Seðlabankastjóri með skáldskap í sjónvarpsfréttum og gerir lítið úr aðallögfræðingi sínum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.8.2010.

Það var merkilegt viðtal við Már Guðmundsson, seðlabankastjóra, í sjónvarpsfréttum.  Fyrst færir hann í stílinn, þegar hann segir að umræðan hafi verið á fullu í þjóðfélaginu um þessi mál í maí í fyrra.  Síðan gerir hann lítið úr aðallögfræðingi Seðlabankans og gefur í skyn að skoðun hans sé harla ómerkileg.

Skoðum fyrst þetta með umræðuna sem var á fullu.  Ég er í dag búinn að kemba þá vefmiðla sem bjóða upp á umræðu.  Einnig skoðaði ég hvort einhver fréttaflutningur hafi verið um þetta mál á þessum tíma.  Niðurstaða mín er sú, að ég hafi fjallað um þetta á blogginu mínu, Guðmundur Ásgeirsson á sínu og hugsanlega einhverjir örfáir í viðbót.  Frétt um þetta birtist á vef Hagsmunasamtaka heimilanna 17.4.2009 og AMX.is vefurinn vísaði í hana sama dag.  Elsta fréttin sem ég fann á vef Morgunblaðsins var frá 24. september 2009.  Á Eyjunni var elsta fréttin frá 12. febrúar á þessu ári.  Kastljós Sjónvarpsins fjallaði um þetta í byrjun september [leiðrétting:  fyrst var rætt um þetta 5. maí].  Lára Hanna Einarsdóttir, sem mikil hefur fjalla um þetta, var með fyrstu færsluna í september 2009.  Björn Þorri Viktorsson, lögmaður, tók málið upp og sendi þingheimi bréf 28. maí 2009, þ.e. heilum 10 dögum eftir að aðallögfræðingur Seðlabankans ritaði sitt álit.  Björgvin Halldór Björnsson, lögmaður, fékk birta grein í Morgunblaðinu 15. ágúst 2009.  Nei, staðreyndin er sú að orð Más eiga sér engin stoð í raunveruleikanum.  Annað hvort er hann að reyna að afvegaleiða umræðuna viljandi eða hann er að bulla.  Hafi einhver hjá Seðlabankanum talið honum trú um að umræðan hafi verið í fullum gangi, þá er Már nokkur vorkunn, en höfum í huga, að hann bjó í Basel í Sviss á þessum tíma og var varla að fylgjast grannt með því hvort einhverjir bloggarar væru að kvabba um hugsanlegt ólögmæti gengistryggðra lána.  Hafi umræðan átt sér stað, þá átti hún sér stað innan mjög þröngra hópa sem voru með andstæða skoðun.  Annar hópurinn var í kringum okkur sem stöndum í hagsmunabaráttu fyrir hönd skuldsettra heimila landsins og hinn hugsanlega innan fjármálageirans.  Það voru engin skoðanaskipti á milli þessara hópa, eins og svo nauðsynlega hefði þurft að vera og minnisblað Seðlabankans hefði getað stuðlað að.

Ég get aftur sagt Má það, að ég fylgdist mjög vel með umræðunni, vegna þess að það var ég sem kom henni af stað með færslu hér 17. apríl 2009 í kjölfar félagsfundar Hagsmunasamtaka heimilanna kvöldið áður.  Ég hefði tekið eftir því og gripið það á lofti, ef einhver umræða hefði átt sér stað á opinberum vettvangi.  En staðreyndin er sú, að á þessum tíma höfðu menn meiri áhuga og áhyggjur af kosningum og stjórnarmyndun, en hvort gengistrygging væri lögleg.

Það er þrautreynd aðferð að kasta fram tilhæfulausum staðhæfingum í þeirri von að engin geti hrakið hana.  Seðlabankastjóri er sekur um það í þessu tilfelli.  Málið er að hann var gripinn í bólinu.  Það slæma er að fréttamaðurinn, sem ræddi við hann, lét hann komast upp með þetta, vegna þess að hann vissi líklega ekki betur sjálfur eða trúði því ekki að seðlabankastjóri færi með skáldskap í sjónvarpsviðtali.  Þetta krafs Más er honum og Seðlabankanum til minnkunar.  Að fara með svona fyrir þjóðina myndi einhvers staðar í heiminum kalla á afsögn, en við búum á Íslandi og hér er talið eðlilegur hlutur að mennfæri í stílinn og komist upp með það.

