Skildi hvorki spurninguna né minnisblaðið

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 14.8.2010.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, kemur með sína skýringu á svari sínu til Ragnheiðar Ríkharðsdóttur og heldur áfram að hagræða sannleikanum.  Eða er hann að opinbera að hann hvorki skildi spurningu Ragnheiðar né minnisblað Sigríðar Rafnar Pétursdóttur.

Hann byrjar að skýla sér bakvið að í umræðunni "í þinginu var ýmist talað um myntkörfulán, erlend lán eða lán í erlendri mynt".  Það er gott og blessað en spurning Ragnheiðar hljómaði sem hér segir:

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Í ljósi þessarar fyrirspurnar langar mig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra. Svo virðist sem myntkörfulánin séu í raun hrein krónulán en með erlendu viðmiði. Því spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra: Telur hann lögmæti slíkra lána hafið yfir allan vafa þegar höfð eru til hliðsjónar lög nr. 38/2001, um vexti og verðbætur? Þar kemur fram að ekki megi miða lán við neitt annað en það sem þar stendur. Því spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra: Telur hann lögmæti myntkörfulána hafið yfir allan vafa?

(Feitletrun mín.)

Ragnheiður var því hvorki að spyrja um "erlend lán eða lán í erlendri mynt".  Hún var að spyrja um myntkörfulán sem að hennar mati virðast vera "í raun hrein krónulán en með erlendu viðmiði".  Ekkert um "erlend lán eða lán í erlendri mynt".  Samt svarar Gylfi henni með eftirfarandi:

Viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (U):

Frú forseti. Ég vík fyrst að fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti lána í erlendri mynt. Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt.

Hann tekur sérstaklega fram að hann ætli fyrst að víkja að fyrirspurn Ragnheiðar og segir hana snúast um "lögmæti lána í erlendri mynt".  En það er bara ekki rétt.  Ragnheiður spurði hvort hann teldi "lögmæti myntkörfulána hafið yfir allan vafa".  Hvernig getur maðurinn sagt, að hann hafi ekki verið að afvegaleiða umræðuna, þegar hann segir í dag að svar sitt hafi snúist um "erlend lán", en kemur með inngang um að hann sé að víkja að "fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur", sem var um lögmæti myntkörfulána.  Þetta segir mér að hann hafi annað hvort ekki skilið spurningu Ragnheiðar eða vísvitandi svarað henni vitlaust og þar með afvegaleitt þingið.

Nú hann virðist ekki heldur skilja minnisblað Sigríðar Rafnar Pétursdóttur, þegar hann segir í seinni hluta tilvísunar minnar:

Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt.

Aftur verðum við að hafa í huga að Ragnheiður var að spyrja um "myntkröfulán" ekki "erlend lán eða lán í erlendri mynt".  Hann er því annað hvort að afvegaleiða þingið eða skilur ekki álit Sigríðar Rafnar.

Það er rétt að Sigríður Rafnar segir ekkert í lögum sem banni lánveitingar í erlendum gjaldmiðli:

Að mati undirritaðrar verður þó ekki lagður sá skilningur í ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, út frá umræddu ákvæði, að þau banni lánveitingar í erlendum gjaldmiðli og tengingu við gengi þeirra í lánssamningum með hliðsjón af gildissviði VI. kafla laganna og meginreglunni um samningsfrelsi.

En spurningin snerist ekki um "lánveitingar í erlendum gjaldmiðli" heldur myntkörfulán sem að mati Ragnheiðar "séu í raun hrein krónulán en með erlendu viðmiði".  Það merkilega við álit Sigríðar Rafnar, Sigríðar Logadóttur, LEX lögmannsstofu og Gísla Tryggvasonar, talsmanns neytenda, er að öll komast að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að tengja fjárskuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Gylfi Magnússon hafði því undir höndum eða aðgang að fjórum lögfræðiálitum innan úr stjórnsýslunni eða sem stjórnsýslan hafði óskað eftir, sem öll sögðu að lánin sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði um væru með óheimila gengistryggingu.  Ekkert þessara álita tók á nokkurn hátt undir að einhver vafi væri á þessu.  Það sem aftur Sigríður Rafnar Pétursdóttir segir að vafi leiki á því hvaða lán teljist gengistryggð og hver ekki:

Það getur verið álitaefni hvort um ræði lánveitingu í erlendum gjaldmiðli  eða  lánveitingu í íslenskum krónum.  Lánssamningar eru mismunandi og túlkun þeirra skiptir máli.  Úr slíku álitaefni verður að skera á grundvelli þeirra samningsskilmála sem við eiga hverju sinni, með hliðsjón af atvikum við samningsgerð, stöðu samningsaðila o.s.frv.  Heildarmat verður að fara fram á efni samnings, þ.m.t. samningskjörum, enda kunna atvik eða skilmálar að renna stoðum undir að lán sé í þeirri mynt sem tilgreind er eða jafnvel benda til þess að lán sé í raun í annarri mynt þrátt fyrir tiltekið orðalag.

Gylfi var ekki beðinn um að slíka greiningu, en ef ég ætti að búa til rétt svar við spurningu Ragnheiðar út frá minnisblaði Sigríðar Rafnar, þá væri það eftirfarandi:

Viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (U):

Frú forseti. Ég vík fyrst að fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti myntkörfulána. Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að óheimilt sé samkvæmt 13. og 14. gr. vaxtalaga nr 38/2001 að tengja fjárskuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Það sem aftur leiki vafi á um sé hvaða lán teljast falla undir þetta ákvæði laganna og því sé ekki sjálfgefið að myntkörfulán séu ólögmæt.  Nauðsynlegt geti að fá úrskurð dómstóla um slíkt.  Þau lán sem ekki falla undir ákvæði vaxtalaganna, gætu verið lögleg að mati lögfræðings ráðuneytisins.

Þetta er rétt svar við spurningu Ragnheiðar og hefði átt að vera svar Gylfa.  Með þessu væri hann ekki að segja að öll svona lán væru afdráttarlaust með ólöglega gengistryggingu og heldur ekki að segja að öll form erlendra lána væru afdráttarlaust lögleg.  Málið er nefnilega að Sigríður Rafnar tekur nefnilega ekki afdráttarlausa afstöðu í hvorugu tilfelli.  Bara að annað sé í einhverjum tilfellum ólögleg og í hinu að 13. og 14. gr. banni lánin ekki, en ekkert er sagt til um önnur ákvæði laga eða önnur álitaefni sem gætu tengst slíkri lánveitingu.


Ekki kappsmál að vera ráðherra