér kemur það.

FÚSK - FÚSK - FÚSK

Það er bara til eitt orð yfir stjórn og fjármálakerfið hér og það er: FÚSK

Pétur Blöndal var eitthvað að tala um að erlendir fjárfestar misstu trú á íslendingum. Það er skaði sem er löngu orðinn og nú skilur maður svo vel af hverju. Þetta heimóttarlega lið fer út í heim og þykist ætla að eiga viðskipti með tugi og hundruð milljarða. Það eina sem hefur gerst er að menn hafa stolið fjármunum frá erlendum bönkum og svo ætla þeir í ofanálag að stela meiru af landsmönnum sjálfum. Fúskið og aulahátturinn er svo yfirgengilegur að maður á vart til orð. Eigum við að fara að treysta þessu liði fyrir því að reka banka. Ég held nú síður. Finna þarf fólkið sem hefur snefil af auðmýkt í hjarta og meira en hálfa hugsun í kollinum. Sjáið hvernig þeir taka á erindum hjá FME og fleirum. Hvað er þetta annað en fúsk?

Nú hef ég fengið að sjá nokkuð af þessum gengistryggðu lánasamningum. Þeir eru ótrúlegt fúsk. Yfirlýsingar Gylfa Magnússonar eru í mótsögn aftur og aftur og hreint fúsk. Yfirlýsingar Seðlabankastjóra eru fúsk. Hvað eru þessir herramenn að opna trantinn með þetta fúsk sitt? Bankarnir keppast nú við að bæta skaðann með því að lýsa því yfir að þeir þoli afleiðingar dóms Hæstaréttar. AGS voru búnir að gefa það út að þeir hefðu fengið 600 milljarða svigrúm fyrir heimilin og 2800 milljarða fyrir fyrirtækin. Hvar er allt þetta svigrúm núna? Það virðist ekki rata eitt einasta satt orð af munni þessara manna.

Kristinn "Sleggja" Gunnarsson ryðst fram á ritvöllinn og fúskar sem aldrei fyrr. Hann er einn af þeim sem greiddi atkvæði með lögum 38/2001. Það er algjörlega augljóst að hann var ekki starfinu vaxinn því hann vissi ekki hverju hann var að greiða atkvæði. Enn og aftur fúsk og til allrar hamingju komst hann ekki aftur á þing.

Nú þurfa hausar að fjúka takk. Fúskarana út úr kerfinu. Þetta eru afleiðingar vina, pólitískra og ættingjaráðninga í háar stöður. FÚSK.

Ég er ekki brjálaður, ég er bara með æluna í kokinu yfir þessu eilífa fúski landa minna. Hvað með ykkur? Eigum við að láta bjóða okkur meira fúsk í stjórnsýslu og fjármálakerfi? Af hverju er þessi fúskari sem er talsmaður Samtaka fjármálafyrirtækja ekki búinn að segja af sér? Hann vissi vel að gengistryggðar verðbreytingar væru ólöglegar. Gerði hann eitthvað í málinu? Nei, hann fúskaði bara. Ég er orðinn algjörlega samsinntur þeim sem vilja kæra persónur og leikendur. Kæra fúskarana og láta þá standa frammi fyrir því að missa aleiguna. Ég hef fengið nóg af vanhæfum lygurum á háum launum. 

----

Ég verð bara að segja eins og er, að síðustu dagar hafa fengið mig til að hugsa á líkum nótum.  Undanfarna tvo daga hef ég setið sveittur við að svara órökstuddum ummælum háttvirts efnahags- og viðskiptaráðherra, sem keppist við að gleyma öllu sem hann segir.  Þetta er sami maður og stóð á Austurvelli í janúar 2009 og talaði um að það glitti í löngutöng.  Og þetta er sami maðurinn og sagði á borgarafundi Hagsmunasamtaka heimilanna í september:

Í þessu tilviki er uppi réttarágreiningur. Úr honum skera dómstólar. Þegar úrskurður dómstóla liggur fyrir, þá fara menn að sjálfsögðu eftir honum. Það er bara einfaldlega þannig sem að réttarríkið virkar.

Og nú liggur úrskurður dómstóla fyrir, hvað gerist þá?  Jú, vegna þess að ráðherrann var tekinn í bólinu og hefur líklegast samið af sér við endurreisn bankanna vegna þess að hann hlustaði ekki á aðvaranir, þá skal ekki farið eftir dómi Hæstaréttar heldur reyna eftir öllum leiðum að komast hjá því.  Og hvers vegna?  Jú, vegna þess að hann er hræddur um að dómur Hæstaréttar leiðrétti stöðu lántaka meira en góðu hófi gegnir.  Vegna þess að áhrifin af dómi Hæstaréttar eru honum ekki að skapi.

Gylfi, við sjáum löngutöng vel núna.  Það er ekki sú sem þú talaðir um.  Ég held ég viti hver á hana.