Hitt atriði, sem Már minntist á, þ.e. að álit aðallögfræðings Seðlabankans hafi ekki haft neina vigt, finnst mér ekki síður alvarlegt.  Ef ég væri þessi aðallögfræðingur, þá myndi ég senda inn uppsagnarbréf á mánudag.  Eins og ég segi í annarri færslu hér í dag, þá á virðing seðlabanka að vera slík, að orð starfsmanna hans eiga að vera talin ótvíræð og hafin yfir vafa.  Það er greinilega ekki skoðun núverandi seðlabankastjóra á þessum starfsmanni sínum.  Hann gerir lítið úr aðallögfræðingi sínum, eins og lögfræðingurinn hafi ekkert vægi.  Svo ýkir hann að Seðlabankinn hafi leitað margra álita og þess vegna skipti álit aðallögfræðingsins ekki máli.  Ég held að Már ætti að lesa svar Seðlabankans til nefnda Alþingis.  Þar kemur skýrt fram að leitað var eins álits, þ.e. til lögmannsstofunnar LEX, og að aðallögfræðingur Seðlabankans hafi skrifað minnisblað, þar sem tekið er undir niðurstöðu álitsins um að gengistrygging lána kynni að vera ólögmæt.

Ég átta mig alveg á því af hverju Már er að þessu.  Þetta er kunnugleg aðferð, þegar menn hafa verið teknir með allt niður um sig.  Menn reyna að gera lítið úr klúðrinu.  Segja það ómerkilegt og ekki skipta máli.  Þá reyna með að ljúga til um staðreyndir.  Á mánudaginn getum við síðan búist við því að einhverri smjörklípu verði hent í þá sem gagnrýna Seðlabankann, næst verður reynt að þegja málið af sér og vona að það gangi yfir og svo loks þegar það allt bregst, þá kannski mun Seðlabankinn viðurkenna að hann hafi kannski átt að bregðast öðruvísi við.  En það er undir fjölmiðlum komið hvort þeir láta Seðlabankann komast upp með þetta.

Mér finnst það fráleitt að mikilvægt lögfræðiálit og minnisblað aðallögfræðings Seðlabanka Íslands sé afgreitt eins og ómerkilegur skeinispappír.  Mér finnst ennþá verra að Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sé að reyna að snúa sig út úr klúðri bankans.  Ég vil ekki nota orðið lygar, þar sem hugsanlega veit Már ekki betur, en það þýðir að starfsmenn bankans eru að misnota hann.  Kjarninn í málflutningi Más er það sem kom fram í yfirlýsingu Seðlabankans í gær og eins og hef bent á, var sú yfirlýsing ekki sannleikanum samkvæmt. 

Er þetta virkilega leið Seðlabankans til að ávinna sér traust?  Trausts sem hann er búinn að glata eftir ótrúleg mistök bankans á undangengnum árum.  Kannski vill Seðlabankinn ekki ávinna sér trausts á ný.  Kannski er honum alveg jafn skítsama um orðspor sitt núna og áður.  Ég held að Seðlabankinn vilji öðlast trausts þjóðarinnar og vil því gefa honum heilráð um hvernig hann geti byrjað að vinna að því: 

Seðlabankinn á að viðurkenna að bankanum hafi orðið á mistök við að vekja ekki athygli á lögfræðiáliti LEX lögmannsstofu og minnisblaði aðallögfræðings Seðlabankans.  Hann á að biðjast afsökunar á þeim mistökum.  Loks á hann að birta álitið og minnisblaðið án frekari málalenginga.

En skömmin er fleiri en Seðlabankans þar sem aðrir sátu á upplýsingunum.  Þessir aðilar geta ákveðið að fara heiðarlegu leiðina og sagt rétt frá eða farið þá óheiðarlegu og skáldað eitthvað bull.  Forvitnileg er að vita hvor leiðin verður farin.  En hver sem niðurstaðan er, þá held ég að aðallögfræðingi Seðlabankans hafi verið hafnað.  Hans áliti er ekki treyst.  Hann á því ekkert erindi í stöðu sinni og eðlilegt er að Seðlabankinn leiti sér að nýju aðallögfræðingi, sem yfirstjón bankans ber traust til.  Það er ekki bara að álit hans hafi verið hunsað í fyrravor af Seðlabankanum og viðskiptaráðuneytinu, heldur bítur Seðlabankinn og seðlabankastjóri höfuðið af skömminni með því að gera lítið úr honum opinberlega núna til að verja mistök sín.  Raunar ætti ég að segja "henni", þar sem aðallögfræðingur Seðlabankans er kvenmaður.  Er það kannski ástæðan fyrir því að aðallögfræðingnum er ekki treyst?  Það hlýtur a.m.k. að vera undarlegt að lesa í yfirlýsingu bankans og hlusta á yfirmann sinn lýsa því yfir að minnisblaðið sem samið var, hafi verið einskis virði.  Ég hef heyrt léttvægari vantraustsyfirlýsingu en þetta.