Seðlabankinn missagna og gerir lítið úr aðallögfræðingi sínum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.8.2010.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins, þá segir í minnisblaði Seðlabankans til fjölmiðla:

Seðlabankinn áréttar að einungis eitt lögfræðiálit hafi talið það "ekki ólíklegt" að lánin væru ólögmæt en álit ýmissa annarra lögfræðinga hafi gengið í aðra átt.

Þetta er ekki orðalagið í svari Seðlabankans til efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar.  Þar segir orðrétt:

Í tilefni af útgáfu Seðlabanka Íslands á fréttatilkynningu, hinn 6. maí 2009, varðandi tiltekna framkvæmd til samræmis við reglur um gjaldeyrismál, aflaði Seðlabanki Íslands lögfræðiálits.  Með fréttatilkynningunni skýrði Seðlabankinn út afstöðu bankans og gjaldeyriseftirlitsins gagnvart slíkri lánaframkvæmd.

Nánar tiltekið var leitað til Lögmannsstofnunnar LEX og óskað eftir áliti á því hvort þær aðgerðir sem vísað var til í fréttatilkynningu Seðlabankans væru í samræmi við lög nr. 38/2001 annars vegar, og hvert væri inntak heimilda til að verðtryggja lán í íslenskum krónum með hliðsjón af lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hins vegar.  Niðurstaða álitsins, sem dagsett er 12. maí 2009, var sú að það kynni að vera óheimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, án þess að það hefði þó áhrif á heimildir til að taka lán í erlendri mynt, og jafnframt var í því ljósi lögð til ákveðin breyting á áður auglýstri framkvæmt á gjaldeyrisreglum og -eftirliti.

Í kjölfarið ritaði aðallögfræðingur Seðlabankans minnisblað, dags. 18. maí 2009, varðandi heimildir til gengistryggingar lána skv. lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, þar sem ofangreint lögfræðiálit var reifað og sú niðurstaða sett fram að tekið væri undir lögfræðiálitið með þeim fyrirvara, að ekki væru allir lögfræðingar sammála um þá túlkun og að dómstólar myndu eiga síðast[a] orðið.

(Feitletranir mínar) 

Þarna er ekkert talað um fleiri álit, heldur er talað um skoðanir.  Það er tvennt ólíkt.  Seðlabankinn fékk lögmannsstofuna LEX til að vinna fyrir sig formlegt lögfræðiálit og aðallögfræðingur Seðlabankans skrifar minnisblað, þar sem tekið er undir lögfræðiálit lögmannsstofunnar LEX.  Halda menn að þeir komist upp með einhvern útúrsnúning hérna.  Hvers virði er álit aðallögfræðings Seðlabankans, ef menn telja ekki ástæðu til að taka það alvarlega vegna þess að einhverjir aðrir gætu haft aðra skoðun?  Ég skil hreinlega ekki hvers vegna Seðlabankinn er að hafa aðallögfræðing sem leitað er til, ef niðurstaða hans skiptir ekki máli, þar sem einhverjir aðrir gætu haft aðra skoðun.  Það munu alltaf einhverjir hafa aðra skoðun. 

Ekki vafðist það fyrir Seðlabankanum að senda frá sér tilmæli 30. júní sl.  Samt var alveg öruggt að einhverjir myndu hafa aðra skoðun.  Samkvæmt röksemdarfærslu bankans í minnisblaðinu (eins og Morgunblaðið birtir það), þá gat Seðlabankinn ekki gripið til aðgerða í maí 2009, vegna þess að einhverjir lögfræðingar höfðu aðra skoðun.  Bíddu nú við.  Áður en tilmælin voru birt 30. júní, þá hafði hópur lögfræðinga tjáð sig um að ekki kæmi annað til greina en að samningsvextir giltu.  Samt gaf Seðlabankinn út tilmælin.

Mér finnst það stórmerkilegt, að lögfræðiálit aðallögfræðings Seðlabanka Íslands skipti ekki neinu máli.  Kannski sýnir það, að Seðlabankinn hefur glatað virðingu sinni gagnvart þjóðinni og sjálfstraust bankans er þorrið.  Alls staðar í hinum vestræna heimi eru skoðanir seðlabanka það sem gengur næst heilögum sannleika.  Vægi orða seðlabankastjóra er víðast þannig að markaðir leggjast á hliðina ef bankastjórinn hóstar.  Það sama á við um lögfræðiálit seðlabanka á Vesturlöndum.  Þau eru næst lögum að vægi.  Það er nákvæmlega ekkert léttvægt við slíkt álit.  Aðallögfræðingur Seðlabanka Bandaríkjanna eða Evrópu skilar ekki frá sér áliti eða minnisblaði nema að það sé pottþétt.  Það sama gildir um aðallögfræðing Seðlabanka Íslands.  Hafi aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands komist að þeirri niðurstöðu að gengistrygging væri líklegast ólögleg, þá getur enginn innan Seðlabankans, fjármálageirans eða stjórnarráðsins ákveðið að hunsa slíkt álit.  Geri menn það, þá getur aðallögfræðingur Seðlabankans bara sagt af sér.  Hann er fallinn af stalli.

Það þýðir ekkert fyrir Seðlabanka Íslands að reyna að gera lítið úr minnisblaði aðallögfræðings bankans með þeim orðum að aðrir lögfræðingar gætu verið ósammála.  Það skiptir ekki máli.  Það sem skiptir máli er álit aðallögfræðings Seðlabanka Íslands.  Hann tjáði sig með að því virðist afgerandi hætti og það á að vera nóg til þess að hringja bjöllum í öllu stjórnkerfinu.  Að það hafi ekki gerst er skandall.  Sá embættismaður sem ákvað að hunsa álit aðallögfræðings Seðlabanka Íslands hann var að ganga gegn Seðlabankanum.  Svo einfalt er það.  Slíkur embættismaður, sem nú hefur orðið uppvís að því að hafa jafnvel kostað skattgreiðendur 50 - 100 milljarða (ég á ekki von á því að upphæðin verði hærri), hann á að víkja úr sínu starfi.  Sé það ráðherra, þá á hann að segja af sér.  Sé það fjármálaráðherra eða forsætisráðherra, þá verður ríkisstjórnin að fara frá.  Ég þori að fullyrða, að hvergi í hinum vestræna heimi myndi embættismanni dirfast að setja sig upp á móti áliti aðallögfræðings seðlabanka án þess að það ylli úlfaþyt og kæmist í fjölmiðla.  En við búum á Íslandi og prótókoll hefur aldrei verið okkar sterkasta hlið.


Álitin orkuðu tvímælis